Veðrið í Júní 2017.
Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.
Norðlægar vindáttir voru ríkjandi frá byrjun mánaðar til og með 16 með svölu veðri og oftast með úrkomu. Þann 17 gerði skammvinna suðvestanátt með talsverðri rigningu og hlýnaði þá vel í veðri. En þann 18 var komið í sama horfið aftur, norðlæg átt og snarkólnaði aftur, og var svalt til 20, en þá hlýnaði vel í veðri seinnihluta dags með suðaustanátt, sem stóð í tæpa tvo daga. Síðan frá 23 til 25 voru norðlægar vindáttir aftur með svölu veðri og úrkomu. En þann 26 snérist loks til suðvestlægra vindátta, með mjög hlýnandi veðri, og var suðaustlæg vindátt síðasta dag mánaðar með hlýju veðri.
Það snjóaði í fjöll 6-7-8 og 9, niður í um 300 m hæð. Grasspretta virtist standa í stað fram yfir miðjan mánuð, en er að verða sæmileg í mánaðarlok.
Mæligögn:
Úrkoman mældist 60,7 mm. (í júní 2016: 38,8 mm.)
Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 1 dag.
Þurrir dagar voru 8.
Mestur hiti mældist 15,0 stig þann 28.
Minnstur hiti mældist 1,6 stig þann 9.
Meðalhiti mánaðarins var +6,6 stig.
Meðalhiti við jörð var +4,38 stig. (í júní 2016: +6,95 stig.)
Sjóveður: Slæmt sjóveður, 1,2,3, 7,23 og 24. Annars sæmilegt eða gott.
Yfirlit dagar eða vikur:
1-16: Norðlægar vindáttir, NA, N, NV, stinningskaldi, kaldi, stinningsgola, gola, rigning, skúrir, súld, þoka, þurrt í veðri 6, 9 og 10, hiti 2 til 9 stig.
17: Suðvestan gola, stinningsgola, rigning, hiti 7 til 11,5 stig.
18-20: Norðan, NV, NA, stinningsgola, gola, en SA seinnipartinn, kul, súld, rigning, þurrt í veðri þann 19., enn þokumóða, hiti 4 til 10 stig.
21-22: Suðaustan og A, NA, stinningsgola, gola, kul, skúrir, rigning, hiti 7 til 13 stig.
23-25: Norðnorðaustan kaldi, stinningsgola, gola, súld, þurrt í veðri þ. 25. hiti 5 til 9 stig.
26-29: Suðvestan, kul, gola, stinningsgola,kaldi, skúrir þ.27., þurrt í veðri 26, 28 og 29, hiti 4 til 15 stig.
30: Suðaustan andvari, kul eða gola, lítilsáttar skúrir, hiti 9 til 14 stig.
Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.