Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 25. febrúar 2009

Katla Kjartansdóttir í forval hjá VG.

Katla Kjartansdóttir verkefnisstjóri hjá HÍ.
Katla Kjartansdóttir verkefnisstjóri hjá HÍ.

Fréttatilkynning:
Katla Kjartansdóttir verkefnastjóri við Háskóla Íslands hefur ákveðið að sækjast eftir 3.-6. sæti í forvali VG í Norðvesturkjördæmi vegna alþingiskosninga 2009. Katla er með BA próf í íslensku og þjóðfræði frá Háskóla Íslands og mastersgráðu í þjóðernisfræðum frá Háskólanum í Edinborg.

Hún er stofnfélagi í svæðisfélagi VG á Ströndum þar sem hún er nú búsett ásamt manni sínum og 2 börnum. Katla er 33 ára.

"Ég gef kost á mér vegna þess að ég vil taka þátt í að móta samfélag sem ég get verið stolt af og ánægð með að tilheyra. Það samfélag sem ég vil sjá rísa hér upp úr þeirri öskustó sem við okkur blasir nú, er samfélag sem leggur áherslu á jöfnuð, samfélag sem stendur vörð um náttúruna og samfélag sem telur skapandi hugsun til verðmæta.

Þar fyrir utan finnst mér líka mikilvægt að ungt fólk, og þá sérstaklega ungar konur, komi að því mótunarstarfi sem framundan er. Vissulega hafa margar góðar konur styrkt íslenskt stjórnmálalíf og nefni ég sérstaklega þær Katrínu Jakobsdóttur núverandi menntamálaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur úr röðum Vinstri Grænna. Ég fer þó ekki ofan af því að hlut kvenna þarf að efla enn frekar. Fyrir unga fólkið sem nú er að alast upp eru fyrirmyndir af þessu tagi mjög mikilvægar svo auka megi þá trú að allir hafi hér jafnan rétt til áhrifa burtséð frá kyni, stétt eða stöðu.

Þar sem ég flutti nýverið hingað á Strandir er staða landsbyggðarinnar mér einnig ofarlega í huga. Ég tel mikinn hag í því að hugsað sé um landið sem heild í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Búseta á landsbyggðinnni hefur nú þegar marga góða kosti en betur má ef duga skal. Til þess að blómlegar byggðir geti þrifist er ljóst að efla þarf til muna bæði vega- og fjarskiptakerfi landsins - ekki hvað síst hér á á norðvesturhorninu. Einnig þarf að skapa forsendur fyrir fjölbreytt menningar- og atvinnulíf, efla þarf heilbrigðisþjónustuna og nauðsynlegt er að allir landsmenn hafi kost á góðri menntun - burtséð frá því hvar þeir hafi kosið að búa sér heimili."

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 25. febrúar 2009

Engin fjarskiptastöð fyrir Árneshrepp hjá Vodafone.

Fjarskiptastöðin í Reykjaneshyrnu.
Fjarskiptastöðin í Reykjaneshyrnu.
Vefurinn Litlihjalli sendi fyrirspurn til Vodafone hvort fyrirhugað væri að setja upp fjarskiptastöð eða stöðvar sem myndu bæta GSM samband i Árneshreppi.Eins og fram kemur á vefsíðu Vodafone er uppsetning sendistöðva lokið fyrir Vestfirði.
Nú hefur Hrannar Pétursson forstöðumaður almennatengsla Maraðssviðs Vodafone svarað með eftirfarndi:
Eins og kemur fram á vefsíðunni okkar ( sjá http://www.vodafone.is/vodafone/frettir/vestfirdir ) hefur mikil uppbygging átt sér stað á Vestfjörðum. Sú uppbygging hefur ýmist verið á markaðslegum forsendum eða unnin í samstarfi við Fjarskiptasjóð. Til að tryggja betra GSM samband á þínum slóðum væri hægt að koma upp sendum á fjarskiptastað við Reykjaneshyrnu (sem er í landi Litlu-Ávíkur ef ég man rétt)  eða með því að nota verslunarhúsnæðið í Norðurfirði. Hitt verður þó að segjast, að ekki eru markaðslegar forsendur fyrir slíkri uppsetningu og því afar ólíklegt að af henni verði - nema þá með aðkomu sveitarfélagsins, Fjarskiptasjóðs og/eða annarra hagsmunaaðilar. 
Vefurinn kann Hrannari kærar þakkir fyrir.
Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 25. febrúar 2009

Matthías S Lýðsson gefur kost á sér hjá VG í Norðvesturkjördæmi.

