Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 14. júní 2017 Prenta

Frá íbúaþinginu í Árneshreppi.

Hluti fundargesta. Mynd Kristján Þ Halldórsson.
Hluti fundargesta. Mynd Kristján Þ Halldórsson.

Ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða, er hætta á því að heilsársbyggð í Árneshreppi á Ströndum leggist af.  Þetta eru skilaboð tveggja daga íbúaþings sem Árneshreppur, Fjórðungssamband Vestfirðinga og Byggðastofnun stóðu fyrir í félagsheimilinu í Árnesi, 12. – 13. júní.

Á þinginu ræddu íbúar og fulltrúar þessara stofnana saman um framtíðina, möguleika og tækifæri.  Fyrirkomulag þingins var þannig að þátttakendur stungu upp á umræðuefnum og þannig endurspeglar þingið það sem helst brennur á íbúum. 

Brýnast er að bæta samgöngur, sérstaklega þjónustu yfir vetrartímann.  Byggja þarf upp veginn yfir Veiðileysuháls og tiltölulega stutt jarðgöng milli Árnesdals og  Reykjarfjarðar myndu gjörbreyta lífsskilyrðum íbúa og rjúfa einangrun yfir veturinn.  Talsverðar vonir eru bundnar við tækifæri sem virkjun Hvalár gæti skapað, ekki aðeins til skemmri tíma heldur að hún kynni að opna á nýja möguleika í atvinnuuppbyggingu.  Lögðu þátttakendur mikla áherslu á framgang þessa máls þó svo að um það séu skiptar skoðanir meðal heimamanna,  eins og fram kom á þinginu.  Í orkumálum var einnig rætt um smávirkjanir og hitaveitu frá Krossnesi í Norðurfjörð, en með henni myndu opnast möguleikar á sjóbaðsaðstöðu þar, auk húshitunar.  

Þátttakendur veltu fyrir sér ýmsum leiðum til að efla þá atvinnustarfsemi sem þegar er til staðar.  Festa þarf kvóta í byggðinni, bæði í fiskveiðum og sauðfjárrækt.  Fram kom að búfjársamningur er óhagstæður sauðfjárrækt í Árneshreppi, en hún er grunnurinn í landbúnaðinum og afar mikilvæg fyrir heilsársbyggð.  Auðvelda þarf nýliðun.  Rætt var um lífrænt vottað fé, en heimamenn hafa þó fyrst og fremst áhuga á aukinni vinnslu afurða í heimabyggð og upprunavottun.  Tækifæri til frekari þróunar í ferðaþjónustu, felast meðal annars í sögu svæðisins og vetrarferðamennsku, en ekki síst í markaðssókn, með áherslu á kyrrð og tíma. 

Nefnd voru ný atvinnutækifæri, eins og vatnsútflutningur og fiskeldi og áhugi er á að kanna möguleika á hreindýrabúskap.

Leita þarf nýrra leiða til að halda uppi starfsemi í Finnbogastaðaskóla, vegna fæðar nemenda.  Í Árneshreppi eru engir búsetu- eða þjónustukostir fyrir aldraða og þetta var þátttakendum hugleikið, ásamt því að bæta þurfi læknisþjónustu.  Viðruð var sú hugmynd að sveitarfélagið kaupi húsnæði sem hægt væri að nýta sem listamiðstöð eða heimili fyrir aldraða.  Þá þurfi að huga að byggingu lítilla íbúða.  Fram komu áhyggjur af framtíð verslunar og var stungið upp á stofnun starfshóps til að kanna möguleika í stöðunni. 

Íbúaþingið í Árneshreppi er ákall til stjórnvalda, því staðan er grafalvarleg.  Íbúar kalla einnig eftir virkum stuðningi Fjórðungssambands Vestfirðinga og Byggðastofnunar og lýstu áhuga á að sveitarstjórn staðfesti vilja til þátttöku í verkefni stofnunarinnar „Brothættar byggðir“. 

Í lok þings komu fjórir þingmenn Norðvesturkjördæmis og hlýddu á niðurstöður, ásamt fleiri gestum.  Þegar litið er til þess hver staðan í Árneshreppi er alvarleg, var íbúaþingið einstakt og einkenndist af yfirvegun og samkennd. 

Árneshreppur hefur löngum verið markaðssettur undir slagorðinu „Þar sem vegurinn endar“.  Á íbúaþinginu ríkti von í hjörtum viðstaddra sem vilja sjá fyrir sér betri tíma og að í raun sé vegurinn að byrja, á vegferð til heillavænlegrar framtíðar í Árneshreppi.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Úr myndasafni

  • Björn Torfason heldur ræðu.Barnabarn hans fylgist með afa sínum.
  • Séð austur Húnaflóa af Rekjaneshyrnu.
  • Saumaklúbbur á Krossnesi 05-01-2007.
  • Kaupfélagshúsið-Íbúðir- Reykjaneshyrna í baksýn. Mynd 20-02-2017.
Vefumsjón