Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 7. nóvember 2007 Prenta

Land undir Gjögurflugvöll var tekið eignarnámi.

Frá Gjögri,Mynd Rúnar S.
Frá Gjögri,Mynd Rúnar S.
.

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 19. september 1980
19.9.1980
Ár 1980, föstudaginn 19. september var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

Flugráð
gegn
Eigendum Gjögurs,
Árneshreppi,
Strandasýslu

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með beiðni dags. 20. mars 1980 hefur Pétur Einarsson, lögfræðingur, f.h. Flugráðs fari þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að framkvæmt verði mat á landsvæði, sem þörf er talin á undir flugvöll að Gjögri í Árneshreppi, Strandasýslu. Vísar hann í þessu efni til laga um loftferðir nr. 36/1964, 64. gr., er kveði á um heimild til eignarnáms, enda telji Flugmálaráðherra að mannvirkjagerðin sé frá almennu sjónarmiði æskileg. Þá vísar lögmaðurinn til 1. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973.

Að beiðni hreppsnefndar Árneshrepps dags. 4. maí 1979 og 14. desember 1979 samþykkti Flugráð á fundi sínum 31. jan. 1980, að fara þess á leit við samgönguráðuneytið, að það hlutist til um eignarnám á landi undir flugvellinum á Gjögri á Ströndum, enda greiði Árneshreppur allan kostnað við eignarnámið, sbr. bréf oddvita Árneshrepps dags. 4. maí og 14. des. 1979.

Með bréfi dags. 5. febr. 1980 samþykkti samgönguráðherra, að eignarnámið skuli fram fara, með eftirfarandi orðum: "Með hliðsjón af þeim rökum er ráðið (Flugráð) færir fram til stuðnings málaleitan sinni getur ráðuneytið fallist á nauðsyn eignarnáms hins umrædda lands með heimild í 64. gr. l. nr. 34, 21. maí 1964 um loftferðir, en telur að framkvæmd hinnar umbeðnu gerðar eigi að vera á vegum Flugráðs."

Samkvæmt þessu telur matsbeiðandi fullnægjandi heimild til eignarnáms liggja fyrir í málinu.

Um ástæður til eignarnámsins skýrir eignarnemi svo frá, að á Gjögri hafi verið ruddur melur fyrir allöngu, sem notaður hafi verið sem sjúkraflugvöllur. Flugmálastjórnin hafi haldið þeim velli við og launað starfsmann er sinni flugi á völlinn og vellinum sjálfum. Vaxandi umferð sé um þennan flugvöll og þjóni hann afskekktu byggðarlagi með fólksflutningum, póstflugi, vöruflugi og sjúkraflugi. Vegna sérstöðu byggðalagsins sé flugvöllur á þessum stað beinlínis lífsnauðsyn. Nú séu aðstæður þannig á flugvellinum að þær séu mjög frumstæðar og verði því að gera þar miklar framkvæmdir, til þess að lágmarkskröfum til öryggis sé fullnægt. Brautina þurfi bæði að hækka og lengja mikið. Setja þurfi niður brautarljós og koma fyrir aðflugsljósum og stefnuvita. Þá þurfi að reisa þarna farþegaskýli. Allar þessar framkvæmdir kosti ekki mikið undir 200 millj. króna á verðlagi í dag. Vegna mikilvægis flugsamgangna fyrir þetta einangraða hérað sé brýn nauðsyn að fá umráð yfir landi undir flugvöll á þessum stað.

Hreppsnefnd Árneshrepps hafi um árabil reynt samninga við eigendur jarðarinnar að Gjögri vegna þessa máls, en margir þeirra hafi verið ófáanlegir til þess að láta landið af hendi. Engin kostur hafi því verið á samningum og eignarnám sé því eina úrræðið.

Landsvæði það sem þörf er á undir flugvöll er sýnt á framlagðri teikningu Ólafs Pálssonar, verkfræðings, dags. 28. febr. 1980. Spildan nær frá túngirðingu í norðvestri og 1050 m. í norðaustur. Breidd spildunnar er 150 metrar nema nálægt miðju brautarlendingarinnar norðanmegin er ætlað land undir hlað og farþegaskýli 100 x 50 m. Land þetta er allt afmarkað með rauðum línum á umræddum uppdrætti. Landsvæðið er allt 16,25 ha. að flatarmáli. Þá krefst Flugráð umferðarréttar um veg frá flugvelli út á þjóðveg. Er Matsnefndin beðin um að meta þann rétt, ef það geti talist til verðs hjá eignarnámsþola.