Matthías Sævar Lýðsson  bóndi Húsavík í framboði fyrir VG.
Matthías Sævar Lýðsson bóndi Húsavík í framboði fyrir VG.

Fréttatilkynning.
Ég undirritaður, Matthías Sævar Lýðsson, bóndi í Húsavík í Strandabyggð gef kost á mér í 3.-6. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi.

 

 Ég vil leggja áherslu á að bæta grunngerð samfélagsins, s.s.

samgönguþjónustu, fjarskipti, menntun og heilsugæslu. Ég vil ekki að

fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu sé skattstofn.

 

Ég vil standa vörð um réttarríkið, þar sem karlar og konur eru jöfn, bæði að

lögum og í reynd. Það má efast um að það sé réttarríki, þar sem lítill hópur

manna getur sett heila þjóð í skuldafangelsi. Öllum lögmætum aðferðum verður

því að beita, til að endurheimta þau efnislegu verðmæti sem voru höfð af

almenningi síðustu árin í samfélagi þar sem gróðahyggja og græðgi fékk að

vaxa og dafna óátalið af stjórnvöldum.

 
Ég vil varðveita og efla innri samfélagsgæði. Þar á ég m.a. við:

a.. Menntun og jafnt aðgengi að henni óháð búsetu og efnahag. Gæði

menntunar í því sköpunarstarfi sem nú er unnið í vaxandi háskólum og setrum

víða um land verði tryggð með samstarfssamningum milli skóla.

b.. Íþrótta- og félagstarf hjá ungum og öldnum.

c.. Standa vörð um tónlistarskólana og styðja við leiklistarstarf, ekki

síst hjá áhugaleikhópum.

Ég vil búa bændum þá framtíðarsýn að:

a.. Þeir fái sanngjarnt verð fyrir vinnu sína og geti búið börnum sínum

sömu lífsgæði og aðrir þegnar.

b.. Eignarréttur þeirra verði virtur og framkvæmd þjóðlendulagana sé með

þeim hætti að stjórnvöld hætti að svívirða eignarréttarákvæði

stjórnarskrárinnar.

c.. Stuðningur við þá þróttmiklu nýsköpun sem er í sveitum verði efldur,

ekki síst með ráðgjöf og leiðbeiningum.

Ég vil koma böndum á þann óskapnað sem veðsetning og verslun með kvóta hefur

vakið upp. Það verður að gera án þess að kippa fótunum undan þeim útgerðum

og fiskvinnslum sem skapa verðmæti og halda uppi atvinnu, stundum að því er

virðist af hugsjón frekar en gróðavon. Þetta er erfitt verk en verður að

takast.

 
Ég vil að náttúrugæði og auðlindir séu nýtt með þeim hætti að ekki verði

gengið á möguleika afkomenda okkar til að nýta og njóta þeirra sömu gæða.

Lögfest verði að við alla lagasetningu og meiriháttar framkvæmdir á vegum

ríkis og sveitarfélaga, verði metin að jöfnu áhrif á efnahag, samfélag og

náttúru.

 

 Ég vil þetta og ... ég vil ótalmargt fleira. En fyrst og fremst vil ég búa í

samfélagi skapandi hugsunar, heiðarleika, jöfnuðar, náttúruverndar, samvinnu

og lífsgleði.

