Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 14. janúar 2008
Prenta
Frétt af BB.ÍS.Bæjarins Besta.
Fjarskiptin í ólestri í Árneshreppi
Undanfarna daga og vikur hafa fjarskiptamál Árneshreppsbúa verið í miklum ólestri því ISDN+-tenging þeirra hefur legið niðri hálfu dagana undanfarna viku, símalínur dottið út og langbylgjusendingar Ríkisútvarpsins verið götóttar. FM-sendingar nást ekki í öllum hreppnum og því eru margir sem reiða sig á þessar lögboðnu útsendingar útvarpsins, að ógleymdum skipum sem sigla fyrir norðan land, en fyrir sjófarendur eru langbylgjusendingar mikil öryggistæki.
Jón G. Guðjónsson veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík sagði í samtali við blaðið að hann hafi fengið þær upplýsingar hjá Ríkisútvarpinu að orsök sendingartruflana langbylgju sé bilun í sendi á Gufuskála eftir ofsaveður rétt fyrir jól og að unnið sé að viðgerð. Síminn gat litlar skýringar gefið en að sögn Jóns er miðlæg símstöð í hreppnum gömul og úr sér gengin og því ekki við Símann að sakast.
Jón Bjarnason, þingmaður Norðvesturkjördæmis segir að þessi atriði séu hluti af stærra vandamáli sem muni leggja hreppinn í eyði, sé ekkert að gert. Til marks um það hve afskiptur hreppurinn hefur verið í fjarskiptamálum þá er símalínukvóti hreppsins fullur og því geta til dæmis sumarbústaðaeigendur ekki fengið síma, hvað þá nýir íbúar, auk þess sem ekkert GSM-samband er á svæðinu.
Enn bólar ekkert á framkvæmdum tillagna nefndar sem skipuð var af Byggðastofnun árið 2004 til verndunar búsetu og menningarlandslags í hreppnum, í framhaldi af þingsályktunartillögu frá árinu 2001 sem lögð var fram af þingmönnum Vestfirðinga, undir forystu Einars K. Guðfinnssonar. Tillagan var samþykkt samhljóða á Alþingi vorið 2003 og telst mjög söguleg.
sigridur@bb.is
Undanfarna daga og vikur hafa fjarskiptamál Árneshreppsbúa verið í miklum ólestri því ISDN+-tenging þeirra hefur legið niðri hálfu dagana undanfarna viku, símalínur dottið út og langbylgjusendingar Ríkisútvarpsins verið götóttar. FM-sendingar nást ekki í öllum hreppnum og því eru margir sem reiða sig á þessar lögboðnu útsendingar útvarpsins, að ógleymdum skipum sem sigla fyrir norðan land, en fyrir sjófarendur eru langbylgjusendingar mikil öryggistæki.
Jón G. Guðjónsson veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík sagði í samtali við blaðið að hann hafi fengið þær upplýsingar hjá Ríkisútvarpinu að orsök sendingartruflana langbylgju sé bilun í sendi á Gufuskála eftir ofsaveður rétt fyrir jól og að unnið sé að viðgerð. Síminn gat litlar skýringar gefið en að sögn Jóns er miðlæg símstöð í hreppnum gömul og úr sér gengin og því ekki við Símann að sakast.
Jón Bjarnason, þingmaður Norðvesturkjördæmis segir að þessi atriði séu hluti af stærra vandamáli sem muni leggja hreppinn í eyði, sé ekkert að gert. Til marks um það hve afskiptur hreppurinn hefur verið í fjarskiptamálum þá er símalínukvóti hreppsins fullur og því geta til dæmis sumarbústaðaeigendur ekki fengið síma, hvað þá nýir íbúar, auk þess sem ekkert GSM-samband er á svæðinu.
Enn bólar ekkert á framkvæmdum tillagna nefndar sem skipuð var af Byggðastofnun árið 2004 til verndunar búsetu og menningarlandslags í hreppnum, í framhaldi af þingsályktunartillögu frá árinu 2001 sem lögð var fram af þingmönnum Vestfirðinga, undir forystu Einars K. Guðfinnssonar. Tillagan var samþykkt samhljóða á Alþingi vorið 2003 og telst mjög söguleg.
sigridur@bb.is