Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 11. desember 2014 Prenta

Vindur í seglum II - Strandir og firðir 1931-1970.

Vindur í seglum.Forsíða bókar.
Vindur í seglum.Forsíða bókar.

Annað bindi sögu verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum er komin út. Vindur í seglum II Strandir og firðir 1931-1970. Höfundur Sigurður Pétursson sagnfræðingur. Barátta verkafólks fyrir bættum kjörum á fyrri hluta 20. aldar gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Hér koma við sögu átök við atvinnurekendur, innri deilur í verkalýðshreyfingunni og pólitískar væringar. Um leið er lýst þróun atvinnuhátta og samfélags í byggðum Vestfjarða á 20. öld.

Í öðru bindi sögu verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum, Vindur í seglum II, segir frá verkafólki við sjóinn, samtökum þess og samfélagi á Vestfjörðum. Sagt er frá tólf verkalýðsfélögum í jafnmörgum byggðarlögum þar sem verkalýðshreyfingin náði fótfestu og verkafólk og sjómenn fengu í fyrsta sinn tækifæri til að hafa áhrif á kjör sín og afkomu. Sögusviðið liggur um Vestfirði, frá Súgandafirði vestur til Patreksfjarðar, suður í Flatey á Breiðafirði og frá Borðeyri og norður um Strandasýslu til Djúpavíkur.

Úr formála höfundar:

„Á tímabilinu 1931-1970 sótti verkalýðshreyfingin fram til áhrifa á öllum sviðum þjóðlífisins og varð um miðja öldina stærsta og áhrifamesta fjöldahreyfing á landinu. Félagsleg réttindi náðust fram, áhrif á kaup og kjör voru viðurkennd og afskipti og þátttaka verkalýðsfélaga af atvinnulífi og samfélagsmálum þóttu sjálfsögð. Hlutverk verkalýðsfélaganna í gangverki samfélagsins var staðreynd. Þetta mikilvæga hlutverk einstakra verkalýðsfélaga og hreyfingar vinnandi fólks náðist ekki fram viðstöðulaust. Það kostaði baráttu og þrek.“

Alþýðusamband Vestfjarða gefur bókina út. Hún er 540 bls., prýdd ríflega 200 ljósmyndum. Vindur í seglum II er væntanleg í bókaverslanir á næstu dögum.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Úr myndasafni

  • Sett í steypubílinn.06-09-08.
  • Hilmar Hjartarson tók á móti gestum með harmonikkuleik.
  • Séð til Krossness frá Litlu-Ávík 15-03-2005.
Vefumsjón