Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 1. júní 2015 Prenta

Sumarmölin 2015.

Drangsnes. Mynd Mats.
Drangsnes. Mynd Mats.

Tónlistarhátíðin Sumarmölin fer fram í þriðja sinn í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi þann 13. júní næstkomandi. Hátíðin er rómuð fyrir einstaka stemningu þar sem fólk á öllum aldri kemur saman og nýtur frábærrar tónlistar í einstöku umhverfi.

 

Fyrir Sumarmölina í ár var rjóminn fleyttur ofan af íslensku tónlistarlífi og sett saman ómótstæðileg dagskrá þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

 

Á hátíðinni í ár koma fram:

 

Sóley, Retro Stefson, Tilbury, Ylja, Borko, Kveld-Úlfur og Berndsen

 

16 ára aldurstakmark er á tónleikana en yngri tónleikagestir eru hjartanlega velkomnir í fylgd með fullorðnum.

 

Tónleikarnir hefjast klukkan 19:30 en húsið opnar um hálftíma fyrr.

 

Að tónleikum loknum munu FM Belfast DJar halda upp stuði og stemningu fyrir dansþyrsta tónleikagesti á Malarkaffi fram á nótt.

 

Miðaverð er 4500 kr. í forsölu

Hægt er að kaupa 2 miða og gistingu fyrir 2 á Malarhorni á aðeins 25.000 kr.

Aðgangur er ókeypis fyrir 12 ára og yngri.

 

Forsala aðgöngumiða fer fram á tix.is.

 

Nánari upplýsingar veitir Björn Kristjánsson í s. 8645854

 

Nokkur orð um hljómsveitirnar:

 

Sóley

Sóley gaf fyrir skemmstu út plötuna Ask the Deep sem mikil eftirvænting hefur verið eftir enda hefur hún heillað tónlistarunnendur um allan heim með einstakri tónlist sinni. Sóley og meðreiðasveinar hennar verða í fantaformi, enda nýkomin tónleikaferð um Evrópu þegar þau mæta á Drangsnes.

 

Retro Stefson

Hljómsveitin Retro Stefson hefur vanið komur sínar á Strandir um nokkurt skeið og dvalist reglulega við æfingar og tónsmíðavinnu í Bjarnarfirði. Nú ætlar þessi stórhljómsveit að koma út á Drangsnes og æra gesti Sumarmalarinnar með grípandi poppsmellum og líflegri sviðsframkomu.

 

Tilbury

Hljómsveitin Tilbury sló eftirminnilega í gegn með laginu Tenderloin fyrir 3 árum. Sveitin leikur aðgengilegt og grípandi rafskotið popp með dramatískum undirtóni og hefur gefið út tvær breiðskífur sem báðar fengu góð viðbrögð tónlistarunnenda.

 

Ylja

Ylja er að koma í annað sinn á Drangsnes en í árdaga sveitarinnar tróð hún upp á Mölinni á Drangsnesi, þá sem tríó. Nú er Ylja orðin 5 manna hljómsveit og kemur fram í allri sinni dýrð á Sumarmölinni í ár.

 

Borko

Borko flutti á Drangsnes árið 2012 og hefur nýtt nánast hvert einasta tækifæri sem gefist hefur til að troða upp með gítarinn. En nú mun Borko í fyrsta sinn koma fram á Drangsnesi með fullskipaðri hljómsveit og mun leika glæný lög í bland við eldri slagara.

 

Kveld-Úlfur

Kveld-Úlfur er hljómsveit skipuð nemendum úr Grunnskólanum á Drangsnesi á aldrinum 11-16 ára. Þau spila fjölbreytta tónlist, allt frá klassískum rokksmellum yfir í nýmóðins poppslagara.

 

Berndsen

Berndsen hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir haganlega smíðað og grípandi 80’s skotið rafpopp sitt. Hann sat lengi vel í efsta sæti vinsældarlista Rásar 2 með lagið Úlfur Úlfur sem Bubbi Morthens flutti með honum en auk þess hafa lögin Supertime og Planet Earth hljómað mikið á öldum ljósvakans.

 

 

Nokkur orð um Drangsnes

Drangsnes er sjávarþorp við norðanverðan Steingrímsfjörð. Þar búa um 70 manns sem eru annálaðir fyrir gestrisni, jákvæðni og almenna gleði. Í bænum er kaupfélag af gamla skólanum þar sem allt fæst og ef það er ekki til þá er því reddað. Þar er líka sundlaug og fyrirtaks tjaldsvæði en heitu pottarnir í fjöruborðinu eru eitt helsta aðdráttarafl Drangsness. Þeir eru öllum opnir, allan sólarhringinn, allan ársins hring.

Hátíðargestir sem ekki kæra sig um volk í tjaldi geta sett sig í samband við Malarhorn, Gistiþjónustu Sunnu eða Hótel Laugarhól í Bjarnarfirði. Allir þessir aðilar bjóða upp á úrvals gistingu og frábæra þjónustu.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Úr myndasafni

  • Munaðarnes 15-03-2005.
  • Litla-Ávík 10-03-2008.
  • Dregið upp.
  • 21-09-2022.Borgarísjaki CA. 10 KM. NNA af Reykjaneshyrnu, eða CA. 15 KM. Austur af Sæluskeri. Virðist strandaður.
  • Lokað þak inni.12-11-08.
  • Borgarísjakabrot útaf Krossnesi 15-09-2007.
Vefumsjón