Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 4. september 2017 Prenta

Skipulagsbreytingar vegna vegagerðar við Hvalá.

Niðri Rjúkandi í Hvalá. Mynd Vesturverk.
Niðri Rjúkandi í Hvalá. Mynd Vesturverk.

Sveitarfélagið Árneshreppur á Ströndum hefur birt tillögur að breytingum deiliskipulags og aðalskipulags vegna Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði og auglýsir nú eftir athugasemdum við þær og umhverfisskýrslu. Byggja þarf vegi og vinnubúðir svo hægt sé að fara með rannsóknartæki inn á svæðið fyrir hönnun virkjunarinnar.

Aðalskipulag Árneshrepps 2005-2025 var staðfest í janúar 2014, en þar er gert ráð fyrir Hvalárvirkjun, tengingu hennar við landsnetið og bættum samgöngum. Skipulagsbreytingarnar sem nú liggja fyrir varða útfærslu á þáttum virkjunarinnar sem ekki lágu fyrir þegar aðalskipulagið var samþykkt.

Við vinnslu skipulagsáætlananna kom í ljós að æskilegt er að afla frekari gagna fyrir hönnun virkjunarinnar og gerð skipulagsins. Til að svo geti orðið þarf að vera mögulegt að fara með rannsóknartæki inn á skipulagssvæðið og koma upp starfsmannaaðstöðu, en það kallar á breytt aðalskipulag og nýtt deiliskipulag.

Í tillögunum kemur fram hvaða umsagnir hafi borist við skipulags- og matslýsingu. Skipulagsstofnun hafi gert ýmsar ábendingar, svo sem að meta valkosti um legu og gerð Hvalárlínu og Ófeigsfjarðarvegar. „Bent er á að fjalla þurfi um þróun umhverfisins án virkjunar til samanburðar við fyrirhugaðar framkvæmdir og að þrengja virkjunarsvæðið og setja hverfisvernd á þau svæði sem enn falla undir skilgreiningu víðerna,“ segir þar. Umhverfisstofnun gerði engar athugasemdir en Landvernd hvatti hreppsnefnd Árneshrepps „eindregið til að falla frá öllum hugmyndum um Hvalárvirkjun en leita þess í stað eftir stuðningi þjóðarinnar og ríkisvaldsins við uppbyggingu þjóðgarðs sem langtímalausnar til styrkingu atvinnulífs á Ströndum.“ Þá gerir Landvernd athugasemdir við að einungis verði metnir tveir valkostir, það er „núllkostur og skipulagstillagan“.

Áformað er með byggingu Hvalárvirkjunar að virkja rennsli Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará til raforkuframleiðslu. Gert er ráð fyrir að afl virkjunarinnar verði um 55 MW og orkuframleiðsla verði um 320 GWh á ári. Hvalárvirkjun er einn þeirra virkjunarkosta sem metnir voru í 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Í þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða var Hvalárvirkjun skipuð í orkunýtingarflokk og var annar af aðeins tveimur vatnsaflskostum í nýtingarflokki. Jafnframt var Hvalárvirkjun eini kosturinn í nýtingarflokki á Vestfjörðum. Í tillögu verkefnastjórnar 3. áfanga áætlunarinnar er virkjunin áfram í nýtingarflokki.

Deiliskipulagstillagan hér.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Úr myndasafni

  • Ágúst Guðjónsson sér um blöndunina..06-09-08.
  • Gamla hreppstjórahúsið á Eyri-24-07-2004.
  • Axelshús Gjögri-05-07-2004.
  • Frá brunanum 16-06-2008.
  • Báturinn Agnes fer ekki lengra inn og sleppir flotanum.
  • Unnið í minni sperrum og rétt af.06-11-08.
Vefumsjón