Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 10. júlí 2012
Prenta
Vikan hjá lögreglunni á Vestfjörðum 2. til 9. júlí 2012.
Fimm ær og lömb lágu í valnum þessa vikuna. Seint verður nægilega brýnt fyrir ökumönnum að gæta að því að lausaganga búfjár er leyfð á Vestfjörðum. Fimm umferðaóhöpp voru í vikunni, en aðeins í einu tilfelli var um smávægilegt slys að ræða. Tvær bílveltur þar af á sunnaverðum Vestfjörðum, í Vattarfirði og á Örlygshafnarvegi. Tveir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í Álftafirði. Lögreglumenn hafa verið við eftirlit í þorpinu í Súðavík síðustu viku og litið til með umferðarhraða. Eru það tilmæli lögreglu að ökumenn gæti sérlega vel að ökuhraða um bærinn og gæti þess að íbúðarhúsin standa rétt við þjóðveginn og mikil slysahætta þar af þeim sökum. Í síðustu viku var auglýst hér á þessum stað eftir ökutæki sem stolið hafði verið. Þjófurinn náðist svo og bíllinn sem hann tók, en hann hafði skilið bílinn eftir á Kambsnesi í Álftafirði. Einn ökumaður var tekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.Talsverður erill var hjá lögreglunni vegna ölvunar þessa helgina. Mörg mál komu upp þar sem Bakkus var með í ferð. Heimiliserjur, ósætti manna á götum úti, en það sem upp úr stóð að tilkynnt var um mann sem væri í gúmmíbát á reki undan vindi út Skutulsfjörðinn. Björgunarsveit ræst út sem sótti mann og bát og flutti til hafnar. Skýring mannsins var að honum leiddist og ætlaði að láta bátinn reka út í Hnífsdal, en þangað sagði hann ferðinni vera heitið. Útihátíðin á Rauðasandi fór vel fram, gáfu lögreglumenn skipuleggjendum góða einkunn. Á þriðjudeginum var strandveiðibátur staðinn að ólöglegum veiðum í Breiðafirði. Var skipstjóra vísað til hafnar í Stykkishólmi þar sem lögreglan tók á móti honum og er með mál hans til meðferðar. Síðla föstudagsins var par kært fyrir greiðslusvik á gistiheimili hér á Ísafirði. Náðist á þau á flugvellinum, þar sem þau voru að yfirgefa staðinn, en vísuðu á ferðaþjónustuaðila sem ætti að borga brúsann fyrir þau. Þegar verið var að taka til í herberginu eftir þau fannst þar poki með alls kyns læknavörum í s.s. stungulyf, hjartastuðtæki o.fl. Gott væri ef einhver kannaðist við þetta dót og hefði samband við lögregluna á Vestfjörðum. Klukkan fimm að morgni sunnudagsins var tilkynnt um innbrot í Hótel Eddu á Torfnesi. Talsverðar skemmdir voru unnar í kjallara hússins. Einhverju var stolið þaðan. Málið er í rannsókn hjá lögreglu. Margt er það sem manninn glepur. Kúlutengi var stolið undan bíl sem stóð við Tannanes í Önundarfirði aðfaranótt sunnudagsins. Átta járngrindum, hver grind 3,60 metra löng, var stolið úr fjárréttinni í Þorskafirði einhvern tímann í vor. Allar upplýsingar um þessa þjófnaði eru vel þegnar. Segir í frétt frá lögreglu Vestfjarða.