Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 3. október 2014

Fyrsti snjór á láglendi.

Flekkótt jörð var í morgun.
Flekkótt jörð var í morgun.
1 af 2

Í morgun var fyrsti snjór haustsins komin á láglendi. Mjög kólnaði í veðri í nótt og í morgun orðin mjög hvass af Norðvestri. Veðurlýsing frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík var þannig í morgun klukkan níu. Norðvestan 20 m/s og upp í 27 m/s í kviðum,mikil slydda,hiti 1,4 stig,flekkótt jörð og snjódýpt 2 cm og stórsjór,úrkoman mældist 31,4 mm og stórsjór.

Veður er en kólnandi og fer þetta þá úr slyddu í snjókomu. Eftir veðurspá Veðurstofu Íslands fer að draga úr vindi og úrkomu þegar líður á daginn.

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 1. október 2014

Veðrið í September 2014.

Fyrsta snjó í fjöll gerði aðfaranótt 26. Séð frá Litlu-Ávík í Árnesfjall í Trékyllisvík.
Fyrsta snjó í fjöll gerði aðfaranótt 26. Séð frá Litlu-Ávík í Árnesfjall í Trékyllisvík.
1 af 3

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Mánuðurinn byrjaði með norðlægum vindáttum eða breytilegum,talsverð rigning var þann 1 og 2. Þann fimmta gerði suðlægar vindáttir sem stóð til sextánda,með hlýju veðri. Þá gerði norðlægar vindáttir í tvo daga. Þann 19 gekk í suðlægar vindáttir aftur með einhverri vætu fram til 23. Þann 24. var austlæg vindátt með hægum vindi en mikilli rigningu um tíma yfir miðjan daginn. 25.var suðvestan,allhvass um tíma með skúrum. Þann 26.gerði norðan hvassviðri um tíma með mikilli úrkomu um morguninn og mjög kólnandi veðri. Eftir það var norðaustan eða auslægar vindáttir og síðan suðlægar með vætu. Úrkomusamt var í mánuðinum. Fyrsti snjór í fjöllum var að morgni 26.flekkótt fjöll.

Mjög góð berjaspretta var í sumar,af krækiberum en lítið af bláberum. Mjög sennilega gosmengun,mistur þann 17.og mikið mistur þann 20.um tíma. Fallþungi dilka var lægri en í fyrra. Bændur kenna vætutíð í sumar um.


Yfirlit dagar eða vikur:

1-3:Norðlægar vindáttir,kul eða gola,skúrir,síðan rigning og súld,hiti 5 til 11 stig.

4:Breytileg vindátt,logn eða andvari,þurrt í veðri,hiti 7 til 12 stig.

5-16:Suðvestan eða suðlægar vindáttir,gola,kaldi,stinningskaldi,en allhvass eða hvassviðri, þ.11 og 12,með stormkviðum,skúrir,en þurrt í veðri þ.13 og 16. Hiti 6 til 18,0 stig.

17-18:Norðan eða NA,kul eða gola,þurrt þ.17.en sennilega gosmystur seinnipart þ.18,súldarvottur,hiti 3 til 10 stig.

19-20:Suðvestan eða suðlæg vindátt,andvari,stinningsgola,rigning,skúrir,gosmistur þ.20 talsvert,hiti 5 til 13 stig.

21-22:Suðaustan og Sunnan,gola,stinningsgola,stinningskaldi,rigning,skúrir,hiti 5 til 13 stig.

23:Suðvestan,gola,stinningsgola,skúrir,hiti gola,stinningsgola,skúrir,hiti 6 til 10 stig.

24:Austan andvari,kul eða gola,mikil rigning um tíma,hiti 6 til 9 stig.

25:Suðvestan stinningskaldi eða allhvass,en N um kvöldið með stinningsgolu,skúrir,hiti 5 til 10 stig.

26:Norðan stinningskaldi,allhvass en stinningsgola um kvöldið,mikil rigning,hiti 4 til 7 stig.

27-28: Norðaustan og austan,stinningskaldi,kaldi,stinningsgola,gola,rigning,skúrir,hiti 4 til 7 stig.

29-30:Suðaustan sunnan,gola,kaldi,stinningskaldi,rigning,skúrir,hiti 4 til 13 stig.

 

Mæligögn:

Úrkoman mældist 91,8 mm. (í september 2013: 107,7 mm.)

