Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 17. mars 2009

Skýrsla vinnuhóps um mat á þörf á fyrir þrífösun í dreifikerfum Rarik og Orkubús Vestfjarða.

Orkubú Vestjarða á Hólmavík.mynd strandir.is
Orkubú Vestjarða á Hólmavík.mynd strandir.is

Vinnuhópur sem skipuð var af iðnaðarráðherra til að meta þörf á tengingu við þriggja fasa rafmagn á landsbyggðinni hefur skilað af sér skýrslu um málið.

Í vinnuhópnum áttu sæti þau Helga Barðadóttir, iðnaðarráðuneyti, formaður, Halldór V. Magnússon, Orkubúi Vestfjarða og Pétur Þórðarson, Rarik. Með vinnuhópnum starfaði Kjartan Rolf Árnason, Rarik.

Niðurstöður skýrslunnar eru þær helstar að enn vantar töluvert upp á að fullnægt sé þörfum um aðgang að þriggja fasa rafmagni og ljóst að miðað við sama hraða endurnýjunar mun það taka allt að 20 ár að koma á þriggja fasa rafmagni um allt land. Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að þegar rætt er um uppbyggingu á þriggja fasa dreifikerfi að sú uppbygging helst í hendur við almenna endurnýjun og uppbyggingu á dreifikerfinu og er sjaldnast um sérstakar aðgerðir að ræða sem einvörðungu snúa að því að tengja þriggja fasa rafmagn.

Nefndin telur að efni skýrslunnar geti nýst orkufyrirtækjunum við forgangsröðun sinna verkefna hvað varðar endurnýjun í dreifikerfinu. Ljóst má vera að verði fyrirtækjunum gert að hraða endurnýjun án þess að leggja þeim til sérstaka fjármuni til verksins mun það óhjákvæmilega leiða til hækkunar á raforkuverði þeirra.

Skýrsluna má lesa hér Skýrslan

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 15. mars 2009

Úrslit í forvali VG í Norðvesturkjördæmi.

Jón Bjarnason, þingmaður, sem skipaði hefur efsta sæti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi frá upphafi, sigraði með yfirburðum í nýafstöðnu forvali og fékk 254 atkvæði í fyrsta sætið. Atkvæði greiddu 375 en 524 voru á kjörskrá.

Í öðru sæti varð Lilja Rafney Magnúsdóttir á Suðureyri með 124 atkvæði í 1 - 2 sæti og í þriðja sæti Ásmundur Einar Daðason, Lambeyrum í Dölum, með 165 atkvæði í 1 - 3. Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, Reykholti hreppti 4 sætið, Telma Magnúsdóttir Blönduósi varð í því fimmta og í sjötta sæti Grímur Atlason í Búðardal. Prófkjörið var framkvæmt með póstkosningu og eru niðurstöður birtar með fyrirvara um samþykki kjördæmisráðs.

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 15. mars 2009

Gamlar talstöðvar.

Gömul CB talstöð.
Gömul CB talstöð.
Sigurður Harðarson aðstoðar nú við uppsetningu á fjarskiptatækjasafni í Samgöngusafninu á Skógum undir Eyjafjöllum. Safnið tengist þeim búnaði sem tilheyrir atvinnu og ferðalögum farartækja innanlands.

Í safninu eru nú þegar allflestar tegundir þeirra talstöðva sem í notkun hafa verið frá fyrstu tíð en þó vantar enn nokkur eintök til að ná heildarmyndinni. Þeir sem eiga slík tæki er bent á að hafa samband við Sigurð. Nánari upplýsingar frá honum er að finna í meðfylgjandi skjali.
Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 14. mars 2009

Synir tímans.

Frá Reykjarfirði.
Frá Reykjarfirði.
Vefnum áskotnaðist þessi vísa nú á dögunum,hún skýrir sig sjálf,og er birt hér öðrum til ánægju.
Tólf eru synir tímans                                                     
sem tifa fram hjá þér.
Janúar er á undan
með árið í faðmi sér.

 

Febrúar og fannir

þá læðist geislinn lágt.

Í mars þó blási oft biturt

þá birtir smátt og smátt.

 

Í apríl sumar aftur

þá ómar söngur nýr.

Í maí flytur fólkið

og fuglinn hreiður býr.

 

Í júní sest ei sólin

þá brosir blómafjöld.

Í júní er bagginn bundinn

og borðuð töðugjöld.

 

Í ágúst slá menn engin

og börnin týna ber.

Í september fer söngfugl

og sumardýrðin þver.

 

Í október fer skólinn

að bjóða börnum heim.

Í nóvember er náttlangt

í norðurljósageim.

 

Þó desember sé dimmur

þá dýrðleg á hann jól.

Á honum endar árið

og aftur hækkar sól.

 

   Höf. ókunnur.

Sótt úr kolli Guðfinns Jakobssonar

frá Reykjarfirði á Ströndum norður

haustið 1989.

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 14. mars 2009

Lokaniðurstaða í póstkosningu framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.

Talningu atkvæða er lokið í póstkosningu framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.
Atkvæði greiddu 1539, ógildir seðlar voru 34, gildir seðlar 1505.
 Lokastaðan er þannig í 5 efstu sætin:
1. Gunnar Bragi Sveinsson, 782 atkvæði í 1. sæti
2. Guðmundur Steingrímsson, 635 atkvæði í 1.-2. sæti
3. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, 897 atkvæði í 1.-3. sæti
4. Elín Líndal, 1.135 atkvæði í 1.-4. sæti
5. Halla Signý Kristjánsdóttir, 937 atkvæði í 1.-5. sæti
Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 13. mars 2009

Enn og aftur Rafmagnsleysi.

