Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 26. sept til 3. okt 2011.
Klukkan 01:59 aðfaranótt laugardagsins var tilkynnt til lögreglu um mann í sjónum við Hólmavík. Var maðurinn á sundi og stefndi frá landi. Björgunarsveit var kölluð til með viðeigandi búnað. Náðu björgunarsveitarmenn manninum, sem var ekkert á því að koma í land. Var hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, en líkamshiti hans var farinn að dala talsvert. Ekki gat maðurinn gert neina grein fyrir háttarlagi sínu.
Þann 26. sept. klukkan 18:28 var tilkynnt um dauða rollu sem hafði verið skotin með kraftmiklum riffli. Lögreglan fór á staðinn, sem var um 300 metra ofan við skorsvæði skotfélagsins upp á heiði, fyrir ofan Dagverðardal. Málið er í rannsókn hjá lögreglu. Heldur er þetta döpur frétt, lítilmannlegt framferði skotmannsins. Lögreglan óskar eftir upplýsingum sem gætu leitt í ljós hver gerandinn er.
Enginn var kærður fyrir of hraðan akstur og er það frétt út af fyrir sig. Tilkynnt var um tvö tilvik þar sem ekið var á lamb og rollu. Mikið er um kvartanir íbúa Ísafjarðar vegna aksturs léttra bifhjóla í bænum. Mikill hávaði er af þessu og ónæði fyrir fólk. Hefur fólk kvartað yfir of hröðum akstri þeirra og tillitsleysi gagnvart öðrum í umferðinni. Lögreglan er með þessi mál til skoðunar.