Þurrir dagar voru 4.

Mestur hiti mældist þann 14. +17,5 stig.

Minnstur hiti mældist þann 17. +3,1 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +9,2 stig.

Meðalhiti við jörð var + 5,6 stig. (í september 2013: +3,42 stig.)

Sjóveður:Allsæmilegt meiri hluta mánaðar,en slæmt dagana 1-2-26-27 og 28.

Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 26. september 2014

Fyrsti snjór í fjöllum.

Örkin 634 m. Snjór náði niðurfyrir 200 metra.
Örkin 634 m. Snjór náði niðurfyrir 200 metra.
1 af 2

Í morgun var komin fyrsti snjór í fjöll hér í Árneshreppi,og víðar sjálfsagt. Vindur gekk til norðlægrar vindáttar í gærkvöld og í nótt og orðin hvass í morgun 12 til 15 m/s. Allmikil úrkoma var í nótt og í morgun,mikil rigning á stundum,enda var mesta úrkoman eftir nóttina á veðurstöðinni í Litlu-Ávík 14,5 mm,og næst mest var á Sauðanesvita 10,4 mm. Nú fyrir hádegið er farið að draga mikið úr úrkomunni. Úrkoman fellur sem rigning niður við sjó og á láglendi,en ofan við tvö hundruð metra sem slydda eða snjór. Í morgun náði snjór í fjallinu Örkinni,sem er notuð sem mælikvarði fyrir snjó til fjalla á veðurstöðinni í Litlu-Ávík,auð fjöll,fleklótt eða alhvít,niður fyrir 200 metra og víðar neðar hlé megin við fjöll. Meðfylgjandi myndir eru teknar klukkan rúmlega níu í morgun.

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 1. september 2014

Veðrið í Ágúst 2014.

Hitinn náði tvívegis 17,1 stigi í mánuðinum.
Hitinn náði tvívegis 17,1 stigi í mánuðinum.

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Mánuðurinn byrjaði með hafáttum sem stóðu fram til 13. og var þurrt og ágætt veður um verslunarmannahelgina eða fyrstu fimm daga mánaðar. Þá gerði loks suðvestanátt í einn dag. Þann 15.gekk aftur í norðlægar vindáttir með rigningu,sem stóð aðeins í tvo daga. Frá 17.til 21.voru breytilegar vindáttir,hægviðri og mikið til þurru veðri. Þann 22,gekk í suðlægar vindáttir með úrkomu litlu veðri og hlýindum,sem stóð til 27. Síðan breytilegar vindáttir,en austlæg vindátt með rigningu síðasta dag mánaðarins. Mánuðurinn var hægviðrasamur og úrkomulítill. Seinna slætti var lokið um miðjan mánuð hjá bændum í Árneshreppi.

 

Yfirlit dagar eða vikur:

1-13: Norðan eða NA áttir,kul,gola,stinningsgola,en kaldi 7.8,og 9,þurrt í veðri 1.til 5.og þ.13.síðan súld eða rigning,hiti 5 til 13 stig.

14:Suðvestan kaldi,smá skúrir,hiti 10 til 13 stig.

15-16:Norðan gola,stinningskaldi síðan kaldi,rigning,hiti 6 til 9 stig.

17-18:Suðvestan eða breytilegar vindáttir,andvari,kul eða stinninggola,þurrt í veðri,hiti 5 til 14 stig.

19-21:Norðan,NA eða breytilegar vindáttir,andvari,kul,gola,eða stinningsgola,þurrt í veðri þ.21,annars smá súld eða skúra vottur,hiti 3 til 13 stig.

22-27:Suðvestan eða suðlægar vindáttir,kul,gola,stinningsgola,kaldi,en allhvass um tíma þ.26,þurrt í veðri 21 og 22,annars lítilsáttar skúrir,hiti 4 til 17 stig.

28-30:Breytilegar vindáttir,andvari,gola,lítilsáttar væta,úrkomu vart,hiti 7 til 17 stig.

31:Auslæg vindátt,kul eða gola,rigning,hiti 10 til 14 stig.

 

Mæligögn:

Úrkoman mældist 33,5 mm. (í ágúst 2013: 73,1 mm.)

Þurrir dagar voru 10.

Mestur hiti mældist dagana 27 og 30: +17,1 stig.

