Stefnumót á Ströndum.
Stefnumót á Ströndum, atvinnu- og menningarsýning verður opnuð við hátíðlega athöfn laugardaginn 29. ágúst í Félagsheimilinu á Hólmavík. Yfir 60 sýningaraðilar, fullorðnir og börn, allt frá Hrútafirði, norður í Ófeigsfjörð og yfir í Djúp, taka þátt í sýningunni sem er bæði fjölbreytt og fróðleg. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, er verndari sýningarinnar.
Á Ströndum er öflugt athafna- og menningarlíf sem landsmönnum öllum er boðið velkomið að taka þátt í. Er það von Strandamanna að farsælt samstarf ólíkra aðila efli byggð og verði kveikja að nýjum hugmyndum til framfara.
Markmið með sýningunni er tvíþætt:
-Efla ímynd Stranda út á við sem aðlaðandi búsetu-, ráðstefnu- og ferðamannasvæði.
-Efla tengsl ólíkra aðila á Ströndum með því að leiða saman hefðbundna og óhefðbundna starfsemi.
Varða til framtíðar
Á opnunardaginn hlaða fjórir ættliðir Strandamanna, þeir Sverrir Guðbrandsson eldri, Guðbrandur Sverrisson, Sverrir Guðbrandsson yngri og Jakob Ingi Sverrisson, vörðu til framtíðar við Félagsheimilið á Hólmavík. Þátttakendur og gestir Stefnumóts á Ströndum, eru hvattir til að koma með stein í vörðuna úr sinni heimabyggð.
Vinahlaup um Arnkötludal
Sama dag hlaupa Strandamenn og íbúar Reykhólasveitar um nýjan veg um Arnkötludal sem opnaður verður síðar í haust og skiptast á vinakveðjum. Vinakveðjan er tákn um mikilvægi samstarfs milli héraða og landshluta. Opnun vegarins eflir tengsl milli þessara svæða og skapar margvísleg ný tækifæri .
Stefnumót á Ströndum, atvinnu og menningarsýning opnar kl. 13:00. Dagskrána má nálgast á slóðinni www.strandir.is/stefnumot Landsmenn allir eru hvattir til að taka þátt í fjörugri helgi þar sem heimamenn sýna allt það besta sem þeir hafa upp á að bjóða.