| föstudagurinn 22. ágúst 2008 Prenta

Össur fundar með heimamönnum í Árneshreppi: Mjög jákvæður gagnvart virkjun í Hvalá

Pétur í Ófeigsfirði og Össur ræddu Hvalárvirkjun. Getur hleypt algerlega nýju blóði í mannlíf og atvinnulíf Árneshrepps, sagði ráðherrann.
Pétur í Ófeigsfirði og Össur ræddu Hvalárvirkjun. Getur hleypt algerlega nýju blóði í mannlíf og atvinnulíf Árneshrepps, sagði ráðherrann.



Þetta skapaði bæði óöryggi fyrir almenning og atvinnulíf, yki kostnað og óþægindi, og kæmi í veg fyrir að ýmiss konar nýiðnaður, einsog til dæmis gagnaver, ættu nokkra möguleika á að verða til á Vestfjörðum. "Það er einfaldlega staðreynd, og hvorki stjórnvöldum né orkufyrirtækjum til sóma, að Vestfirðir búa við þriðja flokks raforkukerfi," sagði ráðherrann, og kvað mjög skýrt að orði um að hann hyggðist beita sér fyrir gjörbreytingu á því.

           
Össur sagði að tveir kostir væru fyrir hendi. Annars vegar að byggt yrði upp algjörlega nýtt flutningskerfi raforku til Vestfjarða, sem væri tæknilega kleift, en mjög dýrt. Hinn kosturinn væri sá að leita eftir virkjanamöguleikum á Vestfjörðum til að framleiða nægt rafmagn fyrir Vestfirði, þannig að þó bilanir yrðu á Vesturlínu færi ekki rafmagn af í þeim bæjum og sveitarfélögum sem hefðu aðgang að vestfirskri orku. Hann kvað það miklu hagkvæmara fyrir ríkið að stuðla að orkuframleiðslu úr Hvalá en ráðast í nýtt flutningskerfi vestur, og það tryggði betur orkuöryggi Vestfjarða.

Ráðherrann sagði að ýmsir kostir væru í athugun varðandi öflun orku á Vestfjörðum. Stækkun Mjólkár, afbrigði af Glámuvirkjun, og smærri virkjanakostir sem opnuðust með fyrirhugaðri tengingu Djúpsins við flutningskerfið hefðu verið hjá sér til skoðunar í ráðuneytinu, og síðast en ekki síst Hvalárvirkjun. Hann rifjaði upp að hann hefði einmitt átt þátt í þingsályktunartillögu frá Karli V. Matthíassyni, alþingismanni, um skoðun á kostum Hvalárvirkjunar, sem hefði leitt til þess að Alþingi samþykkti að fela iðnaðarráðherra að gera úttekt á þeim. Sú skýrsla lægi nú fyrir, og væri jákvæð.

           
"Fyrr í mánuðinum átti ég fundi með forsvarsmönnum Landsnets þar sem rætt var sérstaklega um virkjun Hvalár, og mín niðurstaða er sú, að ef umhverfiskröfum er mætt væri það besti kosturinn til að tryggja orkuöryggi og orkusjálfstæði Vestfjarða," sagði Össur. Hann sagði virkjunina kosta á annan tug milljarða, og fagnaði því að nú þegar væru framtakssamir Vestfirðingar að hefja undirbúning að henni. Orka úr henni myndi meira en duga Vestfjörðum miðað við núverandi þarfir. Það myndi setja þá jafnfætis öðrum landssvæðum varðandi orkumál, og það fælist einmitt í þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að allt landið byggi við sömu gæði í innviðum einsog öryggi raforku.

"Þetta mun gjörbreyta möguleikum Vestfirðinga til að fá til sín hluta af hinu nýja atvinnulífi framtíðarinnar, sem krefst meðal annars mikilla gæða í raforku og fjarskiptum," sagði Össur.

           
Iðnaðarráðherrann sagði að virkjun Hvalár myndi skipta miklu máli fyrir atvinnulíf í Árneshreppi. Bæði yrði þörf á miklum mannskap meðan á byggingu hennar stæði, en jafnframt gæfi auga leið, að þegar ráðist yrði í fjárfestingar upp á marga milljarða yrði að bæta vegasamgöngur verulega, til langframa skapaði virkjunin störf í sveitinni, og þörf á aukinni þjónustu. Fleira fólk skyti einnig stoðum undir nauðsynlega þjónustu einsog skóla, verslun og samgöngur. Hann nefndi sérstaklega að virkjunum og dreifingu orku fylgdi háþróað fjarskiptakerfi, og hann taldi einsýnt að það yrði nýtt til að tryggja Árneshreppi í framtíðinni bestu fjarskiptagæði varðandi síma og internet sem völ væri á. Hér væri því um framkvæmd að ræða sem gæti hleypt algerlega nýju blóði í mannlíf og avinnulíf Árneshrepps.

           
Að loknum fundi í kaffi Norðurfirði hélt ráðherrann ásamt föruneyti út í Ingólfsfjörð, og síðan Ófeigsfjörð. Þar skoðaði Össur Hvalá eftir hafa drukkið te úr vallhumli sem vex í Ófeigsfirði og rætt virkjun Hvalár í þaula við Pétur Guðmundsson en hann á stærstan hluta vatnsréttinda sem tengjast Hvalánni.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Úr myndasafni

  • Hafís útaf Reykjanesströnd.
  • Íngólfshús á Eyri-24-07-2004.
  • Saumaklúbbur í Bæ þann 09-01-2009.
  • Njáll Gunnarsson og Gunnsteinn Gíslason.
  • Karlar í saumaklúbb á Bergistanga 16-01-2010.
  • Gengið upp Sýrárdal.
Vefumsjón