Minnstur hiti mældist þann 21: +2,5 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +9,8 stig.

Meðalhiti við jörð var +6,57 stig.  (í ágúst 2013: +5,66 stig.)

Sjóveður:Talsverður sjór dagana 7-8-9 og 16,annars sæmilegt sjóveður eða gott.

Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 2. ágúst 2014

Veðrið í Júlí 2014.

Mikið jarðfall varð úr Árnesfjalli að norðanverðu Mela megin fimmtudaginn 10.
Mikið jarðfall varð úr Árnesfjalli að norðanverðu Mela megin fimmtudaginn 10.
1 af 3

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Mánuðurinn byrjaði með hægri suðlægri vindátt,en gekk síðan í norðlægar vindáttir,allhvassar,með mikilli úrkomu fram til sjötta. Hægari vindur af austri og síðan suðri,með minni úrkoma eftir það fram til ellefta. Þá gekk í ákveðna norðanátt aftur með talsverðri úrkomu fram til 16. Loks gerði suðvestanátt þann 17 sem stóð þann dag. Enn og aftur gerði hafáttir í fimm daga með vætutíð. 23 og 24 voru suðlægar vindáttir,með einhverri úrkomu. Frá 26.og út mánuðinn voru hafáttir enn á ný með úrkomu,en þurru veðri tvo síðustu daga mánaðarins.

Miklir vatnavextir voru í byrjun mánaðar,nokkrar vegaskemmdir urðu á vegum á norðanverðum Ströndum. Vegur fór í sundur við brúna yfir Selá í Steingrímsfirði og talsvert um aurspýjur niður á vegi norður í Árneshrepp.

Mikið jarðfall varð úr Árnesfjalli að norðanverðu( Mela megin)fimmtudaginn 10. Mikil spilda fór niður og náði niður á veg í svonefndri Hvalvík og lokaði veginum í um 4 til 5 tíma,þegar talið var óhætt að opna. Skírsla hefur verið send ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands og myndir um þann atburð.

Illa  hefur gengið með heyskap hjá bændum í Árneshreppi vegna vætutíðar. Nokkrir bændur slógu talsvert uppúr 20.júní í góðu veðri,enn eftir mánaðarmótin hefur verið vætutíð. Það var ekki fyrr en 9. eða 10.sem bændur byrjuðu aftur á slætti en erfitt var með að ná þurru heyji vegna úrkomu og þurrkleysis og mikils raka og ef var þurrt veður var enginn vindur. Gras var orðið úr sér sprottið og það varð bara að slá. En flestir bændur luku fyrri slætti nú í lok mánaðar,og mest allt hey er mjög blautt jafnvel hrakið og heygildin sennilega ekki góð.

 

Yfirlit dagar eða vikur:

1:Suðlæg vindátt,kul,gola,stinningsgola,rigning,hiti +7 til +14 stig.

2-8:Norðan eða NV,stinningsgola,kaldi,stinningskaldi,allhvass,rigning,súld,hiti +3 til +14 stig.

9:Norðaustan eða A,andvari eða kul,rigning seinnihluta dags,hiti +8 til +13.0 stig.

10:Sunnan eða SV,gola,síðan kul,skúrir,hiti +10 til +13 stig.

11-16:Norðlægar vindáttir,kul,gola,stinningsgola,rigning eða súld,hiti +7 til +13 stig.

17:Suðvestan,gola eða stinningsgola,smá skúrir,hiti +9 til +15 stig.

18-22:Norðlægar eða breytilegar vindáttir,andvari,kul,gola eða stinningsgola,þurrt í veðri þ.19.annars súld,eða rigning,oft þoka eða þokuloft,hiti +8 til +14 stig.

23:Sunnan kul,gola eða stinningsgola,þurrt í veðri,hiti +9 til 19 stig.

24-25:Suðlægar vindáttir,kul,eða gola,skúrir,hiti +10 til +19 stig.

26-31:Hafáttir,andvari,kul,gola,stinningsgola,kaldi,rigning,súld,þurrt í veðri 27,28,30 og31,hiti +6 til +16 stig.

 

Mæligögn:

Úrkoman mældist 124,6 mm.  (í júlí 2013: 65,3 mm.)

Þurrir dagar voru 6.

Mestur hiti mældist þann 23: +19,0 stig.

Minnstur hiti mældist þann 7: +2,5 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +9,7 stig.

