Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 18. til 25. apríl 2011.
Um miðjan dag á páskadag, 24. apríl var tilkynnt um tvö innbrot í Bolungarvík, þar var brotist inn í tvær verslanir, ýmsum söluvarningi stolið á báðum stöðunum, á sama tíma var tilkynnt um rúðubrot í sendiferðabíl sem tilheyrði annarri versluninni sem brotist var inn í.
Annan dag páska 25. apríl var eldur borinn að gamalli jeppabifreið númerslausri, þar sem bifreiðin stóð í Bolungarvík, bifreiðin gerónýt eftir.Þá fyrr um nóttina var kveikt í sinu í Bolungarvík og gekk greiðlega að slökkva þann eld.
Í gær 25. apríl voru fjórar manneskjur handteknar vegna grunsemda lögreglu um aðild að þessum innbrotum og skemmdarverkum sem hér að ofan er greint frá. Allir þessir aðilar hafa viðurkennt aðild sína að þessum málum og að yfirheyrslum loknum var þeim sleppt í gærkveldi. Lögregla fann hluta þýfisins, sem verður skilað til eigenda.Þessir aðilar sem um ræðir hafa áður komið við sögu lögreglu vegna ýmissa brota.
Aðfaranótt 25. apríl var brotin hurð í Pólnum á Ísafirði,í framhaldi voru þrír aðilar handteknir vegna málsins og gistu þeir í fangageymslu þar til af þeim rann og í framhaldi teknar af þeim skýrslur vegna málsins.Nokkuð var um stimpingar í framhaldi af skemmtunum og þurfti lögregla að hafa afskipti af nokkrum aðilum.Þá tók lögregla áfengi af nokkrum ólögráða ungmennum.
Varðandi umferðina þá gekk hún nokkuð vel þó voru tilkynnt til lögreglu um tvö umferðaróhöpp í vikunni, annað á þjóðvegi nr. 61, veginum um Þröskulda í Gautsdal, þar valt jeppabifreið, ökumaður var einn í bílnum, hann var fluttur á heilsugæslustöðina í Búðardal til skoðunar.Bifreiðin óökuhæf, flutt af vettvangi með krana.
Þá varð umferðaróhapp á Eyrarhlíð í Ísafjarðarbæ, þar hafnaði bifreið á ljósastaur.Ökumaður og tveir farþegar hans voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar.Bifreiðin óökuhæf, flutt af vettvangi með krana.
Bensínfóturinn var ansi þungur hjá þó nokkuð mörgum ökumönnum, sem leið átti til og frá Vestfjörðum í vikunni, en 46 ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur.28 ökumenn voru stöðvaðir í nágrenni við Hólmavík.12 voru stöðvaðir í Ísafjarðardjúpi og 6 innan bæjar á Ísafirði. Sá sem hraðast ók var mældur á 131 km/klst.,þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst.