Úr dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum. 27-12-2016 til 02-01-2017.
Skemmtanahald í umdæminu yfir jól og áramót fór vel fram.
Í vikunni hafði lögreglan afskipti af ökumanni sem var að flytja farm á vörubíllspalli. Farmurinn var ekki nægjanlega festur og voru gerðar athugasemdir við það.
Í vikunni hafði lögreglan afskipti af ökumanni sem ekki gaf stefnuljós og voru gerðar athugasemdir við það. Við nánari skoðun kom í ljós að ökutækið var ótryggt og voru númer þess tekin af og bifreiðin þannig tekin út umferð.
Tveir ökumenn voru kærðir í vikunni fyrir of hraðan akstur. Báðir voru þeir í akstri í Arnkötludal, annar á 112 km hraða en hinn á 105 km hraða. Hámarkshraði þar er 90 eins og kunnugt er.
Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni. En það var um miðjan dag þann 30. desember þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni á Súgandafjarðarvegi, skammt fyrir utan gangamunnan í botni fjarðarins. Bifreiðin rann út af veginum og valt. Mikil hálka var og ný fallinn snjór á veginum þegar atvikið gerðist. Ökumaður, sem var einsamall í bifreiðinni, hlaut ekki alvarleg meiðsl enda spenntur í öryggisbelti. Hann var þó fluttur til skoðunar á sjúkrahúsið á Ísafirði.
Um miðjan dag gamlársdags óskaði lögreglan á Vestfjörðum eftir aðstoð björgunarsveita á Ísafirði og nágrenni við leit að manni sem hafði farið í göngutúr heimanað frá sér fyrr þann sama dag. Hann hafði ekki skilað sér heim og var fjölskylda hans farin að óttast. Maðurinn, fimmtugur að aldri, hafði lamast að hluta vegna heilablóðfalls sem hann fékk fyrr á árinu. Hann gekk við staf. Skömmu eftir að leitin hófst fannst maðurinn. Hann reyndist látinn. Björgunarsveitarmönnum og öðrum er tóku þátt í leitinni eru færðar þakkir fyrir aðstoðina. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum.