Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 5. nóvember 2009
Prenta
Lúðrasveitarheimsókn í Vesturbyggð.
Fréttatilkynning.
Tónlistarskóli Vesturbyggðar tekur á móti lúðrasveit Tónlistarskóla Seltjarnarness um komandi helgi. Gestirnir koma á Patreksfjörð síðla föstudags og verða fram á sunnudag. Á laugardagsmorgun kl. 9 hefjast æfingar lúðrasveitarinnar og er öllum á suðursvæði Vestfjarða sem kunna á blásturshljóðfæri boðið að taka þátt í þeim. Jafnvel gefst þeim líka kostur á því að taka þátt í tónleikum sveitarinnar. Æft verður í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði.
Á sunnudaginn býður lúðrasveitin öllum sem áhuga hafa á tónleika í Skjaldborgarbíói. Frítt er inn á tónleikana sem hefjast stundvíslega kl. 12.30.
Þessi heimsókn er liður í vinaskólasambandi skólanna tveggja. Um þrjátíu manns koma vestur í þessa heimsókn.