Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 26. júní 2017 Prenta

Hamingjudagar á Hólmavík.

Frá Kvennahlaupi. Mynd hamingjudagar.is
Frá Kvennahlaupi. Mynd hamingjudagar.is

Hamingjudagar verða haldnir hátíðlegir í Strandabyggð komandi helgi, nánar tiltekið 30.júní-2. Júlí.

Hamingjudagar eru árlegur viðburður sem byggir á Hamingjusamþykkt Strandabyggðar sem er svohljóðandi:

„Hamingjan er eitt af leiðarljósum í áframhaldandi uppbyggingu í Strandabyggð. Lífsgæði íbúa á Ströndum skipta miklu máli og þau þarf að efla með fjölbreyttum ráðum.

Ræktum hamingjuna innra með okkur og stuðlum að aukinni gleði og lífsfyllingu hjá okkar nánustu, vinum og samferðamönnum, með orðum okkar og gjörðum. Munum að bros í amstri hversdagsins getur gert kraftaverk, það getur dimmu í dagsljós breytt. Hið sama gildir um hrós og þakklæti fyrir það sem vel er gert. Jákvæð og uppbyggileg hvatning til góðra verka er varða sem vísar veginn í átt að betra samfélagi.

Virk þátttaka hvers einstaklings í samfélaginu er keppikefli og miklu skiptir að jákvæðni, virðing og samkennd einkenni mannlíf á Ströndum. Íhugum öll, hvert og eitt okkar, með hvaða hætti við getum lagt okkar af mörkum.

Gleðjumst saman, höfum hamingjuna í hávegum. Gerum alla daga að hamingjudögum.“

Dagskráin þetta árið er vægast sagt glæsileg og má þar nefna sundlaugarpartý, nerf byssubardaga, hverfispartý og brennu en þetta allt er aðeins brot af því sem verður um að vera á föstudagskvöldinu. Íbúar og fyrirtæki opna dyrnar og sýna húsakynni sín og bjóða jafnvel upp á veitingar og lista- og ljósmyndasýningar prýða bæinn.

Gyrðir Elíasson og Between Mountains koma fram við setningu hátíðarinnar sem fer fram í Steinshúsi við Ísafjarðardjúp en þar verður Lóan, menningarverðlaun Strandabyggðar, jafnframt veitt. Von er á góðum gestum víðs vegar að, helst ber að nefna BMX bræður, dívurnar Kristjönu Stefáns og Þórhildi Örvars ásamt Kalla Olgeirs, Ingrid Kuhlman sem fræðir okkur um hamingjuna og Leikhópinn Lottu. Á laugardeginum verður svo allsherjar karnival með víkingum, hestum, hoppuköstulum, Húlladúllu, kjötsúpu, trúbador, hamingjuhlaupurum, rallý, markaði og hnallþórum svo fátt eitt sé nefnt. Á kvöldin verður svo ekki minna stuð en þá ræður hljómveitin Króm ríkjum á Café Riis. Furðuleikar á Sauðfjársetri á Ströndum binda svo enda á Hamingjudaga nú sem endranær.

Eins og sést er af nógu að taka og eitthvað fyrir alla. Heilsa, útivist og samvera er í fararbroddi með fjölmörgum útivistarviðburðum og sérstöku Hamingjubingói fyrir alla fjölskylduna. Markmiðið er að hver einasti íbúi í Strandabyggð ásamt gestum hátíðarinnar finni fyrir innri hamingju, hugarró, gleði og kærleika í hverju skrefi.

Endilega kynnið ykkur dagskrána nánar www.hamingjudagar.is eða á  Facebook.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Úr myndasafni

  • Borgarís útaf Ávíkinni 07-04-2004.
  • Borgarísjaki austan við Selsker 16-09-2001.
  • Borgarísjakinn við Lambanes 30-09-2017.
  • Síldarverksmiðjan Eyri í Ingólfsfirði.Mynd Jóhann.
  • Búið að setja flotefni í öll gólf í herbergjum.04-04-2009.
Vefumsjón