Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 23. október 2009

Svínaflensusprauta og ófærð.

Læknisbíllinn fastur á Kjörvogshlíðinni.
Læknisbíllinn fastur á Kjörvogshlíðinni.
1 af 3
Læknirinn á Hólmavík kom norður í dag til að sprauta þá fyrstu sem fá svínaflensusprautu eða núna í þessari ferð tíu manns sem eru í forgangi.

Lækninum og bílstjóra hans gekk ferðin hálf brösuglega norður vegna ófærðar,sátu fastir á Kjörvogshlíðinni og bíll fór að norðan til að draga læknisbílinn upp.

Eins og fram hefur komið hér á vefnum fyrr í dag sýndi Vegagerðarvefurinn að aðeins væri þæfingur norður og greiðfært innansveitar,en nú er loksins búið að breyta því og nú er sagt þungfært norður og krapi og snjór innansveitar Norðurfjörður-Gjögur sem er alveg rétt.

Vegurinn er eingöngu fær stórum jeppum.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 23. október 2009

Snjór niðri sjó og þæfingur norður í Árneshrepp.

Kort Vegagerðar.
Kort Vegagerðar.
1 af 2
Nú er Norðan allhvass vindur og það snjóaði niðri byggð í nótt og morgun.
Eini staðurinn á landinu sem gefin er upp snjódýpt í morgun samkvæmt vef Veðurstofu Íslands er á veðurstöðinni í Litlu-Ávík einn cm.
Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er þæfingsfærð norður Strandir í Árneshrepp og gæti lokast í kvöld.
Spáð er N eða NA stinningskalda eða allhvössum vind með snjókomu í fyrstu en síðan éljum um helgina með hita frá 0 til 2 stigum.
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 22. október 2009

Snjómokstur í Árneshreppi ræddur á Alþingi.

Frá snjómokstri í vor.
Frá snjómokstri í vor.

MBL.ÍS
Samgönguráðherra gat ekki á Alþingi lofað því, að snjó verði mokað reglulega af vegum í Árneshreppi í vetur en sagði að þau mál verði skoðuð á næstu vikum. Vandamálið í Árneshreppi væri vegurinn þangað og erfitt sé að halda honum opnum ef eitthvað snjóar þar.

Icesave-samkomulagið hefur svifið yfir vötnunum á Alþingi í dag en í fyrirspurnartíma í morgun sagðist Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, vilja fara á næsta bæ við, snjómokstur í Árneshreppi.

Sagði Ásmundur Einar, að íbúar í þeim hreppi ættu rétt á því að komast leiðar sinnar eins og aðrir. Undanfarin ár hefði vegurinn verið mokaður tvisvar í viku að jafnaði fyrir áramót en eftir áramót hefði verið mokað eftir  geðþóttaákvörðunum og hópefli íbúanna, sem hefðu náð því fram að mokað væri kannski einu sinni í mánuði.  

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, sagði að skoða þyrfti allar snjómokstursreglur út af niðurskurði líkt og ferjusiglingar, flug, rútuáætlanir og rekstur Vegagerðar. „En ég vil taka skýrt fram að ég  hugsa alltaf vel til Árneshrepps, þessa minnsta sveitarfélags landsins," sagði Kristján.
Þetta er af vef www.mbl.is

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 22. október 2009

200 t netabátur vélarvana við Gjögur.

Gjögurviti.
Gjögurviti.
Björgunarsveitin Strönd á Skagaströnd var kölluð út um tvöleytið í dag vegna 200 t netabáts sem er vélarvana um 18 sjómílur vestan Skagastrandar, eða rétt við Gjögur á Ströndum. Er báturinn með veiðarfæri í skrúfunni. Um 6-8 manns eru um borð.  Björgunarskipið Húnabjörg er rétt að koma að hinum vélarvana báti en ekki er talin vera mikil hætta á ferðum. Veður á svæðinu er þó ekki gott, 12-15 m/sek af NNA,eða kaldaskítur sé vitnað í orð heimamanna.
Húnabjörgin mun væntalega draga netabátinn til hafnar á Skagaströnd. Búist er við að verkið taki um fjórar klukkustundir.
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 22. október 2009

Uppfærður staðalisti háhraðanetsverkefnisins til 20. október 2009.