Meðalhiti við jörð var +7,59 stig. (í júlí 2013: +6,13 stig.)

Sjóveður:Nokkuð slæmt 2 til 6,dálítill upp í allmikinn sjó,og 3 síðustu daga mánaðar,dálítill,talsverður sjór. Annars mjög gott sjóveður,og oft aðeins gráð eða jafnvel ládautt.

Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 1. júlí 2014

Veðrið í Júní 2014.

Snemma var byrjað að heyja í Árneshreppi þetta sumarið. Heyskapur á Melum 23-06-2014.
Snemma var byrjað að heyja í Árneshreppi þetta sumarið. Heyskapur á Melum 23-06-2014.

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Mánuðurinn byrjaði með hafáttum norðan og norðvestanáttum,með hægum vindi en mikið um þokuloft og súld og fremur köldu veðri til 11. Þann 12. fór að hlýna í byli með hægviðri og þokuloftið hopaði í bili. Loks þann 16. gerði suðvestanáttir sem stóð í fjóra daga,með hlýju veðri og smá vætu. Aftur gekk í hægar hafáttir þann 20. með viðkomandi þokulofti og smá súld með köflum,sem stóð til 24. Eftir það voru breytilegar vindáttir og síðan suðlægar vindáttir út mánuðinn. Hægviðrasamt var allan mánuðinn og úrkomulítið. Heyskapur byrjaði óvenju snemma þetta sumarið í Árneshreppi vegna óvenju góðs veðurfars.

Yfirlit dagar eða vikur:

1-12:Norðan eða NV,andvari,kul eða gola,rigning,súld,þokuloft,þurrt í veðri 6,7 og 12.,hiti +5 til +10 stig. Hlýnandi veður þ.12.

13-15:Breytilegar vindáttir,logn,andvari eða kul,þurrt í veðri 13 og 15,annars súld,hiti +6 til +16 stig.

16-19:Suðvestan gola,stinningsgola,kaldi,skúrir,rigning,hiti +9 til +17 stig.

20-24:Norðlægar vindáttir,kul eða gola,súld en þurrt þann 23.hiti +7 til +13 stig.

25-26:Breytilegar vindáttir,logn,andvari,kul,þurrt þ.25.en skúrir eða rigning þ.26.hiti +10 til +17 stig.

27-30:Suðvestan eða suðlægar vindáttir,kul,gola,eða stinningsgola,skúrir eða rigning,en þurrt 28 og 29.hiti +7 til +16 stig.

Mæligögn:

Úrkoman mældist 32,4 mm.  (í júní 2013:13,2 mm.)

Þurrir dagar voru 10.

Mestur hiti mældist dagana 17 og 25. 17,0 stig.

Minnstur hiti mældist þann 1. 4,2 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +9,1 stig.

Meðalhiti við jörð var 7,10 stig.  (í júní 2013:5,58 stig.)

Sjóveður:Mjög gott allan mánuðinn.

Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 1. júní 2014

Veðrið í Maí 2014.

Lambfé var sett óvenju snemma út í ár.
Lambfé var sett óvenju snemma út í ár.
1 af 3

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Fyrsta vika mánaðarins var vindur hægur með lítilli úrkomu,frosti í fyrstu en síðan hlýnandi veðri. Eftir það voru norðaustanáttir með frekar svölu veðri fram til þrettánda. Síðan var hægviðri með lítilli úrkomu og hlýrra veðri í bili. Eftir það skiptust á hafáttir eða suðlægar vindáttir,oftast hægar með talsverðum hitamismun.

Miklar hitasveiflur voru í mánuðinum,það má því segja að mánuðurinn hafi bæði verið kaldur og hlýr,en verður að teljast hlýr í heild sinni. Aðfaranótt þrettánda varð alhvítt í fjöllum og víða niður á láglendi. Úrkoman var með minna móti í mánuðinum. Bændur gátu sett lambfé út á tún óvenju snemma miðað við mörg undanfarin ár,vegna betra tíðarfars í maí í ár. Ræktuð tún voru farin að taka vel við sér snemma í maí,og úthagi orðin alsæmilegur í lok mánaðar.

Yfirlit dagar eða vikur:

1-7:Hafáttir eða breytilegar vindáttir,andvari,kul eða gola,þurrt í veðri fyrstu þrjá dagana,annars rigning eða súld,hiti frá -3 stigum til  +9 stig.