 
Ég er 51 árs, bóndi í Húsavík á Ströndum og hef unnið ýmislegt samhliða

búskap s.s. sem svæðisleiðsögumaður, lögreglumaður, félagsmálakennari,

starfsmaður sláturhúss og fleira. Er og hef verið virkur í félags- og

atvinnumálum og hef setið m.a. í stjórn UMFÍ, er einn stofnenda og

stjórnarmanna Galdrasýningarinnar og Sauðfjárseturs á Ströndum. Einnig í

stjórnum Kaupfélags Steingrímsfjarðar og Hólmadrangs (rækjuvinnslu). Ég er

kvæntur Hafdísi Sturlaugsdóttur bónda og náttúrufræðing og eigum þrjú börn.

Húsavík 24. febrúar, á Matthíasarmessu.

Matthías Sævar Lýðsson

 

 

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 24. febrúar 2009

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi 21. mars.

Eftirfarandi yfirlýsing hefur borist frá formanni kjörnefndar í Norðvesturkjördæmi: 

„Prófkjör til framboðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi vegna komandi Alþingiskosninga fer fram laugardaginn 21. mars 2009. Rétt til þátttöku í prófkjörinu eiga allir þeir sem gerst hafa flokksbundnir sjálfstæðismenn fyrir 21. febrúar 2009 og eru auk þess fullgildir meðlimir Sjálfstæðisfélaganna í kjördæminu, þar búsettir og hafa náð 16 ára aldri á prófkjörsdag. Framboðsfrestur til þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi rennur út á morgun miðvikudaginn 25. febrúar.

Frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi þarf að vera flokksbundinn meðlimur Sjálfstæðisflokksins, með lögheimili í Norðvesturkjördæmi og vera kjörgengur í Alþingiskosningunum næst komandi. Allar frekar upplýsingar s.s.um framboðseyðublað og reglur flokksins, má nálgast á heimasíðu Sjálfstæðisfokksins í Norðvesturkjördæmi: www.nordvesturland.is. Frambjóðendum og öðrum áhugasömu er bent á að hafa að hafa samband við starfsmann Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í gegnum tölvupóst með því að senda á netfangið: fannar@xd.is eða með því að hringja í síma: 437-1460. Öllum framboðum skal skila í pósti til Fannars Hjálmarssonar starfsmanns Kjördæmisráðs á eftirfarandi heimilisfang: Arnarklett 30, 310 Borgarnesi. Póststimpill gildir ef framboð berast eftir 25. febrúar.

Fyrir hönd kjörnefndar,
Jóhann Kjartansson, formaður."

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 24. febrúar 2009

Framsóknarmenn í Norðvesturkjördæmi velja póstkostningu.

Á aukakjördæmisþingi framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi sem haldið var að Reykjum í Hrútafirði um miðjan mánuðinn var samþykkt tillaga þess efnis að val í fjögur efstu sætin á framboðslista framsóknarmanna í kjördæminu vegna kosninga til Alþingis þann 25. apríl nk. skyldi fara fram með póstkostningu allra félagsmanna í kjördæminu.

Munu atkvæðaseðlar verða sendir út þann 3. mars nk. en talning fara fram föstudaginn 13. mars. Skipan í önnur sæti á listann verður ákveðin á kjördæmisþingi sem boðað verður til í framhaldinu.
Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 24. febrúar 2009

Ekkert flogið fyrr enn á fimmtudag.

Flugstöðin Gjögri.
Flugstöðin Gjögri.
Flugi hefur verið aflýst í dag til Gjögurs og ekkert verður athugað aftur með flug fyrr enn á fimmtudag þá er næsti áætlunardagur.
Verður þá komin vika síðan flogið var á Gjögur.
Leiðinda spá er fyrir kvöldið og daginn á morgun.
Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 24. febrúar 2009

Viðar Guðmundsson býður sig fram fyrir VG.

Viðar Guðmundsson í 3 til 6 sæti hjá VG.
Viðar Guðmundsson í 3 til 6 sæti hjá VG.

