Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 27. des. 2010 til 3. jan. 2011.
27. des. varð óhapp á Súðavíkurhlið, þar hafnaði bifreið út fyrir veg á hvolf, ekki slys á fólki. Ástæða óhappsins var að ökumaður var að sveigja frágrjóti sem hafði fallið á götuna. Bíllinn óökufær og fjarlægður með kranabíl.
28. des var tilkynnt um tjón á tveim ökutækjum á Ísafirði, ekið hafði verið utan í bifreiðarnar og tjónvaldur horfið af vettvangi. Um talsvert tjón var að ræða í þessum tilfellum.
28. des varð óhapp á Ísafirði með þeim hætti að ung stúlka sem var að sendast með flatbökur, klemmdist milli bíls og gangstéttar þegar bifreiðin rann af stað, hrökk úr handbremsu, stúlkan var flutt á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar og meiðslin reyndust minniháttar.
28. des var tilkynnt um bát sem hafði sokkið í höfninni á Ísafirði. Um var að ræða trébátinn Guðný ÍS 13. Umræddur bátur hefur ekki verið í notkun um einhvern tíma. Eigandi bátsins sjá sjálfur um að koma bátnum á flot aftur.
2. janúar varð bílvelta á veginum um Kleifaheiði, þar hafnaði jepplingur út fyrir veg og valt, ökumann og farþega sakaði ekki, en bíllinn óökufær, fjarlægður af vettvangi með kranabíl. Óhappið mátti rekja til hálku.
Talsverður erill var hjá lögreglu á gamlárskvöld og aðfaranótt nýjársdags. Ung kona brenndist á hendi þegar hún var að kveikja í handblysi, var hún flutt á sjúkrahúsið til skoðunar og aðhlynningar. Þá þurfti að hafa afskipti af nokkrum aðilum vegna ölvunar. Kveikt var í ruslagám við Samkaup, sem stendur við Hafnarstræti. Slökkvilið Ísafjarðar kom á staðinn og slökkti eldinn. Ekki er vitað hver/hverjir voru þar að verki. Þá var kvartað undan óvarlegri meðferð á skoteldum og sprengingum, sprengt í póstkassa og ruslagám. Ekki er heldur vitað hver/hverjir þar voru að verki. Ekki þarf að fjölyrða um hættuna sem þessu fylgir. Þá kvörtuðu vegfarendur sem leið áttu um Skutulsfjarðarbraut að grænum leisergeisla væri beint að ökutækjum sem þar áttu leið um. Kom geislinn krárlega frá Holtahverfinu. Þetta var kannað en ekki var hægt að staðsetja þann stað, þar sem þessum geisla var beint frá. Og enn og aftur, ekki þarf að fjölyrða um hættuna sem þessu getur fylgt.
Lögregla sinnti einnig nokkrum aðstoðarbeiðnum vegfaranda sem áttu í vandræðum vegna akstursskilyrða, hálku.
Segir í tilkynningu frá lögreglu.