Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 4. til 11. febrúar 2013.
Tilkynnt var um fjögur umferðaróhöpp í liðinni viku. Um var að ræða bílveltu á Steingrímsfjarðarheiði snemma morguns þann 7. En þá rann bifreið út af veginum og valt. Tjón varð lítið og ökumann,sem var einn í bifreiðinni,sakaði ekki. Þann 5. febrúar varð árekstur með tveimur bifreiðum í miðbæ Ísafjarðar. Báðar bifreiðarnar urðu óökufærar eftir áreksturinn en ökumenn sakaði ekki. Þann 9. febrúar var bifreið ekið yfir grjót sem hafði runnið úr Raknadalshlíð,í Patreksfirði,og á veginn. Tveir hjólbarðar undir bifreiðinni eyðilögðust. Ökumann sakaði ekki. Þann 4. febrúar var ekið á mannlausa bifreið á bifreiðastæði í miðbæ Ísafjarðar. Heiðarlegur og samviskusamur ökumaður tilkynnti atvikið til lögreglunnar og var eiganda gert viðvart. Í vikunni voru tveir ökumenn kærðir fyrir að tala í farsíma á ferð,án þess að nota handfrjálsan búnað. Í báðum tilvikum var um að ræða ökumenn sem óku um götur Ísafjarðar. Í öðru tilvikinu stöðvaði ökumaðurinn ekki við stöðvunarskyldu og má hann því búast við sektum vegna tveggja umferðarlagabrota,eða alls kr. 20.000 auk tveggja punkta í ökuferilskrá. Dýrt símtal það. Tveir fullorðnir karlmenn voru staðnir að gripdeild í matvöruverslun á Ísafirði í vikunni. Þeir voru handteknir og færðir í fangaklefa,enda mjög ölvaðir. Þeir voru látnir sofa úr sér áfengisvímuna. Mega þeir búast við að hljóta refsingu fyrir þetta brot.
Lögreglan vill minna ökumenn á að stilla ökuhraða í hóf, tala ekki í farsíma án handfrjáls búnaðar og hafa öryggisbelti ávalt spennt. Sömuleiðis eru farþegar hvattir til að hafa öryggisbelti ávalt spennt. Rétt er að benda á að ökumaður sem lætur undir höfuð leggjast að sjá til þess að farþegar yngri en 15 ára hafi öryggisbelti spennt hljóta sektina.