Eignarnemi telur að eignaskerðing eignarnámsþola sé óveruleg. Um sé að ræða óræktaðan mel, sem að mati kunnugra manna sé óræktanlegur. Eignarnámsþoli hafi aldrei svo vitað sé haft af landsvæði þessu nokkurn arð. Í leysingum hafi landsvæði þetta orðið allt eitt forarsvað. Í umhleypingum hafi landið verið erfitt yfirferðar. Hins vegar megi leiða rök að því, að gerð flugvallar þarna sé til mikilla hagsbóta fyrir eignarnámsþola. Megi reikna með að annað land jarðarinnar hækki í verði svo og að aukin ferðamannastraumur geti haft í för með sér margvíslegan hagnað fyrir eigendur jarðarinnar. Samkvæmt upplýsingum sýslumanns Strandasýslu er jörðin Gjögur óskipt sameign að undanskildu því, að Sigurður Sveinsson er talinn eigandi að lóð undir húsi skv. kaupsamningi dags. 21. nóv. 1917 og Níels Jónsson er talinn eigandi að lóð (Grænhól) skv. afsali dags. 7. janúar 1903.

Í óskiptri sameign eiga því eftirfarandi aðilar jörðina Gjögur:

1. Valdimar Thorarensen 1/4 hluta
Gjögri.

2. Karl Thorarensen 1/4 hluta
Bleiksárhlíð 61, Eskifirði.

3. Axel Thorarensen 1/5 hluta
Gjögri.

4. Ester Jónsdóttir Th 14/450 hluta
Bárugötu 22, Rvk.

5. Jakob I. Jónsson 14/450 hluta
Hlaðgerðarkoti, Mosf.

6. Vigdís Jónsdóttir Austin 14/450 hluta
er í Ameríku.

7. Sveinn H. Jónsson 14/450 hluta
Brekkugötu 26, Hf.

8. Ásta Jónsdóttir 14/450 hluta
Skólagerði 37, Kóp.

9. Garðar Kr. Jónsson 14/450 hluta
Skálagerði 9, Rvk.

10. Þorsteinn Jónsson 14/450 hluta
Arnarholti, Kjalarnesi

11. Margrét Jónsdóttir 14/450 hluta
Kópavogsbraut 12, Kóp.

12. Auðunn Jónsson 14/450 hluta
Holtagerði 40, Kóp.

13. Niels Jónsson db. 1/50 hluta

II.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnámsþolann Karl F. Thorarensen, Þórólfur Ólafsson, hæstaréttarlögmaður. Einnig hefur þessi aðili lagt fram langa aðilaskýrslu í málinu. Aðrir eignarnámsþolar hafa flestir haft samband við Matsnefndina og skýrt mál sitt fyrir henni, en þeim hefur öllum verið tilkynnt um eignarnámið og framkvæmd matsins.

Það er aðalkrafa lögmannsins, að horfið verði að leigu eða leigunámi á umræddu landi úr jörðinni Gjögri, en komi slíkt ekki til greina þá krefst hann þess að umbj. hans verði úrskurðaðar eignarnámsbætur að 1/4 hluta, kr. 500.- fyrir hvern m² lands undir flugvöll og veg og séu þá meðtaldar bætur fyrir röskun á stöðu og högum. Ennfremur krefst lögmaðurinn málskostnaðar skv. gjaldskrá L.M.F.Í. og loks vaxta svo sem lög leyfa.

Í skýrslu Karls F. Thorarensens eru rakin eftirfarandi atriði.

Það séu nú um 30 ár síðan Björn heitinn Pálsson, flugmaður hafi fyrst lent flugvél sinni á þeim mel sem hér um ræðir. Fljótlega upp úr þessu hafi verið farið að nota melinn til sjúkraflugs og 2-3 fyrstu árin hafi ekkert verið gert til lagfæringa á honum. Síðar þegar flugbrautin hafi verið tekin til notkunar til farþegaflugs hafi verið farið að endurbæta hana. Melurinn hafi verið svo að segja alsléttur frá náttúrunnar hendi og ekki þurft að fjarlægja einn einasta stein. Þá hafi verið farið út í það að bera ofaní hann til upphækkunar til að varna aurbleytu, sem hætta var á að myndaðist meðan frost var í jörðu og vatn komst ekki niður.

