Árshátíð Félags Árneshreppsbúa.
Húsið opnar kl 19.00 með fordrykk.Borðhald hefst stundvíslega kl 19.30.
Forsala miða verður laugardaginn 28 febrúar milli kl 14.00 og 16.00 í Kiwanissalnum Engjateigi 11.
Miðaverð í mat og á dansleik kr 6000,-
Miðaverð einungis á dansleik kr 2.000,-
Matseðill.
Aðalréttur:Stórsteikarhlaðborð,lambakjöt,svínakjöt og kalkúnn með öllu tilheyrandi.
Eftirréttur:Bláberjaskyrterta með rjóma ásamt kaffi.
Veislustjóri.
Gísli Gunnsteinsson,sem sló svo rækilega í gegn á Kaffi Norðurfirði í sumar.
Skemmtiatriði.
Björgvin Franz Gíslason.
Hljómsveitin Hafrót leikur fyrir dansi að borðhaldi loknu.
Allar nánari upplýsingar hjá Sigríði Höllu í síma:5554997 og 8643785 og hjá Hrönn í síma 8994124,og eins hjá formanni Kristmundi í síma 5650709 og 8982441.
Gott fólk takið með ykkur gesti og skemmtum okkur saman á frábærri árshátíð félagsins.
Fjarskiptasjóður og Síminn undirrita samning um háhraðanet.
Fréttatilkynning.
Fjarskiptasjóður og Síminn undirrituðu í dag samning um uppbyggingu háhraðanets um allt land. Með samningum er öllum landsmönnum tryggt háhraðanet fyrir árslok 2010. Um er að ræða tæplega 1800 heimili og verða þau fyrstu tengd innan mánaðar.
Samningurinn er til fimm ára og tekur gildi 1. mars 2009. Samningsfjárhæðin er 606 milljónir króna og í samningnum felst að Fjarskiptasjóður veitir Símanum fjárstyrk til uppbyggingar á háhraðanetkerfi og háhraðanetþjónustu sem nær til staða sem ekki hafa aðgang að slíkri þjónustu. Þjónustan mun ná til heimila þar sem einn eða fleiri einstaklingar eru með lögheimili og hafa þar jafnframt heilsársbúsetu og einnig til húsnæðis þar sem lögaðili er með atvinnustarfsemi allt árið.
Meira
Katla Kjartansdóttir í forval hjá VG.
Fréttatilkynning:
Katla Kjartansdóttir verkefnastjóri við Háskóla Íslands hefur ákveðið að sækjast eftir 3.-6. sæti í forvali VG í Norðvesturkjördæmi vegna alþingiskosninga 2009. Katla er með BA próf í íslensku og þjóðfræði frá Háskóla Íslands og mastersgráðu í þjóðernisfræðum frá Háskólanum í Edinborg.
Hún er stofnfélagi í svæðisfélagi VG á Ströndum þar sem hún er nú búsett ásamt manni sínum og 2 börnum. Katla er 33 ára.
"Ég gef kost á mér vegna þess að ég vil taka þátt í að móta samfélag sem ég get verið stolt af og ánægð með að tilheyra. Það samfélag sem ég vil sjá rísa hér upp úr þeirri öskustó sem við okkur blasir nú, er samfélag sem leggur áherslu á jöfnuð, samfélag sem stendur vörð um náttúruna og samfélag sem telur skapandi hugsun til verðmæta.
Þar fyrir utan finnst mér líka mikilvægt að ungt fólk, og þá sérstaklega ungar konur, komi að því mótunarstarfi sem framundan er. Vissulega hafa margar góðar konur styrkt íslenskt stjórnmálalíf og nefni ég sérstaklega þær Katrínu Jakobsdóttur núverandi menntamálaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur úr röðum Vinstri Grænna. Ég fer þó ekki ofan af því að hlut kvenna þarf að efla enn frekar. Fyrir unga fólkið sem nú er að alast upp eru fyrirmyndir af þessu tagi mjög mikilvægar svo auka megi þá trú að allir hafi hér jafnan rétt til áhrifa burtséð frá kyni, stétt eða stöðu.
Þar sem ég flutti nýverið hingað á Strandir er staða landsbyggðarinnar mér einnig ofarlega í huga. Ég tel mikinn hag í því að hugsað sé um landið sem heild í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Búseta á landsbyggðinnni hefur nú þegar marga góða kosti en betur má ef duga skal. Til þess að blómlegar byggðir geti þrifist er ljóst að efla þarf til muna bæði vega- og fjarskiptakerfi landsins - ekki hvað síst hér á á norðvesturhorninu. Einnig þarf að skapa forsendur fyrir fjölbreytt menningar- og atvinnulíf, efla þarf heilbrigðisþjónustuna og nauðsynlegt er að allir landsmenn hafi kost á góðri menntun - burtséð frá því hvar þeir hafi kosið að búa sér heimili."
