Ekki sumarlegt um að litast.
Það er ekki sumarlegt hér á Ströndum sumardaginn fyrsta. Suðvestan hvassviðri í gær og núna fram á morgun, með éljum, en er núna að snúa sér í norðvestan eða norðan með éljum. Þetta eru oftast dimm og mikil él og skyggnið oft um 1 til 5 km. í þeim og skýjahæð jafnvel niður í hundrað metra. Samkvæmt framtíðaspá virðist ekki að eigi að hlýna neitt að viti fyrr en á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku.
Spá frá Veðurstofu Íslands fyrir Strandir og Norðurland vestra er þessi í dag og á morgun: Norðvestan 8-13 síðdegis og él, hiti nálægt frostmarki. Lægir í kvöld og nótt, léttir til og frystir. Sunnan gola á morgun með bjartviðri og hlýnar heldur, en stöku él síðdegis. Vegagerðin segir ófært norður í Árneshrepp.
Vefurinn Litlihjalli óskar lesendum sínum gleðilegs sumars, með þökk fyrir samfylgdina í vetur.