Eftir að farið hafi verið að nota þennan mel til lendingar flugvéla þá hafi það verið bagalegt fyrir ábúendur að nota landið til að koma heim rekavið utan af strönd. Þá hafi ekki mátt fara yfir þennan hluta leiðarinnar, sem hafi verið greiðfærastur. Hann telur að enginn staður í Gjögurslandi hafi verið betur fallinn til túngerðar en þessi melur. Eignarnámsþolinn telur að meta beri verðgildi þessa lands fyrst og fremst með tilliti til þess tilgangs, sem er fyrir eignarnáminu. Vísar hann til þess sem fram komi í málinu, að núverandi lendingarstaður sé sá eini nothæfi á þessu landsvæði. Mjög vaxandi umferð sé um þennan flugvöll og þjóni hann afskekktu byggðarlagi, með fólksflutningum, póstflugi, vöruflugi og sjúkraflugi. Vegna sérstöðu byggðalagsins sé flugvöllurinn beinlínis lífsnauðsyn í nútíma þjóðfélagi. Þetta land sé því slíkum kostum búið að það komi til með að vera í hæsta gæðaflokki til verðgildis. Telur eignarnámsþolinn að Matsnefndin eigi að hafa framangreindar staðreyndir í huga og einnig það að mat á þessu landi verði ekki endurtekið, þótt forsendur fyrir gildi landsins verði síðar allt aðrar. Nú um þriggja áratugaskeið hafi gengi þessa byggðalags verið á undanhaldi og íbúum hafi fækkað. Hins vegar sé það bjargföst trú eignarnámsþolans, að þarna eigi eftir að rísa blómleg byggð og þá verði allar forsendur fyrir verðgildi landsins aðrar en nú. Þessi eignarnámsþoli gerir einnig þá kröfu að allt það jarðrask, sem gert hafi verið utan flugvallar sé metið og bætt að fullu.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang og skoðað landið og allar aðstæður. Var landið umhverfis flugvöllinn skoðað rækilega.

Leitað var um sættir með aðilum, en árangurslaust.

Eignarnámsheimildina er að finna í 64. gr. laga nr. 34/1964, um loftferðir, en þar segir að rétt sé að framkvæma eignarnám samkvæmt lögum nr. 61/1917 (nú lög 11/1973) vegna gerðar flugvallar eða annars flugvirkis, vegna stækkunar, endurbóta eða viðhalds slíks virkis í þágu loftferða, enda telji flugmálaráðherra að mannvirkjagerðin sé frá almennu sjónarmiði æskileg, sbr. bréf samgönguráðherra 5/2 1980, sem fram er lagt í málinu.

Þá kemur til álita, hvort landeigendur eigi rétt til endurgjalds fyrir land það, sem tekið er af þeim undir þessi mannvirki eða hvort það sé verðlaust. Einnig koma til álita aðrar ástæður, sem fram hafa komið, svo sem málsástæður eignarnámsþolans Karls F. Thorarensens.

Jörðin Gjögur er nú skipulagsskyld samkvæmt lögum. Á jörðinni er rekinn nokkur landbúnaður, sjósókn stunduð og reki hagnýttur eftir aðstæðum. Er líklegt að þannig blandaður búskapur verði rekinn á jörðinni í næstu framtíð og þykir rétt að leggja þetta til grundvallar við mat á landi því, sem um ræðir í þessu máli, sbr. meginreglu 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964. Hins vegar verður ekki höfð hliðsjón af 30. gr. sömu laga.
Það er reynsla annars staðar frá, að góðar samgöngur tryggi betur að land haldist í byggð og tryggi þar með frekar verðgildi landsins.

Þannig gegnir flugvöllurinn mikilvægu þjónustuhlutverki fyrir íbúa þessa svæðis, og er ekki gerður í hagnaðarskyni.

Ekki er efni til að fara nánar út í einstök atriði í aðilaskýrslum í málinu. Lega flugvallarsvæðisins, sem verður afgirt, er þannig að svæðið klýfur landið og skapar með því óhagræði við umferð og nýtingu jarðarinnar, og verður tekið tillit til þess. Þá má ætla að umferðaréttur og umferð um veg að flugvallarsvæðinu valdi nokkru ónæði, og verður tekið tillit til þess við matið.

Meginhluti landsvæðis þess, sem tekið er undir flugvöllinn hefur verið með gróðursnauðan leirkenndan jarðveg og á stöðum ná klapparhryggir upp á yfirborð landsins. Mest er þetta áberandi nálægt norðurenda flugbrautar.