Viðar Guðmundsson tónlistarmaður og bóndi í Miðhúsum í Kollafirði á Ströndum gefur kost á sér í 3.-6. sæti í forvali Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar nú í vor. Í fréttatilkynningu kemur fram að Viðar leggur áherslu á jöfnuð í samfélaginu, byggðamál, menntamál og að standa vörð um frumgreinarnar í atvinnulífinu. "Heimilin í landinu, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og fleiri grunnstoðir í samfélaginu standa mjög höllum fæti um þessar mundir. Nú þarf að standa vörð um hin raunverulegu verðmæti þjóðarinnar. Við þurfum að berjast gegn atvinnuleysi, minnka stórlega bilið á milli þeirra sem minnst hafa og þeirra sem mest hafa. Tími óhófs í launakjörum verður að taka enda.

Bæta þarf samkeppnisstöðu fyrirtækja og einstaklinga á landsbyggðinni með því að tryggja lágmarksþjónustu, s.s. mannsæmandi vegi og háhraðatengingu Internets. Vegakerfið er lélegt og netsambandið enn verra og það er til skammar að ekki skuli hafa verið meira gert í þessum málaflokkum á síðustu árum. Það er yfirvofandi mikill niðurskurður hjá ríkinu á næstu árum sem og sveitarfélögum. Ég hef miklar áhyggjur af því ef það á að fara að sneiða mikið af skólakerfinu. Við verðum að reyna að halda úti öflugu skólakerfi þó að þrengi að. Það er fjárfesting til framtíðar sem mun ávaxta sig vel.

Hinsvegar tel ég að víða í ríkisrekstrinum megi spara umtalsvert án þess að það valdi mikilli þjónustuskerðingu. Sem dæmi nefni ég sendiráð okkar sem við eigum og rekum víða um heim. Mín skoðun er sú að við eigum að vera með sameiginleg sendiráð með annarri Norðurlandaþjóð, t.d. Noregi. Þjónustan ætti ekki að þurfa að skerðast, en sparnaðurinn gæti verið umtalsverður.

Byrjum ekki á námsmönnum, sjúklingum og eldri borgurum þegar á að fara að spara.''

Viðar Guðmundsson er 27 ára gamall og starfar sem tónlistarkennari og organisti á Hólmavík, auk þess sem hann er bóndi í Miðhúsum. Viðar er einnig stjórnandi Karlakórsins Söngbræðra í Borgarfirði. Kona Viðars er Barbara Ósk Guðbjartsdóttir bóndi og leiðbeinandi og eiga þau 3 börn.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 24. febrúar 2009

Leiðangursstyrkur 66°Norður .

Fréttatilkynning frá Landsbjörgu.
66°Norður hefur í áraraðir verið leiðandi framleiðandi útivistarfatnaðar og í ljósi þess leita margir til fyrirtækisins að leiðangursstyrkjum. 66°Norður hefur styrkt marga góða leiðangra á síðustu árum og má þar t.d. nefna göngu Mörtu Guðmundsdóttur yfir Grænlandsjökul til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands, göngu Leifs Arnars Svavarssonar Cho Oyu og göngu „Fimm tinda" á hæsta fjall hvers landshluta til styrktar Sjónarhóli.

66°Norður hefur nú ákveðið að veita árlega tvo leiðangursstyrki til einstaklinga eða hópa að andvirði 500.000 kr. hvor. Styrkirnir fela bæði í sér fatnað fyrir leiðangurinn og peningastyrk að upphæð allt að 200.000 kr.

Styrkirnir eru tvískiptir annars vegar er veittur styrkur fyrir leiðangra sem eru farnir til stuðnings góðs málefnis og vinna að því að kynna eða safna pening fyrir málefið. Hins vegar veittur styrkur til krefjandi leiðangra á nýjar slóðir.

Umsóknarfrestur fyrir styrki til stuðnings góðs málefnis er
1. mars ár hvert og tilkynnt hver niðurstaða valnefndar er 8. mars. Umsóknarfrestur fyrir krefjandi leiðangra er 1. nóvember og tilkynnt verður 10. nóvember hvaða leiðangur hlýtur styrkinn.