Fjarskiptastöðin í Árneshreppi.
Fjarskiptastöðin í Árneshreppi.

Fjarskiptasjóður hefur nú uppfært staðarlista vegna háhraðanetsverkefnisins.
Á vef þeyrra segir að staðir geta fallið út eða komið inn í verkefnið á samningstímanum.

Leiðréttingar hafa verið gerðar þar sem að mistök við afmörkun markaðssvæða fyrir undirritun samnings voru leiðrétt.

Staðir sem bættust við verkefnið stuttu fyrir undirritun samnings voru sumir óyfirfarnir og þá hefur þurft að yfirfara og í sumum tilfellum að leiðrétta skráningu. Staðir hafa hreinlega gleymst og þ.a.l. verið bætt á listann eða þeir ekki uppfyllt skilyrði um búsetu og því verið teknir af listanum. Breyting á búsetu á samningstímanum kallar á stöðuga endurskoðun listans. Farið verður sérstaklega yfir staðalista hvers verkáfanga áður en uppbygging hans hefst. Fjarskiptasjóður áskilur sér rétt til breytinga á staðalista eftir þörfum.

 Staðarlisti ásamt breytingum verður uppfærður reglulega á vef fjarskiptasjóðs.
Listann má sjá hér.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 22. október 2009

Byggjum réttlátt Þjóðfélag.

Byggjum réttlátt þjóðfélag er yfirskrift ársfundar ASÍ.
Byggjum réttlátt þjóðfélag er yfirskrift ársfundar ASÍ.
Fréttatilkynning.
Ársfundur ASÍ 2009 er haldinn á Hilton hótelinu við Suðurlandsbraut í dag 22. og á morgun 23. október.  Yfirskrift fundarins verður Byggjum réttlátt þjóðfélag þar sem áherslan verður á hag heimilanna, efnahags- og kjaramál og atvinnumál og samfélagslega ábyrgð.  Verkalýðsfélag Vestfirðinga á rétt á 6 ársfundarfulltrúum þetta árið, en Finnbogi Sveinbjörnsson, Ólafur Baldursson, Gunnhildur Elíasdóttir, Halldór Gunnarsson, Finnur Magnússon og Erna Sigurðardóttir voru kosnir sem fulltrúar félagsins.  Allar upplýsingar varðandi umræðuskjöl fundarins má nálgast hér.
Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 21. október 2009

Nýr lögreglubíll á Vestfirði.

Nýr og öflugur lögreglubíll kemur á Vestfirði.Mynd lögregluvefurinn.
Nýr og öflugur lögreglubíll kemur á Vestfirði.Mynd lögregluvefurinn.

Bílamiðstöð ríkislögreglustjóra hefur afhent lögreglunni á Akureyri nýjan lögreglubíl af gerðinni Hyundai Santa Fe.  Kemur hann í stað Toyota Landcruiser sem bílamiðstöðin flytur á Ísafjörð til að leysa af hólmi sjö ára gamlan lögreglubíl sem nú fær nýtt hlutverk á Hvolsvelli.  Þaðan flytur bílamiðstöðin eldri lögreglubíl sem verður yfirfarinn og hafður til taks í sérstök verkefni í vetur.  Þá er verið að standsetja tvo nýja lögreglubíla sem fara á Blönduós og hinn á Suðurnes.

 

Það sem af er ári hefur bílamiðstöðin því afhent lögregluembættunum átta nýja lögreglubíla sem allir eru búnir vönduðum tækjum og búnaði í þágu löggæslunnar.  Lögreglan á Vestfjörðum fær nú öflugan bíl í umdæmið sem getur verið erfitt yfirferðar.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 20. október 2009

Málþing á Hólmavík, 23. október.

