Eyrarrósin 2010 umsóknarfrestur til 16 Nóvember.
Eyrarrósin var fyrst afhent árið 2005 og féll hún þá í skaut Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði. Aðrir sem hlotið hafa Eyrarrósina eru Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, LungA, Strandagaldur á Hólmavík, hin ísfirska Rokkhátíð alþýðunnar á Ísafirði, Aldrei fór ég suður og Landnámssetrið í Borgarnesi.
Markmið með Eyrarrósinni er að stuðla að fagmennsku og færni við skipulagningu menningarlífs og listviðburða á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Fjögurra manna nefnd, skipuð forstjóra og stjórnarformanni Byggðastofnunar og stjórnanda og framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík, tilnefnir og velur verðlaunahafa.
Umsækjendur geta m.a. verið stofnun, safn, tímabundið verkefni eða menningarhátíð á landsbyggðinni og eru allir sem falla undir þá flokka hvattir til að sækja um. Þrjú verkefni eru valin úr hópi umsækjenda og þau kynnt sérstaklega, en eitt þeirra hlýtur Eyrarrósina; fjárstyrk að upphæð kr. 1.5 milljón og verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur til eignar.
Upphaf Eyrarrósarinnar má rekja til þess að vorið 2004 gerðu Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands með sér samkomulag um eflingu menningarlífs á landsbyggðinni og stofnuðu við það tilefni til Eyrarrósarinnar. Í febrúar á þessu ári undirrituðu aðstandendur Eyrarrósarinnar samning um áframhaldandi samstarf til næstu þriggja ára.
Dorrit Moussaieff forsetafrú er verndari Eyrarrósarinnar og er viðurkenningin afhent á Bessastöðum.