Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 27. mars til 3. apríl 2017.
Einn ökumaður var kærður í vikunni fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Sá var í akstri á Patreksfirði um miðjan dag þann 29. mars.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Þeir voru allir í akstri í Strandasýslu.
Númeraplötur voru teknar af einu ökutæki á Ísafirði. En vanrækt hafði verið að færa það til reglulegrar skoðunar.
Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma meðan á akstri stóð, án þess að nota handfrjálsan búnað. Einn þessara ökumanna var ekki með öryggisbelti spennt. Þá voru aðrir tveir ökumenn kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti. Þessir ökumenn voru í akstri á Ísafirði, Bolungarvík og í Súðavík.
Lögreglan mun áfram gefa þessum öryggisþáttum sérstakan gaum. Ástæða er til að hvetja ökumenn til að einbeita sér að akstrinum og ef nota þarf farsíma meðan á akstri stendur, nota þá handfrjálsan búnað. Þá eru ökumenn og ekki síður farþegar hvattir til að nota öryggisbeltin eins og lög kveða á um. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum.