Frá Gjögri,Mynd Rúnar S.
Litlahjalla bárust þessar gömlu heimildir nú á dögunum.
Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 19. september 1980
19.9.1980
Ár 1980, föstudaginn 19. september var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:
Flugráð
gegn
Eigendum Gjögurs,
Árneshreppi,
Strandasýslu
og í því kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I.
Með beiðni dags. 20. mars 1980 hefur Pétur Einarsson, lögfræðingur, f.h. Flugráðs fari þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að framkvæmt verði mat á landsvæði, sem þörf er talin á undir flugvöll að Gjögri í Árneshreppi, Strandasýslu. Vísar hann í þessu efni til laga um loftferðir nr. 36/1964, 64. gr., er kveði á um heimild til eignarnáms, enda telji Flugmálaráðherra að mannvirkjagerðin sé frá almennu sjónarmiði æskileg. Þá vísar lögmaðurinn til 1. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973.
Að beiðni hreppsnefndar Árneshrepps dags. 4. maí 1979 og 14. desember 1979 samþykkti Flugráð á fundi sínum 31. jan. 1980, að fara þess á leit við samgönguráðuneytið, að það hlutist til um eignarnám á landi undir flugvellinum á Gjögri á Ströndum, enda greiði Árneshreppur allan kostnað við eignarnámið, sbr. bréf oddvita Árneshrepps dags. 4. maí og 14. des. 1979.
Með bréfi dags. 5. febr. 1980 samþykkti samgönguráðherra, að eignarnámið skuli fram fara, með eftirfarandi orðum: "Með hliðsjón af þeim rökum er ráðið (Flugráð) færir fram til stuðnings málaleitan sinni getur ráðuneytið fallist á nauðsyn eignarnáms hins umrædda lands með heimild í 64. gr. l. nr. 34, 21. maí 1964 um loftferðir, en telur að framkvæmd hinnar umbeðnu gerðar eigi að vera á vegum Flugráðs."
Samkvæmt þessu telur matsbeiðandi fullnægjandi heimild til eignarnáms liggja fyrir í málinu.
Um ástæður til eignarnámsins skýrir eignarnemi svo frá, að á Gjögri hafi verið ruddur melur fyrir allöngu, sem notaður hafi verið sem sjúkraflugvöllur. Flugmálastjórnin hafi haldið þeim velli við og launað starfsmann er sinni flugi á völlinn og vellinum sjálfum. Vaxandi umferð sé um þennan flugvöll og þjóni hann afskekktu byggðarlagi með fólksflutningum, póstflugi, vöruflugi og sjúkraflugi. Vegna sérstöðu byggðalagsins sé flugvöllur á þessum stað beinlínis lífsnauðsyn. Nú séu aðstæður þannig á flugvellinum að þær séu mjög frumstæðar og verði því að gera þar miklar framkvæmdir, til þess að lágmarkskröfum til öryggis sé fullnægt. Brautina þurfi bæði að hækka og lengja mikið. Setja þurfi niður brautarljós og koma fyrir aðflugsljósum og stefnuvita. Þá þurfi að reisa þarna farþegaskýli. Allar þessar framkvæmdir kosti ekki mikið undir 200 millj. króna á verðlagi í dag. Vegna mikilvægis flugsamgangna fyrir þetta einangraða hérað sé brýn nauðsyn að fá umráð yfir landi undir flugvöll á þessum stað.
Hreppsnefnd Árneshrepps hafi um árabil reynt samninga við eigendur jarðarinnar að Gjögri vegna þessa máls, en margir þeirra hafi verið ófáanlegir til þess að láta landið af hendi. Engin kostur hafi því verið á samningum og eignarnám sé því eina úrræðið.
Landsvæði það sem þörf er á undir flugvöll er sýnt á framlagðri teikningu Ólafs Pálssonar, verkfræðings, dags. 28. febr. 1980. Spildan nær frá túngirðingu í norðvestri og 1050 m. í norðaustur. Breidd spildunnar er 150 metrar nema nálægt miðju brautarlendingarinnar norðanmegin er ætlað land undir hlað og farþegaskýli 100 x 50 m. Land þetta er allt afmarkað með rauðum línum á umræddum uppdrætti. Landsvæðið er allt 16,25 ha. að flatarmáli. Þá krefst Flugráð umferðarréttar um veg frá flugvelli út á þjóðveg. Er Matsnefndin beðin um að meta þann rétt, ef það geti talist til verðs hjá eignarnámsþola.
Eignarnemi telur að eignaskerðing eignarnámsþola sé óveruleg. Um sé að ræða óræktaðan mel, sem að mati kunnugra manna sé óræktanlegur. Eignarnámsþoli hafi aldrei svo vitað sé haft af landsvæði þessu nokkurn arð. Í leysingum hafi landsvæði þetta orðið allt eitt forarsvað. Í umhleypingum hafi landið verið erfitt yfirferðar. Hins vegar megi leiða rök að því, að gerð flugvallar þarna sé til mikilla hagsbóta fyrir eignarnámsþola. Megi reikna með að annað land jarðarinnar hækki í verði svo og að aukin ferðamannastraumur geti haft í för með sér margvíslegan hagnað fyrir eigendur jarðarinnar. Samkvæmt upplýsingum sýslumanns Strandasýslu er jörðin Gjögur óskipt sameign að undanskildu því, að Sigurður Sveinsson er talinn eigandi að lóð undir húsi skv. kaupsamningi dags. 21. nóv. 1917 og Níels Jónsson er talinn eigandi að lóð (Grænhól) skv. afsali dags. 7. janúar 1903.
Í óskiptri sameign eiga því eftirfarandi aðilar jörðina Gjögur:
Meira