Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 26. nóvember 2008

Upplýsingar um hafís frá Veðurstofunni í dag.

Gervihnattamynd frá því kl 13:46 í dag,mynd Veðurstofan.
Gervihnattamynd frá því kl 13:46 í dag,mynd Veðurstofan.

Á gervihnattamynd frá því kl. 13:46 í dag þá sést að hafísröndin er á svipuðum slóðum og hún hefur verið undanfarna daga, þ.e. ísröndin er næst landi tæplega 50 sml frá Barða. Nokkuð erfitt er að greina hafísröndina að hluta til á myndinni vegna skýjahulu, en það er ólíklegt að þéttur hafís sé nær landi en rauða línan sýnir.   Þrátt fyrir þetta eru sjófarendur beðnir um að fara að öllu með gát því stakir jakar og rastir geta verið nær landi en sést á gervihnattamyndinni.

 

Fram á sunnudag verður norðan- og norðaustanátt á Grænlandssund og því ætti hafísröndin að þokast nær Grænlandi.  Frá sunnudegi og fram eftir næstu viku verða breytilegar áttir á Grænlandssundi.
Frétt og mynd frá Veðurstofu Íslands www.vedur.is

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 26. nóvember 2008

Fé komið á gjöf og rúið.

Sigursteinn Sveinbjörnnsson í Litlu-Ávík við rúning.
Sigursteinn Sveinbjörnnsson í Litlu-Ávík við rúning.
1 af 2
Nú eru bændur búnir að taka fé inn á gjöf.

Bændur eru nú að rýja féið og sumir langt komnir með það.

Ásetningslömb var búið að taka á hús um og uppúr 10 þessa mánaðar og hrúta og það þá rúið.

Þeyr bændur sem láta sæða fé,er gert uppúr 10 desember,en venjulegur fengitími rétt fyrir jól og í hámarki um hátíðarnar.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 25. nóvember 2008

Námskeið um fjármál og fjármálalæsi.

Miðvikudaginn 26. nóvember n.k. verður haldið námskeið um fjármál heimilanna í samstarfi Fræðslumiðstöðvar, Félagsmálaskóla alþýðu, Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Ísafjarðarbæjar, Vesturbyggðar og Strandabyggðar. Þar verður fjallað um þætti eins og greiðslubyrði lána, geiðsluerfiðleika, verðbólgu, sparnað og heimilisbókhald.

Námskeiðið verður haldið í húsakynnum Fræðslumiðstöðvarinna að Suðurgötu 12 og fjarkennt til Hólmavíkur og Patreksfjarðar. Það hefst kl. 18.00 og stendur til 21.00. Kennari er Henný Hinz hagfræðingur ASÍ.

Fjarfundur á Hólmavík verður í Þróunarsetrinu að Höfðagötu 3 Hólmavík, á fyrstu hæð.

Námskeiðið er frítt en nauðsynlegt er að skrá sig.

Það má gera hér:

http://www.frmst.is/index.php/namskeid/texti/fjarmalalaesi_fjarmal_heimilanna/
--------------------------------------------------------------
Fræðslumiðstöð Vestfjarða, kt. 511199-2049
Höfðagata 3
510- Hólmavík
Sími: 451-0080
Fax: 456-5066
Netfang: kristin@frmst.is
Veffang: http://www.frmst.is/

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 24. nóvember 2008

Jóladagatal Strandamanna.

Kristín Sigurrós á skrifstofu sinni.
Kristín Sigurrós á skrifstofu sinni.
Gagnvegur er að undirbúa útgáfu á jóladagatali Strandamanna 2008. Dagatalið verður litprentað í stærðinni A3 og dreift á öll heimili og fyrirtæki í sýslunni ásamt söluskálum í nærliggjandi sveitum. Upplagið verður 400 eintök. Á dagatalinu verður einn reitur fyrir hvern dag desembermánaðar þar sem hægt verður að koma viðburðum eða opnunartímum á framfæri. Verið er að undirbúa hönnun dagatalsins. Nú er leitað til fyritækja, stofnana, sveitarfélaga og félagasamtaka að styðja við útgáfuna. Stefnt er að dreifingu 1. desember. Því verður að hafa hraðar hendur. Lógó kostar 10.000 krónur en styrktarlína 5.000 krónur. Verðin eru með vsk. Viðburðum og lógóum eða styrktarlínum þarf að skila hið fyrsta þar sem undirbúningstíminn er naumur.
Upplýsingar hjá:
Kristínu S Einarsdóttur 4513585 og 8673164 og netfangið er stina@holmavík.is
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 24. nóvember 2008

Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 17.-23. nóvember 2008.

