Skákhátíð á Ströndum haldin í fimmta sinn: Afmælismót til heiðurs Róbert Lagerman.
Fjórir skákviðburðir á 3 dögum. Teflt á Hólmavík, Djúpavík, Trékyllisvík og Norðurfirði. Skákhátíð á Ströndum verður haldin 22. til 24. júní, og er efnt til skákviðburða á Hólmavík, Djúpavík, Trékyllisvík og Norðurfirði. Þetta er fimmta árið í röð sem sumarhátíð er haldin í Árneshreppi. Meðal keppenda eru stórmeistarar og óðalsbændur,undrabörn og áhugamenn úr öllum áttum. Hátíðinni er ekki síst ætlað að kynna töfraheim Strandasýslu,einstætt mannlífið og hrífandi náttúruna. Skákhátíðin hefst á Hólmavík föstudaginn 22. júní og um kvöldið er hið árlega tvískákmót í Hótel Djúpavík. Þar eru tveir saman í liði, og fjörið allsráðandi. Laugardaginn 23. júní er svo komið að Afmælismóti Róberts Lagerman,en meistarinn verður fimmtugur síðar í sumar. Róbert er sá skákmeistari sem oftast hefur heimsótt Árneshrepp,og hann hefur tekið þátt í fjölmörgum skákviðburðum í sveitinni. Róbert hefur um árabil verið meðal sterkustu skákmanna landsins, en hefur ekki síður unnið þrekvirki við að útbreiða fagnaðarerindi skáklistarinnar á Íslandi og Grænlandi.
Verðlaunafé á mótinu er:
1. verðlaun 30.000 kr.
2. verðlaun 15.000 kr.
3. verðlaun 10.000 kr.
Sérstök verðlaun:
Besti árangur kvenna 10.000 kr.
Besti árangur heimamanns (lögheimili í Strandasýslu) 10.000 kr.
Besti árangur 18 ára og yngri 10.000 kr.
Besti árangur 12 ára og yngri 10.000 kr.
Besti árangur 0-2000 stiga skákmanna 10.000 kr.
Fjölmörg önnur verðlaun verða veitt, meðal annars handverk og listmunir úr Árneshreppi.
Sunnudaginn 24. júní liggur leiðin í Kaffi Norðurfjörð. Þar verður nú í fimmta sinn teflt um hinn eftirsótta titil Norðurfjarðameistarans. Meðal fyrri handhafa eru Jóhann Hjartarson og Róbert Lagerman. Ríkjandi Norðurfjarðarmeistari er Gunnar Björnsson,forseti Skáksambands Íslands.
Margir gistimöguleikar eru í boði, auk þess sem tjaldstæði eru á nokkrum stöðum í Árneshreppi:
Hótel Djúpavík gerir gestum Skákhátíðar á Ströndum gott boð: Gisting í 2 nætur í tveggja manna herbergi, tveir kvöldverðir og tveir morgunverðir fyrir 16.000 krónur. Netfang: djupavik@snerpa.is Sími: 451 4037
Gistiheimilið í Norðurfirði býður uppá svefnpokapláss eða uppábúin rúm í vistlegum húsakynnum. Netfang: gulledda@simnet.is Sími: 554 4089
Gistiheimilið Bergistanga býður upp á svefnpokapláss fyrir einstaklinga og hópa, með eldunaraðstöðu. Einnig notaleg herbergi með uppábúnum rúmum. Sími: 451 4003
Finnbogastaðaskóli. Svefnpokapláss fyrir einstaklinga og fjölskyldufólk.
Skákhátíð á Ströndum hefur stofnað Facebook-síðu, en einnig er hægt að skrá sig hjá Hrafni hrafnjokuls@hotmail.com og Andreu andreamg@ruv.is, sem einnig veita frekari upplýsingar um ævintýraferð á Strandir.