Orkubú Vestfjarða Hólmavík.Mynd strandir.is
Orkubú Vestfjarða Hólmavík.Mynd strandir.is
Rafmagn fór af línunni norður í Árneshrepp tuttugu mínútur fyrir sjö í morgun einnig Drangsneslínu þar var keyrð díselrafstöð og einnig sló út á Hólmavík í smátíma.

Að sögn Orkubúsmanna var bilunin við Hrófberg í Steingrímsfirði og var unnið að viðgerð strax í morgun og komst rafmagn á aftur nú kl 09:20.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 12. mars 2009

Slitið við Djúpavík.

Frá Djúpavík.Myndasafn.
Frá Djúpavík.Myndasafn.
Þegar orkubúsmenn voru á leið heim í nótt eftir rafmagnsviðgerðina á Krossnesi sáu þeyr að rafmagnslaust var í Djúpavík.

Þeyr gátu ekki gert við þá því það vantaði samsetningarefni og fleira.

Að sögn Þorsteins Sigfússonar svæðisstjóra Orkubúsins á Hólmavík fóru aðrir tveir norður í dag til að gera við bilunina,slitin var lína rétt innan við Djúpavík.

Rafmagn fór af hreppnum í smá tíma á meðan að línan var sett saman.

Mikil ísing hefur verið með köflum í dag.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 12. mars 2009

Rafmagn komið á Krossnes.

Krossnes fremst á nesinu.
Krossnes fremst á nesinu.
Í kvöld um kl 21 komu menn norður frá Orkubúini á Hólmavík á snjósleðum yfir Trékyllisheiði í dimmviðri og bullandi skafrenning þar uppi.

Farið var strax í að athuga með að koma rafmagni á Krossnes og var rafmagn komið á Krossnes nokkru uppúr miðnætti.

Skipt var um múffu sem er á milli spennis og kapals sem liggur niður staurinn og í jörð og inn í hús.

Það hefur gengið á með slydduéljum í kvöld á láglendi og NA allhvössum vindi.

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 11. mars 2009

Rafmagnsleysi og rafmagnlaust á Krossnesi.

Frá Krossnesi.Myndasafn.
Frá Krossnesi.Myndasafn.
Miklar truflanir hafa verið hér í Árneshreppi frá því snemma í morgun og í allan dag.

Rafmagn fór af öllum Árneshreppi frá því rúmlega fimm í morgun og til rúmlega átta að mestu leyti,þá komst rafmagn ekki á fyrir norðan Mela.Síðan fyrir hádegið komst rafmagn á Norðurfjarðarbæjina en ekki á Krossnesi og sjónvarpsendurvarpsstöðina enn komst á sundlaugahúsið og Fell.

Síðan í hádeginu fór rafmagn af Drangsneslínu og meðan að verið var að koma henni inn sló alltaf út hér í hreppnum í um tvo tíma.Á þeyrri línu var ísing og sjávarselta.

Síðan hafa menn verið að vinna við að koma rafmagninu á Krossnes,aftengja bæjinn og prófa línuna án Krossness.

Rafmagn komst ekki á Krossnes nú undir kvöld,nú er keyrð þar rafstöð fyrir sjónvarpsendurvarpsstöðina sem er þar svo fólk geti horft á sjónvarp í kvöld.Hitaveita er á Krossnesi til upphitunar íbúðarhúss.

Nú eru menn frá Orkubúinu á Hólmavík á leið norður á snjósleðum og ætla að reyna viðgerð í kvöld.

Talsverð selta var á línum í morgun og gæti hún hafa ollið útslætti í fyrstu.

Að sögn Þorsteins Sigfússonar svæðisstjóra hjá Orkubúinu á Hólmavík hafa þetta verið viðburðaríkir dagar í viðgerðum hjá starfsmönnum Orkubúsins,mest fyrir vestan í Mjóafirði.

| mánudagurinn 9. mars 2009

Viskunnar fugl í heimsókn

1 af 4
Brandugla er nú í heimsókn í Trékyllisvík, og hefur leitað skjóls frá norðanbálinu undir brúnni yfir Árnesá. Krummarnir líta ugluna hornauga, en þeim hefur ekki tekist að flæma hana í burtu.

Branduglur er mjög fágætar. Talið er að einungis 100 til 200 pör verpi árlega á Íslandi, einkum í Þingeyjarsýslum, Eyjafirði og Borgarfirði. Á Íslandsvefnum kemur fram að þær lifa aðallega á músum, en litlir vað- og spörfuglar mega líka passa sig. Vænghaf branduglunnar er í kringum metri, en þær eru aðeins 3-400 grömm á þyngd.

Uglur sjást annað veifið í Árneshreppi, en ekki er vitað til þess að þær hafi gert sér heimili hér í sveit.

Branduglan er alfriðuð, en hrafnarnir í Trékyllisvík taka lítið mark á slíkum tilskipunum, enda uglan skæður keppinautur í músaveiðum. Það má því gera ráð fyrir því að þessi sviflétti viskunnar fugl kveðji þegar storma lægir.

Atburðir

« 2026 »
« Janúar »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Úr myndasafni

  • Saumaklúbbur á Melum 04-01-2008.
  • Platan steypt.01-10-08.
  • Úr sal.Gestir.
  • Svalahurð,18-11-08.
Vefumsjón