Engin fjarskiptastöð fyrir Árneshrepp hjá Vodafone.
Nú hefur Hrannar Pétursson forstöðumaður almennatengsla Maraðssviðs Vodafone svarað með eftirfarndi:
Eins og kemur fram á vefsíðunni okkar ( sjá http://www.vodafone.is/vodafone/frettir/vestfirdir ) hefur mikil uppbygging átt sér stað á Vestfjörðum. Sú uppbygging hefur ýmist verið á markaðslegum forsendum eða unnin í samstarfi við Fjarskiptasjóð. Til að tryggja betra GSM samband á þínum slóðum væri hægt að koma upp sendum á fjarskiptastað við Reykjaneshyrnu (sem er í landi Litlu-Ávíkur ef ég man rétt) eða með því að nota verslunarhúsnæðið í Norðurfirði. Hitt verður þó að segjast, að ekki eru markaðslegar forsendur fyrir slíkri uppsetningu og því afar ólíklegt að af henni verði - nema þá með aðkomu sveitarfélagsins, Fjarskiptasjóðs og/eða annarra hagsmunaaðilar.
Vefurinn kann Hrannari kærar þakkir fyrir.
Matthías S Lýðsson gefur kost á sér hjá VG í Norðvesturkjördæmi.
Fréttatilkynning.
Ég undirritaður, Matthías Sævar Lýðsson, bóndi í Húsavík í Strandabyggð gef kost á mér í 3.-6. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi.
Ég vil leggja áherslu á að bæta grunngerð samfélagsins, s.s.
samgönguþjónustu, fjarskipti, menntun og heilsugæslu. Ég vil ekki að
fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu sé skattstofn.
Ég vil standa vörð um réttarríkið, þar sem karlar og konur eru jöfn, bæði að
lögum og í reynd. Það má efast um að það sé réttarríki, þar sem lítill hópur
manna getur sett heila þjóð í skuldafangelsi. Öllum lögmætum aðferðum verður
því að beita, til að endurheimta þau efnislegu verðmæti sem voru höfð af
almenningi síðustu árin í samfélagi þar sem gróðahyggja og græðgi fékk að
vaxa og dafna óátalið af stjórnvöldum.
Ég vil varðveita og efla innri samfélagsgæði. Þar á ég m.a. við:
a.. Menntun og jafnt aðgengi að henni óháð búsetu og efnahag. Gæði
menntunar í því sköpunarstarfi sem nú er unnið í vaxandi háskólum og setrum
víða um land verði tryggð með samstarfssamningum milli skóla.
b.. Íþrótta- og félagstarf hjá ungum og öldnum.
c.. Standa vörð um tónlistarskólana og styðja við leiklistarstarf, ekki
síst hjá áhugaleikhópum.
Ég vil búa bændum þá framtíðarsýn að:
a.. Þeir fái sanngjarnt verð fyrir vinnu sína og geti búið börnum sínum
sömu lífsgæði og aðrir þegnar.
b.. Eignarréttur þeirra verði virtur og framkvæmd þjóðlendulagana sé með
þeim hætti að stjórnvöld hætti að svívirða eignarréttarákvæði
stjórnarskrárinnar.
c.. Stuðningur við þá þróttmiklu nýsköpun sem er í sveitum verði efldur,
ekki síst með ráðgjöf og leiðbeiningum.
Ég vil koma böndum á þann óskapnað sem veðsetning og verslun með kvóta hefur
vakið upp. Það verður að gera án þess að kippa fótunum undan þeim útgerðum
og fiskvinnslum sem skapa verðmæti og halda uppi atvinnu, stundum að því er
virðist af hugsjón frekar en gróðavon. Þetta er erfitt verk en verður að
takast.
Ég vil að náttúrugæði og auðlindir séu nýtt með þeim hætti að ekki verði
gengið á möguleika afkomenda okkar til að nýta og njóta þeirra sömu gæða.
Lögfest verði að við alla lagasetningu og meiriháttar framkvæmdir á vegum
ríkis og sveitarfélaga, verði metin að jöfnu áhrif á efnahag, samfélag og
náttúru.
Ég vil þetta og ... ég vil ótalmargt fleira. En fyrst og fremst vil ég búa í
samfélagi skapandi hugsunar, heiðarleika, jöfnuðar, náttúruverndar, samvinnu
og lífsgleði.
Ég er 51 árs, bóndi í Húsavík á Ströndum og hef unnið ýmislegt samhliða
búskap s.s. sem svæðisleiðsögumaður, lögreglumaður, félagsmálakennari,
starfsmaður sláturhúss og fleira. Er og hef verið virkur í félags- og
atvinnumálum og hef setið m.a. í stjórn UMFÍ, er einn stofnenda og
stjórnarmanna Galdrasýningarinnar og Sauðfjárseturs á Ströndum. Einnig í
stjórnum Kaupfélags Steingrímsfjarðar og Hólmadrangs (rækjuvinnslu). Ég er
kvæntur Hafdísi Sturlaugsdóttur bónda og náttúrufræðing og eigum þrjú börn.