Málþing á  Hólmavík næstkomandi föstudag.
Málþing á Hólmavík næstkomandi föstudag.
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga samþykkti á fundi sínum þann 17. september 2009, að boða til málþings um ákveðin málefni sveitarfélaga, þ.e. breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og um lýðræðismál í sveitarfélögum.  Tækifærið verður einnig nýtt til umræðu um stöðu sveitarfélaga á Vestfjörðum. 

Málþingið er ætlað kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum á Vestfjörðum, framkvæmdastjórum sveitarfélaga og gestum.  Það verður haldið í Félagsheimilinu á Hólmavík, föstudaginn 23 október og hefst kl 13.00.  Einnig verður boðið upp á léttan hádegisverð á fundarstað og hefst hádegisverður kl 12.00.  Dagskrá málþingsins og kynningarefni má finna hér. 
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 19. október 2009

Myndir frá ferð eldri borgara í Strandasýslu á Vestfirði í sumar.

Þorsteinn J Tómasson sendi vefnum nokkrar myndir frá ferð eldri borgara úr Strandasýslu sem farin var í júní í sumar til Vestfjarða,Ísafjörð og Bolungarvíkur og í siglingu í Jökulfirði og fleiri staði.
Myndirnar eru teknar í Edinborgarhúsinu, á bryggjunni við báta Sjóferða Hafsteins og Kiddýjar og í harðfiskverkun Finnboga Jónassonar.´
Frétt sem sagði frá ferðinni í sumar hér á vefnum má sjá hér.
Engin texti er með myndunum því vefurinn hefur ekki nöfnin á öllu fólkinu en myndirnar eru alltaf skemmtilegar og fólk verður að þekkja sitt fólk.
Vefurinn Litlihjalli vill þakka Þorsteini J kærlega fyrir.

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 19. október 2009

Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 12 október til 19 október 2009.

Gimbur í fundarsal bæjarstjórnar Vesturbyggðar á Patreksfirði var handsömuð í vikunni.
Gimbur í fundarsal bæjarstjórnar Vesturbyggðar á Patreksfirði var handsömuð í vikunni.

Í s.l. viku voru 6 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Ísafirði og nágreni Ísafjarðar og sá sem hraðast ók, var mældur á 112 km/klst., þar sem leyfður ökuhraði er 90 km/klst.

Tvö minniháttar umferðaróhöpp urðu í umdæminu, ekið var á kyrrstæða bifreið Þann  15 okt,  á bifreiðastæði við stjórnsýsluhúsið/lögreglustöðina á Ísafirði, ekki vitað um tjónvald.  Þá varð minniháttar útafakstur þann 16 okt,við Stórholt, ekki slys á fólki.

Þó nokkuð margir ökumenn voru áminntir vegna ljósabúnaðar ökutækja sinna í vikunni og vill lögregla koma því á framfæri við ökumenn að huga að ljósabúnaði ökutækja sinna.

Ein líkamsárás  var kærð til lögreglu í vikunni.

laugardaginn 17 okt kom vegfarandi á lögreglustöðina á Ísafirði með Border Collie hund, sem hann fann uppi á Holtavörðuheiði, blautan og hrakinn.  Umræddur hundur var ekki með nein merki, þannig að ekki er vitað um eiganda og lýsir lögregla hér með eftir honum. Eigandi eða einhver sem gæti gefið upplýsingar vegna þessa vinsamlegast hafið samband við lögregluna á Vestfjörðum í síma 450-3730

Þriðjudaginn 13 okt gerist sá atburður að einhver aðili setti ómarkaða  lambgimbur inn í fundarsal bæjarstjórnar Vesturbyggðar á Patreksfirði.  Ekki er vitað hver þar var að verki, eða hver tilgangur var með athæfi þessu.  Greiðlega gekk að handsama lambið og voru  gerðar viðeigandi ráðstafanir vegna lambsins, þegar um ómarkað fé er að ræða.

Atburðir

« 2024 »
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Úr myndasafni

  • Frá brunanum.
  • Smiðir  vinna að undirbúngi á þaki 11-11-08.
  • Sælusker (Selsker)18-04-2008.
Vefumsjón