Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 24. til 31. okt. 2011.
Í liðinni viku voru fjögur umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar á Vestfjörðum. Þriðjudaginn 25. okt., var ekið á kyrrstæða bifreiða á Ísafirði, um minni háttar óhapp að ræða þar. Miðvikudaginn 26. okt., var ekið á gangandi vegfaranda við Sparisjóðinn í Bolungarvík, viðkomandi var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar og reyndist viðkomandi sem betur fer lítið slasaður. Þann sama dag var óhapp á Innstrandarvegi, þar varð óhapp með þeim hætti að flutningabifreið var ekið norður Innstrandarveg, þegar kind hljóp skyndilega í veg fyrir bílinn, ökumaður hemlaði og við það kastaðist farmurinn fram og í gengum flutningakassann og á ökumannshúsið með þeim afleiðingum að það kastaðist fram. Ökumaður slapp án meiðsla. Björgunarsveit var fengin til aðstoðar við að safna saman farminum, sem var rækja. Bifreiðin var flutt af vettvangi með viðeigandi tækjum. Laugardaginn 29. okt. varð óhapp á veginum um Þröskulda, þar lenti bíll utan í öðrum bíl sem var fastur á veginum, vegna snjóa, mjög slæmt skyggi var þegar óhappið átti sér stað. Ekki miklar skemmdir um að ræða þar.
Þó nokkrar tilkynningar bárust lögreglu vegna vegfaranda sem voru með bíla sína fasta á fjallvegum í umdæminu í liðinni viku, veðurfar rysjótt og færð ekki góð. Þurfti í nokkrum tilfellum að kalla björgunarsveitir til aðstoðar.
Að gefnu tilefni vill lögregla benda vegfarendum á að kynna sér vel ástand vegna, hvort viðkomandi vegur/vegir eru færir, áður en lagt er í langferð á þessum tíma árs. Vill lögregla benda á þjónustusíma Vegagerðarinnar 1777 og 1779, þar er hægt að fá allar upplýsingar um færð og veður á fjallvegum.
Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku, tveir í nágrenni við Ísafjörð og einn við Hólmavík. Sá sem hraðast ók var mældur á 114 km/klst.,þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst.