Skýrsla um lausnir við fjárhagsvanda hafna.
Meðal tillagna nefndar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um fjárhagsvanda hafna er að endurskoða þurfi hafnalög, verkaskipting hafna verði auðvelduð og úrelding gerð möguleg og að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga verði falið að hafa sérstakt eftirlit með rekstri hafna.
Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skipaði í febrúar á síðasta ári nefnd til að gera tillögur um hvernig bregðast mætti við fjárhagsvanda hafna. Nefndin skilaði ráðherra skýrslu sinni fyrir helgina og er þar að finna viðamikla greiningu á fjárhagsvanda hafna og ýmsar tillögur um hvernig bæta má fjárhagsstöðu þeirra.
Formaður nefndarinnar var Smári Geirsson, kennari og sveitarstjórnarmaður, skipaður samkvæmt tilnefningu Hafnasambands Íslands. Aðrir í nefndinni voru Gunnlaugur Júlíusson, skipaður samkvæmt tilnefningu Hafnasambands Íslands, Ólafur Örn Ólafsson, skipaður án tilnefningar, Sigurður Áss Grétarsson, skipaður án tilnefningar, Stefanía Traustadóttir, skipuð án tilnefningar, Svanhvít Axelsdóttir, skipuð án tilnefningar og Magnús Jónsson, skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Starfsmaður nefndarinnar var Rúnar Guðjónsson, viðskiptafræðingur, í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
Vandinn liggur í miklum skuldum
Nefndin telur að vandi hafna liggi meðal annars í eftirfarandi atriðum: Of miklum skuldum, of lágum tekjum, að tekjustofnar eru ekki fullnýttir, niðurskurði þorskkvóta, fækkun hafna sem hafa tekjur af afla og vöruflutningum, sjóflutningar hafa verið lagðir af, endurnýjun og viðhald hafna í lágmarki auk þess sem nefna má að áföll einstakra hafna hafa haft sitt að segja.
Meðal nokkurra tillagna nefndarinnar eru þessar:
Að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga verði falið að hafa sérstakt eftirlit með rekstri hafna enda oft um veigamikinn hluta af rekstri sveitarfélaga að ræða.
Að endurskoða beri hafnalögin eða eftir atvikum önnur lög sem í samræmi við það viðhorf að ekki er um virka samkeppni að ræða á milli hafna.
Höfnum verði auðveldað verði að taka upp verkaskiptingu eða úrelda þær eftir því sem við á til dæmis í sambandi við sameiningu sveitarfélaga.
Veittir verði úreldingarstyrkir til að úrelda stakar hafnir með yfirtöku skulda viðkomandi hafna eða að úrelda stök hafnamannvirki með tilliti til breytts hlutverks viðkomandi hafnar.
Hafnamannvirki, sem eingöngu eru ætluð til samgangna eins og ferjubryggjur, verði styrkt að fullu af ríkisvaldi og verði í eigu þess. Samin verði sérstök gjaldskrá fyrir ferjur sem taki á öllum rekstrarkostnaði þeirra.
Að reiknað verði út hver kostnaður er við landflutninga, þ.e. hvaða kostnaðarauki er fylgjandi þeim í vegagerð og viðhaldi vega. Þannig megi meta með meiri nákvæmni hagkvæmni þess að færa flutninga af vegum á sjó.
Skýrsla nefndar um tillögur hvernig bregðast megi við fjárhagsvanda hafna.