Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 31. desember 2010 Prenta

Allur afli grásleppubáta að landi.

Frá undirritun reglugerðar sem skyldar grásleppusjómenn til að koma með allan afla að landi.
Frá undirritun reglugerðar sem skyldar grásleppusjómenn til að koma með allan afla að landi.

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skrifaði í gær undir reglugerð sem skyldar grásleppusjómenn til að koma með allan afla að landi. Breyting þessi er unnin í samvinnu við Landsamband smábátaeigenda og er meðal annars tengd árangri sem náðst hefur í markaðsstarfi með hrognkelsahvelju til matvæla og annarar framleiðslu.

Grásleppa er sem kunnugt er veidd vegna hrogna en afar lítil nýting hefur verið á öðrum hlutum fisksins sem er kallaður hvelja en inniheldur í raun haus, hvelju, innyfli og vöðva. Í reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða frá 2003 er heimilt að varpa fyrir borð verðlausum fiski og þeim aukaafurðum sem ekki verða nýtt með arðbærum hætti. Frá því eru þó þær undantekningar að alltaf skal koma með þorsk- og ufsahrogn að landi og sömuleiðis allan afskurð sem fellur til við snyrtingu á þorsk- ufsa- og ýsuflökum. Með reglugerð þeirri sem skrifað er undir í dag bætist við í þá upptalningu yfir það sem alltaf skal koma að landi, svohljóðandi setning:

„Ennfremur skal við hrognkelsaveiðar koma með öll hrognkelsi að landi."

Breytingin tekur gildi 1. janúar 2012 og þannig gefst ein grásleppuvertíð til aðlögunar. Innan við 10% af grásleppuafla berst nú þegar að landi í tengslum við það markaðsstarf sem þegar er í gangi. Þess eru dæmi að einstakar útgerðir hafi greitt olíukostnað við veiðarnar með aflaverðmæti hveljunnar. Grásleppusjómanna bíður nú mikið verkefni að gera yfir 4000 tonn af fiski sem áður var hent að markaðsvöru. Jón Bjarnason sagðist við undirritun reglugerðarinnar hafa fulla trú á að það tækist. Hér væri um að ræða mikilvægt skref í siðlegri og bættri umgengni þjóðarinnar um auðlind hafsins.

Fyrirtækið Tríton sem starfar bæði í Reykjavík og á Akranesi hefur undanfarin tvö ár flutt grásleppu út til Kína þar sem hún er seld til betri veitingahúsa og elduð ýmist með eða án hveljunni. Þá hefur sjávarlíftæknisetrið BioPol á Skagaströnd unnið með fleiri aðilum að nýtingu á grásleppuhvelju til kollagen framleiðslu sem nýtist meðal annars í öldrunarmeðöl og lækningar. Skilaverð Kínamarkaðarins til sjómanna hefur verið um 60 krónur á kílóið sem gæti ef markaðir aukast skilað allt að 300 milljónum fyrir 5000 tonna ársafla.

Markaðsstarf vegna grásleppu hefur verið stutt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Úr myndasafni

  • Stærra brotið úr jakanum í fjörinni.18-12-2010.
  • Þakjárn komið á mikið til á bílskúr,22-11-08.
  • Borgarís útaf Ávíkinni 07-04-2004.
  • Sælusker(Selsker)-06-07-2004.
  • Kistuvogur þar sem galdrabrennur fóru fram.28-06-2003.
Vefumsjón