Lögreglan.is
Lögreglan.is

Í síðustu viku voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum en annar þeirra ók um Hnífsdalsveg á 114 km hraða en þar er hámarkshraði 80 km/klst.   Eitt umferðaróhapp var tilkynnt, en það var minniháttar árekstur innanbæjar á Patreksfirði.  Í lok vikunnar voru þrír ökumenn stöðvaðir fyrir meintan akstur undir áhrifum fíkniefna.   Tveir þeirra voru á ferð á Ísafirði en einn var stöðvaður á Patreksfirði.  Á fimmtudaginn var óskað aðstoðar björgunarsveitarinnar Kóps á Bíldudal vegna rjúpnaskyttu sem hafði villst.  Maðurinn var í símasambandi við björgunarsveitarmenn sem náðu að finna manninn og aðstoða hann við að komast niður af fjöllum en þarna voru klettabelti og brattar fjallshlíðar sem voru hættulegar yfirferðar.

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 24. nóvember 2008

Styrkir Menningarráðs afhentir á Patreksfirði 21 nóvember.

Styrkir Menningarráðs Vestfjarða við síðari úthlutun á árinu 2008 voru afhentir við hátíðlega athöfn í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði á föstudaginn. Alls voru veittir 52 styrkir að upphæð samtals 17,4 milljónir og voru einstakir verkefnastyrkir á bilinu frá 50 þúsund til 1 milljón. Styrkirnir fóru til fjölbreyttra verkefna sem sýna glöggt þann kraft og frumkvæði sem býr í vestfirsku menningarlífi, en margvísleg útgáfuverkefni voru þó áberandi við úthlutun að þessu sinni, enda var lögð sérstök áhersla á að styrkja slík verkefni við þessa úthlutun. Átti það bæði við um útgáfu bóka og tónlistar. Næst verður auglýst eftir styrkumsóknum snemma á nýju ári, en samtals hefur Menningarráð Vestfjarða nú úthlutað 55 milljónum til 151 verkefnis við þrjár úthlutanir.

Listi um alla styrkina við síðari úthlutun ársins 2008 er svohljóðandi:

Meira
Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 21. nóvember 2008

Byrjað að setja þakjárnið á.

Byrjað að setja þakjárnið á.
Byrjað að setja þakjárnið á.
Í morgun var byrjað að setja þakjárnið á nýja húsið á Finnbogastöðum,gott veður er í dag breytileg vindátt eða vestan gola,og frost 2 til 6 stig.
Ekki lítur vel út með áframhaldandi þakvinnu á morgun því spáð er suðaustan 8 til 13 m/s í fyrramálið og snjókomu síðan sunnan og suðvestan 10 til 18 m/s með rigningu þegar líður á daginn og hlýnandi veðri.
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 20. nóvember 2008

Hafísinn færist nær landi.

Hafískort frá Jarðvísindastofnun Háskólans 20-11-08.
Hafískort frá Jarðvísindastofnun Háskólans 20-11-08.
1 af 2
Samkvæmt vef Veðurstofunnar kemur fram á gervihnattamyndum frá 19. nóvember að hafís er um 50 sjómílur frá Straumnesi.

Fram yfir helgi verður vestlæg átt ríkjandi að mestu leiti á Grænlandssundi og því mun ísinn færast enn nær landi.  Reikna má með að stakir jakar og rastir komi inn á Vestfjarðamið á næstunni og jafnvel nokkuð þéttur ís.

Sjávarhitinn á þessum slóðum er um 4°-5°C og því má búast við að ís bráðni frekar hægt. 

