Þyrftum öll að vera frá Trékyllisvík.
Fundinn opnaði Albertína F. Elíasdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, þá kom Ásthildur Sturludóttir, sveitarstjóri úr Vesturbyggð, svo Eyrún I. Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps og Elías Jónatansson, bæjarstjóri Bolungavíkurkaupstaðar. Lestina rak í hópi framsögumanna, Ingibjörg Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar. Fleiri tóku til máls í umræðunum og má þar nefna Daníel Jakobsson, bæjarstjóra á Ísafirði.
Rauði þráðurinn í málflutningi sveitarstjórnarfólksins var öllum augljós: Við viljum sitja við sama borð og aðrir landsmenn í samgöngumálum, hvað varðar húshitunarkostnað, flutningskostnað og velferðarþjónustu. Ekkert meira, ekkert minna, bara sama og aðrir.
Margt var vel sagt á þessum fundi. Eftirminnileg eru orð Ingibjargar, sveitarstjóra Strandabyggðar, sem minntist æskuára sinna í Trékyllisvík. Sú vík væri ekki smá í sínum huga heldur stór og hefði farið vaxandi í vitund sinni eftir því sem á ævina hefði liðið og hún sjálf farið víðar um heiminn. Henni mæltist á þá leið að sér fyndust forréttindi að færa ungu barni sínu þennan stað til fá rótfestu fyrir lífið. Það sem Ingibjörg Strandakona og valkyrjurnar af Vestfjöðrum voru að segja - fyrirgefið strákar, þið voruð líka flottir - var ef til vill fyrst og fremst þetta: Við megum aldrei gleyma því að alls staðar búa í fólki hæfileikar og sköpunarkraftur. Á hann má ekki stíga. Hann verður að virkja og láta blómstra okkur öllum til góðs.