Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 7. nóvember 2011 Prenta

Er þetta dauðadómurinn?

Gunnar G. Magnússon.
Gunnar G. Magnússon.

Það er alveg rétt sem Daníel Jakobsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir í sjónvarpsviðtali við RÚV. „Það er engin byggðarstefna í landinu" og lýsir það sér vel í frétt BB þann 31. október sl. þar sem fréttamaður BB tekur stutt viðtal við forstjóra Landsnets. Þar lýsir forstjórinn langtíma hugsun Landsnets eins og hann segir sjálfur:

„Þetta er partur af langtíma hugsun hjá okkur. Við þurfum líka að byggja nýja spennustöð í Bolungarvík innan nokkurra ára þar sem núverandi spennustöð er á snjóflóðasvæði. Það gæti því verið skynsamlegt að byggja díselrafstöð og spennustöð á sama stað," segir Þórður. Þær díselrafstöðvar sem eru á Vestfjörðum er flestar komnar til ára sinna. „Hvað Landsnet varðar þá þarf að gerast annað af tvennu: Að byggja línu inn á svæðið eða fara út í önnur verkefni eins og að byggja díselrafstöð, sem er mun hagkvæmari kostur. Að byggja nýja línu er mjög dýrt þannig að það er ekki raunverulegur kostur þegar aðrir kostir eru í boði," segir Þórður.

Hér er verið að læða inn lausn á laumulega hátt, hér er ekki verið að bera saman epli og epli, langt því frá. Hér er aðeins verið að skoða hvað megi komast af með til að halda ljósum og hita á Vestfjörðum á meðan við flytjumst á mölina og bera það saman við línubyggingu sem við getum byggt upp samfélagið hér til framtíðar.

Ef á að bera saman varafl skal bera saman varaafl. Ef að það á að bera saman leiðir til uppbyggingar skal bera saman leiðir til uppbyggingar, en ekki blanda þessu tvennu saman. Það er augljóst að það eru engin plön um byggja upp til framtíðar á Vestfjörðum að hálfu Landsnets, enda skiljanlegt þegar skoðuð eru raforkulög og tilgangur fyrirtækisins.

Við skulum hafa það í huga að Landsnet rekur engin byggðarsjónarmið og tekur ekki tillit til neins nema að fylgja þeim lögum sem því er sett. Eins og lagaumhverfið (raforkulögin) er snýr að Landsneti í dag, verða að öllu óbreyttu engar nýjar línur lagðar til Vestfjarða né Hvalárvirkjun tengd inná raforkukerfi Vestfjarða. Svo að það sé mögulegt verður að breyta raforkulögum.

Hér er verið að læða inn lausn á raforkumálum Vestfirðinga sem er alls ekki fullnægjandi fyrir fjórðunginn. Það er fyrir löngu komin tími til að þing og sveitarstjórnarmenn okkar fari að vakna til lífsins. Það er ekki nóg að senda eina og eina ályktun frá sér ef henni er ekki fylgt eftir af krafti samanber þingsályktunar tillögu um niðurfellingu tengigjalds Hvalárvirkjunar . Boltinn er hjá ykkur þing og sveitarstjórnarmenn, ábyrgðin er ykkar eða kemur ykkur velferð Vestfjarða ekkert við?

Verði Hvalárvirkjun ekki tengd inná Vestfirði í gegnum Ísafjörð er það skoðun mín að það sé endanlega verið að kveða upp dauðadóm byggðar á Vestfjörðum. Uppsetning varaafls sem Landsnet fyrirhugar í Bolungarvík verður til þess að það verður nánast ómögulegt að fá felld niður tengigjöld af Hvalárvirkjun og hún því tengd líklega einum notanda á Ströndum og kemur því ekki til með að efla fjórðunginn sem heild.

Það þykir sjálfsagður hlutur að það séu byggð göng, vegir, flugvellir og hafnir, lagðir strengir til Vestmanneyja ekki bara einn heldur tveir og þrír og allt tekið úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar. En að koma raforkumálum Vestfirðinga í lag þá skal koma til sérstök skattlagning á eina virkjunarkost fjórðungsins (tengigjald) sem virkjunin ber ekki.

Ég hvet Daníel Jakobsson bæjarstjóra til þess að fá sveitarstjórnar og þingmenn Vestfjarða til að hittast áður en til þess kemur að ákvörðun um uppsetningu nýs varaafls verði tekin og móta framtíðarstefnu fjórðungsins í raforkumálum og koma í veg fyrir að fyrirtæki eins og Landsnet sé ekki að vinna gegn langtíma hagsmunum fjórðungsins með smáskammtalækningum sem þessum. Ég vona að við þurfum ekki að beita sömu ráðum og Vestmannaeyingar og auglýsa eftir þingmönnun okkar.

Sem fyrr stendur Orkubú Vestfjarða utan við alla umræðu um bætur í raforkumálum fjórðungsins og lætur sem þetta komi þeim ekkert við. Orkubú Vestfjarða hefur ekki verið málsvari eða barist fyrir Vestfirðinga í raforkumálum enda gerðu þeir engar athugasemdir við raforkulögin sem við sitjum uppi með, svo ég viti til. Allavega bera lög Landsnets og raforkulög ekki þess merki að hagsmuna fjórðungsins hafi verið gætt.

Við eigum sjálfir að hafa stjórn á uppbyggingu raforkumála fjórðungsins en ekki einhver embættismanna mafía á mölinni. Það er þá okkur sjálfum að kenna en ekki aðgerðarleysi þeirra, ef að við gefumst upp á úrræðaleysinu og flytjum á mölina.
Kveðja Gunnar G Magnússon.
Þetta kemur fram á vef Vesturverks.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Maí »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Úr myndasafni

  • Agnes komin uppundir Hjallskerin í Ávíkinni.
  • Jón G Guðjónsson situr á jaka útá Hjallskerum. Mynd RAX.
  • Litla-Ávík 10-03-2008.
  • Pétur og Össur.
  • Þorsteinn og Ási við vinnu á lagnagrind.23-01-2009.
Vefumsjón