Eins og ávallt eru sjófarendur beðnir um að fara að öllu með gát.  Einnig er rétt að hafa í huga að gervihnattamyndin hér að neðan gefur hugmynd um hafísröndina, en stakar jakir og rastir geta verið út fyrir hafísröndina sem teiknuð er inn á myndina.

Hér er einnig mynd frá Jarðvísindastofnun Háskólans sem er frá því í dag og er hætt við að ísinn sé enn nær landi en mynd Veðurstofunnar sínir,eða stöku jakar.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 20. nóvember 2008

Síðari úthlutun Menningarráðs Vestfjarða verður á morgun.

Síðari úthlutun Menningarráðs Vestfjarða á árinu 2008 verður í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði nú á föstudaginn 21. nóvember og hefst athöfnin kl. 16:00. Verða þar afhent vilyrði um styrki frá Menningarráði Vestfjarða, en alls eru veittir styrkir til 52 verkefna að þessu sinni. Eru einstakir verkefnastyrkir á bilinu 50 þúsund til 1 milljón, samtals að upphæð 17,4 milljónir. Styrkirnir fara til fjölbreyttra verkefna sem sýna glöggt þann kraft, frumkvæði og nýsköpun sem einkennir vestfirskt menningarlíf. Verkefni sem tengjast útgáfu og miðlun eru áberandi í hópi þeirra verkefna sem styrkt eru að þessu sinni, en sérstök áhersla var lögð á þennan þátt menningarstarfsins við úthlutun að þessu sinni. 

Athöfnin í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði á föstudag er opin öllum sem áhuga hafa og sveitarstjórnarmenn og þeir sem standa í eldlínunni í menningarstarfi á Vestfjörðum eru sérstaklega boðnir velkomnir. Á dagskrá eru erindi, afhending styrkja og sýnishorn af öflugu vestfirsku menningarlífi. Í lokin á þessari formlegu athöfn verður boðið upp á léttar
veitingar í Sjóræningjahúsinu.

Heildarlisti um styrkt verkefni verður birtur á vef Menniningarráðsins á föstudag og sendur fjölmiðlum. Menningarráð Vestfjarða mun næst auglýsa eftir umsóknum til verkefna á menningarsviðinu snemma á nýju ári.
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 20. nóvember 2008

Góðar líkur á heitu vatni við Ytra-Skarð.

Borinn Klaki við Ytra-Skarð og bormenn.
Borinn Klaki við Ytra-Skarð og bormenn.
Boraðar voru tvær viðbótar holur við Ytra Skarð í Stóra-Ávíkurlandi í byrjun nóvember,en áður var búið að bora eina holu.Seinni holurnar tvær voru boraðar aðeins austar.
Nú eru komnar niðurstöður úr þessum hitastigulsholum og að sögn Hauks Jóhannessonar jarðfræðings hjá Íslenskum Orkurannsóknum er niðurstaðan sem hér segir:
"Niðurstaða borana er að í landi Stóru-Ávíkur nærri þeim stað þar sem borholurnar eru eru líkindi til að heitt vatnskerfi sé fyrir hendi þótt enginn jarðhiti sé á yfirborði. Í svona tilvikum eru boraðar grunnar borholur sem við nefnum hitastigulsholur og mælum í þeim hitann og sjáum hve hratt hann hækkar með dýpi. Holurnar í Ávík eru um og yfir 50 metra djúpar og hitastigullinn í þeim eru frá 100°C/km upp í 150°C/km þessi stigull er verulega hærri en við er að búast því svæðislægur hitastigull er vanalega um 50°C/km á Vestfjörðum. Þegar stigullinn er eins hár og í Ávík þá bendir það til að heitt vatnskerfi sé nærri. Borholan á Melum er köld og í henni eru tvær kaldar vatnsæðar og virðist hún ekki benda til nálægðar við heitt vatnskerfi."
Borinn Klaki er nú farinn héðan úr hreppnum og ekki verður borað meira að sinni.Vatnsborun ehf sem Árni Kópsson rekur sáu um boranir hér í Árneshreppi í haust.

Atburðir

« 2026 »
« Janúar »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Úr myndasafni

  • Búið að klæða á milli bílskúrs og aðaldyra,03-12-2008.
  • Séð til Krossness frá Litlu-Ávík 15-03-2005.
Vefumsjón