8-13:Norðaustan,stinningsgola en oftast kaldi,þurrt í veðri 9. og  10.,annars skúrir,slyddu eða snjóél,hiti 0 til 6 stig.

14-15:Norðan eða NV,kul eða gola,rigning,súld,hiti +3 til +6 stig.

16:Suðvestan,gola eða stinningsgola,þurrt í veðri,hiti +6 til +11 stig.

17-19:Norðan eða NV lægar vindáttir,kul,gola,stinningsgola,kaldi,rigningarvottur,en þurrt í veðri þ.19., hiti +2 til +7 stig.

20:Suðvestan,en N seinnihluta dags,kaldi síðan gola,skúrir,hiti +3 til +10 stig.

21:Norðan og NNA,stinningsgola síðan kul,skúrir síðan slydduél,hiti +3 til +6 stig.

22:Suðvestan kul,síðan kaldi,þurrt í veðri,hiti +0 til +10 stig.

23-30:Mest suðlægar vindáttir,andvari,kul,gola,stinningsgola,rigning,skúrir,þurrt þ.30.,hiti +5 til +14 stig.

31:Norðnorðvestan kul eða gola,rigning,hiti 6 til 7 stig.

Mæligögn:

Úrkoman mældist 24,9 mm. (í maí 2013:66,8 mm.)

Þurrir dagar voru 9.

Mestur hiti mældist þann 30: +14,0 stig.

Mest frost mældist aðfaranótt 1: -2,6 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +5,7 stig.

Meðalhiti við jörð var: +2,86 stig.  (í maí 2013: +1,16 stig.)

Alhvít jörð var í 0 dag.

Flekkótt jörð var í 0 dag: Athugasemd=aðfaranótt 13. var flekkótt jörð,en búið að taka upp á mælitíma kl 09:00.

Auð jörð var því í 31 dag.

Mesta snjódýpt:Mældist ekki.

Sjóveður: Gott eða sæmilegt.

Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 2. maí 2014

Veðrið í Apríl 2014.

Talsverður snjór er enn í fjöllum.Örkin 634m.
Talsverður snjór er enn í fjöllum.Örkin 634m.

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Mánuðurinn byrjaði á rólegu nótunum,með hægviðri og þoku eða þokulofti,en þokuloft var oft fyrstu átta daga mánaðar. Þann 10 var komin norðan með snjókomu eða éljum. Síðan hægviðri í tvo daga. Eftir það voru umhleypingar sem stóðu fram á páska. Loks þann 21. gerði hægviðri,breytilegar vindáttir og hlýnandi veðri,og var hlítt yfir daginn,og var þetta góða veður í fimm daga. Þann 26.,gerði ákveðna norðan og norðaustanátt með kólnandi veðri og var kalt í veðri það sem eftir lifði mánaðar. Þokuloft í fyrstu og síðan él,enn síðan þurru veðri. Úrkoman var í lægri kantinum í mánuðinum.

Tvívegis gerði suðvestan hvassviðri eða storm í mánuðinum,fyrst þann 15. Þá  náði vindur 60 hnútum eða 31 m/s í kviðum sem er ofsaveður. Aðfaranótt 18. og fram á miðjan dag var seinna hvassviðrið,þá náði vindur í kviðum 39 m/s sem er yfir fárviðrismörk. Engin tjón urðu í þessu veðri.

Yfirlit dagar eða vikur:

1-6:Norðvestan eða N.,og eða breytilegar vindáttir,andvari eða kul,þokuloft,súld,rigning,þurrt í veðri þ.3.,hiti -2 til +6 stig.

7:Austlæg eða suðlæg vindátt,kul,stinningsgola,kaldi,rigning,síðan þokuloft og súld,hiti 3 til 7 stig.

8-9:Breytilegar vindáttir,andvarikul eða gola,þokuloft,súld,rigning,skúrir,en þurrt í veðri þ.9.,hiti 1 til 8 stig.

10-12:Norðan og síðan NA,stinningsgola,kaldi,snjókoma,eða él,hiti -4 til -+2 stig.

13:Suðlægar vindáttir eða breytilegar,andvari,kul,þurrt í veðri,hiti frá -2 til +3 stig.

14:Suðsuðvestan og síðan SA eða S,stinningsgola,kaldi,slydduél,rigning,hiti -1 til +7 stig.

