Gamla íslenska tímatalið endurvakið á Grand Hótel Reykjavík.
Íslenska tímatalið er það tímatal sem notað var af Norðurlandabúum þar til hið svokallaða júlíska tímatal tók við sem almennt tímatal. Það einkennir tímatalið að reiknað var í misserum en ekki árum. Misserin voru jafnlöng og skiptust í vetur, sem hófst fyrsta vetrardag og taldi gormánuð, ýli, mörsug, þorra, góu og einmánuð, og sumar, sem hófst fyrsta sumardag og taldi hörpu, skerplu, sólmánuð, heyannir, tvímánuð og haustmánuð. Mánaðarheitin miðuðust við árstíðir sveitasamfélagsins. Tímatalið miðast annars vegar við vikur, fremur en daga, og hins vegar við mánuði, sem hver um sig taldi 30 nætur. Þannig hefjast mánuðirnir á ákveðnum vikudegi, fremur en á föstum degi ársins. Hin fornu íslensku heiti vikudaganna eru; sunnudagur, mánadagur, týsdagur, óðinsdagur, þórsdagur, frjádagur og laugardagur.
Dagatalið er skreytt með myndbrotum úr stærsta glerlistaverki landsins eftir Leifs Breiðfjörð sem jafnframt prýðir Miðgarð sem er aðalmóttaka Grand Hótels Reykjavíkur.