Stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur safna meðmælendum í dag.
Í morgun hófu stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur söfnun meðmælenda um allt land vegna forsetaframboðs hennar. Um það bil 320 manns taka þátt, 100 á höfuðborgarsvæðinu og 220 út um land. Enn er fólk að bætast í hópinn. Stuðningsmennirnir komu saman á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Annars vegar í gömlu heilsuverndarstöðinni að Barónsstíg 47, en þar verður aðalkosningaskrifstofa framboðsins. Hins vegar hittist hópur á heimili Þóru og Svavars Halldórssonar í Hafnarfirði. Á báðum stöðum var boðið upp á morgunkaffi með heimabakstri sem stuðningsmenn lögðu til. Skipulögð söfnun meðmælenda verður á a.m.k. 51 stað á landinu í dag og stuðningsmenn Þóru fara um flest sveitarfélög. Þeir verða við verslanir, á bensínstöðvum, á bryggjunni - hvar sem fólk kemur saman. Vestfirska verslunin við Silfurtorg á Ísafirði er einn þeirra staða sem verður að að nokkurs konar kosningaskrifstofu í dag og þar verður tónlistarflutningur og heitt á könnunni. Á nokkrum stöðum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar, er í boði súpa eða annað góðgæti í heimahúsum og meðmælendalistar liggja þar frammi.