15:Suðvestan hvassviðri með rok kviðum fyrri hluta dags,síðan allhvasst eða kaldi,él,hiti +1 til +8 stig.

16:Suðvestan kul eða gola,síðan N kaldi,él,hiti -2 til +3 stig.

17:Suðaustan gola eða stinningsgola fyrri hluta dags,en S hvassviðri um kvöldið,snjókoma,rigning,hiti frá -3 til +6 stig.

18:Suðvestan stormur fram á dag með kviðum yfir fárviðrismörk í éljum. Mjög dimm él hiti +4 niður í -1 stig.

19-20: Áframhaldandi SV. áttir,kaldi,stinningskaldi,dimm él,hiti frá -2 til +3 stig.

21-25:Breytilegar vindáttir,andvari,þurrt í veðri 21,22,23,og 24. Talsverð rigning þann 25. Hiti frá -2 til +13 stig.

26-30: Norðan eða NA,gola,stinningsgola,kaldi,súld,él,þurrt í veðri 28,29 og 30. Hiti frá +6 niður í -0 stig.

Mæligögn:

Úrkoman mældist  41,2 mm. (í apríl 2013: 48,2 mm.)

Þurrir dagar voru 10.

Mestur hiti mældist þann 24: +13,3 stig.

Mest frost mældist þann 11: -3,7 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +2,2 stig.

Meðalhiti við jörð var -0,23 stig.  (í apríl 2013: -2,43 stig.)

Alhvít jörð var í 6 daga.                                 

Flekkótt jörð var í 12 daga.

Auð jörð var því í 12 daga.

Mesta snjódýpt mældist þann 19: 10 cm.

Sjóveður: Sæmilegt eða gott. En slæmt dagana 7,11,12,og 18.

Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 1. apríl 2014

Veðrið í Mars 2014.

Snjóflóð féll á veginn í Urðunum þann 10-03-2014. Það var mælt og gefið upp á snjóflóðadeild Veðurstofunnar.
Snjóflóð féll á veginn í Urðunum þann 10-03-2014. Það var mælt og gefið upp á snjóflóðadeild Veðurstofunnar.

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Mánuðurinn var mjög umhleypingasamur í heild. Fyrstu fjóra dagana voru norðaustanáttir með talsverðri snjókomu þann 2. Síðan voru suðlægar vindáttir í þrjá daga. En gekk í norðaustan og norðan 8.og 9.,með snjókomu. Frá tíunda til þrettánda voru mest suðlægar vindáttir,eftir það voru NA eða A- lægar vindáttir,en SV eða V þann 16. Þá gerði norðaustan með hvassviðri eða stormi nítjánda til tuttugusta og fyrsta og talsverðri snjókomu. Þann 24 voru komnar suðlægar vindáttir með hlýindum og talsverðri rigningu fram til 27. Síðustu daga mánaðar var hægviðri með hita yfir daginn en frosti á nóttinni og þurru og fallegu veðri.

Vindur náði 72 hnútum eða 37 m/s eða fárviðri í kviðum.,kl.:21:00 í SSV átt þann 10. Einnig þann 11.kl:06:00 náði vindur að fara í kviðum í 98 hnúta eða 51 m/s í SSV átt,langt yfir fárviðrismörk. Óverulegt tjón varð í þessu veðri í Árneshreppi á Ströndum.

 

Yfirlit dagar eða vikur:

1-4:Norðaustan,síðan A,allhvasst,fyrstu tvo dagana,síðan kaldi,stinningsgola eða gola,slydda,snjókoma,súld,hiti frá -3 stigum upp í +3 stig.

5-7:Sunnan eða SV,gola,kaldi,allhvasst,þurrt í veðri 5. og 6.,él um kvöldið þ.7.,hiti -3 til +3 stig.

8-9:Breytileg vindátt í fyrstu með kuli,en gekk síðan í NA og eða N allhvassan vind með snjókomu,hiti frá +3 stigum niðri -2 stig.

10-11:Sunnan,stinningsgola eða kaldi í fyrstu síðan SV stormur,rok og fárviðri í kviðum,snjókoma,slydda,él,hiti frá -3 til +8 stig.

12:Suðvestan kul í fyrstu,síðan NV eða N,andvari eða gola,snjókoma,rigning,hiti 0 til 5 stig.