Húsavík 24. febrúar, á Matthíasarmessu.
Matthías Sævar Lýðsson
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi 21. mars.
Eftirfarandi yfirlýsing hefur borist frá formanni kjörnefndar í Norðvesturkjördæmi:
„Prófkjör til framboðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi vegna komandi Alþingiskosninga fer fram laugardaginn 21. mars 2009. Rétt til þátttöku í prófkjörinu eiga allir þeir sem gerst hafa flokksbundnir sjálfstæðismenn fyrir 21. febrúar 2009 og eru auk þess fullgildir meðlimir Sjálfstæðisfélaganna í kjördæminu, þar búsettir og hafa náð 16 ára aldri á prófkjörsdag. Framboðsfrestur til þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi rennur út á morgun miðvikudaginn 25. febrúar.
Frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi þarf að vera flokksbundinn meðlimur Sjálfstæðisflokksins, með lögheimili í Norðvesturkjördæmi og vera kjörgengur í Alþingiskosningunum næst komandi. Allar frekar upplýsingar s.s.um framboðseyðublað og reglur flokksins, má nálgast á heimasíðu Sjálfstæðisfokksins í Norðvesturkjördæmi: www.nordvesturland.is. Frambjóðendum og öðrum áhugasömu er bent á að hafa að hafa samband við starfsmann Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í gegnum tölvupóst með því að senda á netfangið: fannar@xd.is eða með því að hringja í síma: 437-1460. Öllum framboðum skal skila í pósti til Fannars Hjálmarssonar starfsmanns Kjördæmisráðs á eftirfarandi heimilisfang: Arnarklett 30, 310 Borgarnesi. Póststimpill gildir ef framboð berast eftir 25. febrúar.
Fyrir hönd kjörnefndar,
Jóhann Kjartansson, formaður."
Framsóknarmenn í Norðvesturkjördæmi velja póstkostningu.
Munu atkvæðaseðlar verða sendir út þann 3. mars nk. en talning fara fram föstudaginn 13. mars. Skipan í önnur sæti á listann verður ákveðin á kjördæmisþingi sem boðað verður til í framhaldinu.
Ekkert flogið fyrr enn á fimmtudag.
Viðar Guðmundsson býður sig fram fyrir VG.
Viðar Guðmundsson tónlistarmaður og bóndi í Miðhúsum í Kollafirði á Ströndum gefur kost á sér í 3.-6. sæti í forvali Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar nú í vor. Í fréttatilkynningu kemur fram að Viðar leggur áherslu á jöfnuð í samfélaginu, byggðamál, menntamál og að standa vörð um frumgreinarnar í atvinnulífinu. "Heimilin í landinu, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og fleiri grunnstoðir í samfélaginu standa mjög höllum fæti um þessar mundir. Nú þarf að standa vörð um hin raunverulegu verðmæti þjóðarinnar. Við þurfum að berjast gegn atvinnuleysi, minnka stórlega bilið á milli þeirra sem minnst hafa og þeirra sem mest hafa. Tími óhófs í launakjörum verður að taka enda.
Bæta þarf samkeppnisstöðu fyrirtækja og einstaklinga á landsbyggðinni með því að tryggja lágmarksþjónustu, s.s. mannsæmandi vegi og háhraðatengingu Internets. Vegakerfið er lélegt og netsambandið enn verra og það er til skammar að ekki skuli hafa verið meira gert í þessum málaflokkum á síðustu árum. Það er yfirvofandi mikill niðurskurður hjá ríkinu á næstu árum sem og sveitarfélögum. Ég hef miklar áhyggjur af því ef það á að fara að sneiða mikið af skólakerfinu. Við verðum að reyna að halda úti öflugu skólakerfi þó að þrengi að. Það er fjárfesting til framtíðar sem mun ávaxta sig vel.
Hinsvegar tel ég að víða í ríkisrekstrinum megi spara umtalsvert án þess að það valdi mikilli þjónustuskerðingu. Sem dæmi nefni ég sendiráð okkar sem við eigum og rekum víða um heim. Mín skoðun er sú að við eigum að vera með sameiginleg sendiráð með annarri Norðurlandaþjóð, t.d. Noregi. Þjónustan ætti ekki að þurfa að skerðast, en sparnaðurinn gæti verið umtalsverður.
Byrjum ekki á námsmönnum, sjúklingum og eldri borgurum þegar á að fara að spara.''
Viðar Guðmundsson er 27 ára gamall og starfar sem tónlistarkennari og organisti á Hólmavík, auk þess sem hann er bóndi í Miðhúsum. Viðar er einnig stjórnandi Karlakórsins Söngbræðra í Borgarfirði. Kona Viðars er Barbara Ósk Guðbjartsdóttir bóndi og leiðbeinandi og eiga þau 3 börn.





