Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 9. febrúar 2012 Prenta

Hægt að moka vegna fundar hjá innanríkisráðuneytinu.

Veghefill við snjómokstur í Árneshreppi.
Veghefill við snjómokstur í Árneshreppi.
Vegagerðin kostaði snjómokstur í Djúpavík á Ströndum í síðustu viku, þrátt fyrir að slíkt væri ekki á áætlun fyrr en í vor. Ástæðan var sú að íbúi í Djúpavík þurfti að komast á fund á vegum innanríkisráðuneytisins í Reykjavík.

Íbúar í Árneshreppi hafa verið afar óhressir með vetrarþjónustu Vegagerðarinnar í sveitarfélaginu. Samkvæmt svokallaðri G-reglu Vegagerðarinnar um snjómokstur er vegurinn í Árneshrepp, úr Bjarnarfirði, ekki ruddur frá 6. janúar til 20. mars. Sveitarfélagið getur þó óskað eftir mokstri á þessum tíma en þarf þá sjálft að greiða helming kostnaðar.

Undantekning var hins vegar gerð á þessu í síðustu viku en þá var mokað í Kjörvog og hefur fréttastofa RÚV fengið það staðfest að moksturinn var á kostnað Vegagerðarinnar, en þó ekki nema í Djúpavík. Árneshreppur ber hins vegar helming kostnaðar við moksturinn frá Djúpavík í Kjörvog.
Moksturinn í Djúpavík fór fram degi áður en Eva Sigurbjörnsdóttir, hótelstýra í Djúpavík þurfti að mæta á fund á vegum Innanríkisráðuneytisins en hún á sæti í nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Strandamenn sem fréttastofa RÚV hafði rætt við eru ósáttir við að ekki skuli vera hægt að veita almennum íbúum lágmarksþjónustu yfir háveturinn en þegar ráðuneytið sem hefur samgöngumál á sinni könnu þarf að boða til fundar þá skuli vera hægt að leggja í umtalsverðan kostnað fyrir eina bíl ferð fram og til baka. Oddný Þórðardóttir, sveitarstjóri Árneshrepps, staðfestir að hafa beðið um mokstur í Djúpavík þar sem staðurinn hafi verið alveg innilokaður og ekki einu sinni fært á flugvöllinn á Gjögri. Það hafi ekki verið eingöngu vegna umrædds fundar en þó hafi hún beðið um að mokað yrði áður en hann yrði haldinn. Þetta kom fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Úr myndasafni

  • Séð til Bergistanga og hafís,Reykjaneshyrna í baksýn.
  • Við Litlu-Ávík 15-03-2005.
  • Séð yfir Norðurfjörð.
  • Hafís í Trékyllisvík og séð til Norðurfjarðar.
Vefumsjón