13:Suðvestan,stinningsgola,kaldi,lítilsáttar él,hiti -1 til +1 stig.

14:Norðaustan,stinningsgola eða kaldi,él,hiti frá -1 til 2 stig.

15:Austan gola,stinningsgola fyrstu með snjókomu,síðan SV allhvass,hiti frá -2 og upp í +6 stig.

16:Suðvestan eða V,allhvass,stinningskaldi,kul,él,hiti +1 til -4 stig.

17-18:Norðaustan og A,kaldi,stinningsgola,gola,él,hiti -1 til -10 stig.

19-22:Norðaustan gola,stinningsgola í fyrstu síðan hvassviðri,stormur en stinningskaldi þ.22,él,snjókoma,hiti -2 til +2stig.

23:Vestlæg vindátt í fyrstu síðan austlæg,gola,stinningsgola,snjókoma um kvöldið,hiti -1 til -4 stig.

24:Suðaustan stinningsgola,rigning,hiti frá +2 stigum upp í +5 stig.

25:Suðvestan stinningsgola,allhvasst,slydduél,hiti +2 til +5 stig.

26:Suðaustan stinningsgola eða kaldi,síðan SV,gola,snjókoma,slydda,rigning,hiti +0 til +10 stig.

27:Sunnan eða SV,stinningsgola,kaldi,þurrt í veðri,hiti +2 til 6 stig.

28-31:Breytilegar vindáttir,gola,logn,andvari,kul,þurrt í veðri,hiti frá -2 stigum upp í +5 stig.


Mæligögn:

Úrkoman mældist 95,7 mm. (í mars 2013: 24,3 mm.)

Þurrir dagar voru 7.

Mestur hiti mældist þann 26: +9,5 stig.

Mest frost mældist þann 18: -9,6 stig.

Meðalhiti mánaðarins var +0,8 stig.

Meðalhiti við jörð var -1,98 stig. (í mars 2013: -3,3 stig.)

Alhvít jörð var í 15 daga.

Flekkótt jörð var í 16 daga.

Auð jörð var því í 0 dag.

Mesta snjódýpt mældist þann 22.= 21 cm.

Sjóveður:Mjög rysjótt fyrri hluta mánaðar,en sæmilegt eftir 23.,og mjög gott og fallegt sjóveður síðustu daga mánaðarins.

Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 11. mars 2014

Ofsaveður og fárviðri í gær.

Skrifstofudyrnar fóru af í heilu lagi og rúðan brotnaði.
Skrifstofudyrnar fóru af í heilu lagi og rúðan brotnaði.
1 af 2

Það er óhætt að segja að ofsaveður og eða fárviðri hafi verið í gær,frá því í gærkvöld og fram á morgun. Samkvæmt mælum veðurstöðvarinnar í Litlu-Ávík var veðrið orðið klukkan 21:00 í gærkvöldi 23 m/s í jafnavind og kviður í 37 m/s í suðsuðvestan vindi,þetta er vindur yfir gömul tólf vindstig og telst fárviðri. Í morgun klukkan 06:00 var vindurinn á stöðinni Litlu-Ávík SSV 30 m/s í jafnavind og fór upp í 51 m/s í kviðum,sem er fárviðri,loks um sjöleitið fór að draga hratt úr vindstyrk. Sem betur fer hefur ekki frest af neinu stórtjóni en sem komið er,en hurð fauk af á gistiheimilinu Bergistanga þar sem Gunnsteinn Gíslason er með skrifstofuaðstöðu í sama húsi og gistiheimilið er í gamla frystihúsinu. Einnig fauk grindverk af verönd (sólpalli) hjá Þórólfi Guðfinnssyni við hús hans í botni Norðurfjarðar. Eitthvað hefur frest um annað lauslegt sem hefur færst úr stað. Menn eru sammála um að þetta sé eitt mesta suðvestan hvassviðri sem hefur komið lengi hér í Árneshreppi.

Atburðir

« 2025 »
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Úr myndasafni

  • Borgarísjaki Vestur af Sæluskeri. 27-08-2018.
  • Mikið til búið að klæða þak.12-11-08.
  • Snjókerling við Bæ í Trékyllisvík.09-04-2009.
  • Stór borgarísjaki ca 8 km A af Gjögurflugvelli 19-09-2004.
  • Gunnsteinn og Hilmar.
Vefumsjón