Holklakamyndun er mikil í landi þessu. Þegar jörð er að þiðna er ekki óalgengt að bjarga þurfi sauðfé úr forarsvæði því sem þá myndast. Klakaskemmdir eru algengar á svæði þessu á ræktuðu landi skv. skýrslum Kalnefndar.

Landspilda þessi hefði verið dýr og ótrygg í ræktun, enda virðist hafa verið sneitt hjá henni við töku á landi til ræktunar á jörðinni.

Samkvæmt jarðaskrá útgefinni af Landnámi ríkisins var bústofn hjá Axel Thorarensen, Gjögri I, 46 ærgildi fardagaárið 1976/77 og 56 ærgildi 1977/78. Valdimar Thorarensen, Gjögri II er þá með 70 ærgildi 1976/77 og 72 ærgildi 1977/78. Gjögur III, eigandi Karl Thorarensen, er talin í eyði frá 1961. Gjögur IV eigendur db. Jóns Sveinssonar talin auð.

Stærð vísitölubúsins er nú talin 440 ærgildi.

Í vettvangsgöngu sáu matsmenn ekki nein merki þess að um jarðhita væri að ræða innan flugvallarsvæðisins. Mat þetta skerðir því ekki hitaréttindi jarðarinnar á neinn hátt og engin hitaréttindi fylgja flugvallarsvæðinu.

Matsnefndinni er kunnugt um verð og möt á landi víðsvegar um landið. Þegar tekið er tillit til þeirra atriða, sem að framan eru rakin, verðs á sambærilegu landi við svipaðar aðstæður, verðbreytinga og annarra atriða, sem Matsnefndin telur að hér eigi að skipta máli, telur nefndin hæfilegt verð fyrir landsvæði það, 16.25 ha., sem tekið er undir flugvöllinn, umferðarétt að svæðinu, óhagræði og aðra röskun sem fylgir þessu eignarnámi kr. 1.485.000.- ein milljón fjögur hundruð áttatíu og fimm þúsund- og er þá miðað við staðgreiðslu.

Bætur sundurliðast þannig:

Grunnverð lands 16,25 ha. á kr. 60.000 pr. ha kr. 975.000
Bætur vegna umferðarréttar á flugvöll " 125.000
Bætur vegna óhagræðis í nýtingu
landsins og jarðrasks ............................................ " 385.000
Alls kr. 1.485.000

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Bætur sundurliðast þannig:

1. Valdimar Thorarensen á 1/4 hl. og fær kr. 371.250
2. Karl Thorarensen " 1/4 " " " " 371.250
3. Axel Thorarensen " 1/5 " " " " 297.000
4. Ester Jónsdóttir Th. " 14/450 " " " " 46.200
5. Jakob I. Jónsson " " " " " " 46.200
6. Vigdís Jónsd. Austin " " " " " " 46.200
7. Sveinn H. Jónsson " " " " " " 46.200
8. Ásta Jónsdóttir " " " " " " 46.200
9. Garðar Kr. Jónsson " " " " " " 46.200
10. Þorsteinn Jónsson " " " " " " 46.200
11. Margrét Jónsdóttir " " " " " " 46.200
12. Auðunn Jónsson " " " " " " 46.200
13. Niels Jónsson db. " 1/50 " " " " 29.700
Alls kr. 1.485.00

Rétt þykir skv. 11. gr. laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði talsmannslaun Þórólfs Ólafssonar, hrl. kr. 75.000.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndinnar kr. 400.000.-

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Flugráð, greiði eftirtöldum eignarnámsþolum fébætur, sem hér segir:

Valdimar Thorarensen kr. 371.250
Karli Thorarensen " 371.250
Axel Thorarensen " 297.000
Ester Jónsdóttur Th. " 46.200
Jakobi I. Jónssyni " 46.200
Vigdísi Jónsd. Austin " 46.200
Sveini H. Jónssyni " 46.200
Ástu Jónsdóttur " 46.200
Garðari Kr. Jónssyni " 46.200
Þorsteini Jónssyni " 46.200
Margréti Jónsdóttur " 46.200
Auðunni Jónssyni " 46.200
Niels Jónsson db. " 29.700

Eignarnemi greiði talsmannslaun Þórólfs Ólafssonar, hrl. kr. 75.000.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 400.000.
Jón G G.



Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Úr myndasafni

  • Kristján Albertsson bóndi Melum II.
  • Gamla bryggjan á Norðurfirði og ís.
  • Úr sal.Gestir.
  • Þá fer fyrsta hollið á stað,báturinn Agnes togar viðinn út.
  • Úr sal.
Vefumsjón