Vantar ýsukvóta.
Sjómenn við Steingrímsfjörð á Ströndum segjast ekki getað róið lengur vegna skorts á ýsukvóta og skora á sjávarútvegsráðherra að bæta við kvótann og liðka fyrir framsali þegar í stað.
Þeir benda á að mikil ýsugengd hafi verið í Húnaflóa undanfarin ár, nokkuð sem ekki þekktist á viðmiðunarárum kvótans. Þar af leiðandi sé ýsukvóti bátanna í engu samræmi við ýsugengd á fiskislóð þeirra.
Nú er svo komið að ekki er hægt að róa vegna skorts á ýsukvóta. Leiguverð á ýsukvóta hefur hækkað verulega og framboð á leigukvóta er lítið sem ekkert,segir í ályktuninni.
Fram kemur að við Steingrímsfjörð starfi ríflega 20 útgerðir, tvö fyrirtæki í vinnslu á bolfisk og fiskmarkaður. Þessi fyrirtæki séu grunnstoðir byggðarlagsins.
Þetta kemur fram á vef Fiskifrétta.