Valnefnd skipuð fulltrúum frá Ísalp, Landsbjörgu, Ferðafélagi Íslands, Útivist, Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum og Bandalagi íslenskra skáta ásamt fulltrúa frá 66°Norður mun fara yfir allar umsóknir og velja þá leiðangra sem þykja skara fram úr hverju sinni.

Að þessu sinni sytja í valnefndinni Freyr Ingi Björnsson frá ÍSALP, Jón Ingi Sigvaldason frá SL, Páll Guðmundsson frá FÍ,Skúli H. Skúlason frá FÚ, Margrét Tómasóttir frá BÍS, Einar Torfi Finnsson frá ÍFLM og Helga Viðarsdóttir frá 66°Norður.

Það er von 66°Norður að leiðangursstyrkirnir eiga eftir að koma að góðum notum og stuðli að áframhaldandi vexti útivistar á Íslandi.
Hér má smella á slóðina um umsóknarstyrk.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 24. febrúar 2009

Paralista stillt upp með netprófkjöri í Norðvesturkjördæmi hjá Samfylkingu.

Frá Borgarnesi.Mynd Mats.
Frá Borgarnesi.Mynd Mats.
Á kjördæmisþingi Samfylkingarfólks í Norðvesturkjördæmi sem haldið var laugardaginn 21. febrúar í Menntaskólanum í Borgarnesi, var ákveðið að velja í 6 efstu sætin á framboðslista flokksins í komandi alþingiskosningum með netprófkjöri 6-8.. mars.  Rétt til þátttöku í netprófkjörinu hafa allir félagar í Samfylkingunni í Norðvesturkjördæmi og eru kjörgengir í kjördæminu.

Við röðun á lista verði parað í 6 efstu sætin, þannig að ávallt verði karl og kona í hverjum 2 sætum raðað eftir atkvæðamagni í prófkjöri., Kjósendur velja 6 nöfn á kjörseðil og númera frá 1-6.

Frambjóðendum er óheimilt að auglýsa í ljósvaka- , prent- og vefmiðlum. Kjördæmisráð gefur út sameiginlegt kynningarrit og gengst fyrir sameiginlegum fundum til kynningar á frambjóðendum.

Framboðsfrestur rennur út 26. febrúar.

Nánari upplýsingar um netprófkjörið er hægt nálgast hjá Eggerti Herbertssyni formanni stjórnar kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi í síma 617-8306 eða með því að senda tölvupóst á netfangið nordvestur@xs.is.
<
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 23. febrúar 2009

Fréttatilkynning frá VG.

Kjördæmisráðsþing Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi haldið  sunnudaginn 22. febrúar, samþykkti að fram skyldi fara leiðbeinandi forval vegna kosninga til Alþingis 25. apríl næstkomandi.

 

Kjörstjórn VG í Norðvesturkjördæmi auglýsir hér með eftir fólki, sem vill gefa kost á sér til setu á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

 

Frestur til að skila inn framboði er til kl: 17.00, föstudaginn 27. febrúar. Framboðum skal skilað til formanns kjörstjórnar, Gísla Árnasonar, s. 895 4408 eða gisli@fnv.is

 

Allir, sem vilja vinna stefnumálum VG brautargengi, eru hvattir til að gefa kost á sér

 

Kosningarétt hafa allir skráðir félagsmenn VG í Norðvesturkjördæmi 27. febrúar, en kjörskrá verður lokað þann dag  kl. 17.00

Viðhöfð verður póstkosning og kynningarefni um frambjóðendur ásamt atkvæðaseðli verður sent félagsmönnum VG í Norðvesturkjördæmi er kosningarétt hafa.

 

Kjörstjórn VG í Norðvesturkjördæmi 

Atburðir

« 2024 »
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Úr myndasafni

  • Finnbogastaðir fyrir brunann.
  • Lokað þak inni.12-11-08.
  • Borgarísjaki ca 4 til 5 km NA af Gjögurflugvelli 13-01-2005.
  • Þakpappi komin á allt húsið 18-11-08.
Vefumsjón