Útgáfutónleikar á Patreksfirði.
Kvartett Camerata heldur útgáfutónleika nýs hljómdisks í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði laugardaginn 20. september kl. 20. Aðgangseyrir er kr. 1.000 og rennur óskiptur til styrktar Krabbameinsfélagi Tálknafjarðar og Vesturbyggðar. Fólk er hvatt til að mæta, hlusta á fallega tónlist og styrkja um leið málefni krabbameinssjúkra á suðursvæði Vestfjarðakjálkans.
Kvartett Camerata skipa systurnar Mariola og Elzbieta Kowalczyk, tónlistarkennarar í Vesturbyggð, Magnús Ólafs Hansson, verkefnastjóri í Vesturbyggð, og Steingrímur Þorgeirsson, sjúkraþjálfari á Ísafirði. Kvartettinn var stofnaður í Bolungarvík á vordögum 2001 og hefur komið fram bæði hérlendis og erlendis.
Á diskinum sem hér er fylgt úr hlaði syngur kvartettinn m.a. lög frá 16. og 17. öld, ættuð frá Rússlandi, Spáni og Póllandi, og nokkur yngri íslensk lög. Erlendu lögin sem mörg hver eru vel þekkt hérlendis hafa ekki áður verið gefin út á íslensku.