Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 5. til 11. janúar 2009.
Í síðustu viku urðu þrjú umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Um kl. 13:30 á mánudeginum valt bifreið út af Djúpvegi 61 skammt frá Hólmavík. Ökumaður var einn í bifreiðinni og var hann fluttur á heilsugæslustöð á Hólmavík til skoðunar en reyndist ekki alvarlega slasaður. Bifreiðin var mikið skemmd og var flutt með kranabifreið af vettvangi. Þá valt bifreið út af veginum skammt frá Súðavík rétt fyrir hádegi á þriðjudeginum. Tvennt var í bifreiðinni og sluppu þau án meiðsla. Bifreiðin var mikið skemmd. Þá fór bifreið út af Tálknafjarðarvegi á laugardaginn. Ökumaður var einn í bifreiðinni og slapp hann án meiðsla. Bifreiðin var óökuhæf eftir óhappið. Talið er að orsök þessara þriggja óhappa hafi verið hálka og erfið akstursskilyrði.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni. Annar var stöðvaður á Mikladal ofan Patreksfjarðar á 113 km hraða þar sem hámarkshraði er 90/km.klst. en hinn var stöðvaður innanbæjar á Tálknafirði á 57 km hraða þar sem hámarkshraði var 35 km/klst.
Þrettándagleði var haldinn víðsvegar í umdæminu með brennum og flugeldasýningum á þriðjudagskvöldið. Mesti mannsfjöldinn var í Bolungarvík þar sem Bolvíkingar og Ísfirðingar komu saman við álfabrennu og gekk þar allt áfallalaust.
Á miðvikudagskvöldið var ökumaður stöðvaður við umferðareftirlit í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi og var hann grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hald var lagt á 2 gr. af meintu marihuana sem maðurinn viðurkenndi að hafa ætlað til eigin neyslu.