Rok og ofsaveður var í gærkvöldi.
Rok og ofsaveður af suðri og síðan suðsuðvestri skall á seinni partinn hér í Árneshreppi. Veðrið var verst í gærkvöldi en stormur var í alla nótt en það dróg mikið úr veðri með morgninum.
Á veðurstöðinni í Litlu-Ávík klukkan níu um kvöldið var veður alveg í hámarki og mældist þá jafnavindur 26 m/s en kviður fóru upp í 41 m/s eða í ofsaveður og langt yfir gamla veðurgildið 12 vindstig. Einnig sá veðurathugunarmaður vindhraðamæli fara í 95 hnúta eða 49 m/s tvívegis á milli níu og tíu um kvöldið. Daginn áður þann 6. gerði einnig hvassviðri og rok um tíma um kvöldið og fram yfir miðnættið en stóð miklu styttra yfir og ekki eins rosalegar kviður. Þetta er eitt af verstu sunnan veðrum sem komið hafa í langan tíma. Ekki er vitað um neitt alvarlegt tjón hér í hreppnum,enn fréttamaður hefur haft samband við allnokkra bændur en ekkert er vitað um eyðibýli þar sem ekki sést til frá öðrum bæjum.