Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 16. janúar 2010

Hafís við Hornbjarg hefur nánast náð landi.

Mynd sem tekin var úr þyrlunni í dag.Mynd Landhelgisgæslan.
Mynd sem tekin var úr þyrlunni í dag.Mynd Landhelgisgæslan.
1 af 2
Í ískönnunarflugi þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag kom í ljós hafís við Hornbjarg sem hefur nánast náð landi við Hornbjargsvita. Ísinn liggur til austurs í áttina að Óðinsboða, talsverður rekís og spangir en þó er fært gegnum ísinn með aðgát. Eitt skip fór í gegn um ísinn meðan flogið var yfir en Landhelgisgæslan varar sjófarendur við aðstæðum og mælir með að fylgst verði með sjávarhita á svæðinu. Þegar flogið var yfir var þoka og lélegt skyggni á svæðinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.


Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 15. janúar 2010

Hafísinn farinn að nálgast Strandir.

Á gervihnattamynd frá því í hádeginu í dag kl.11:56 sést hafísröndin ágætlega.

Gisinn ís er um 15 sml frá Hornbjargi, en hafístunga teygir sig suður í átt að Ströndum og hefur færst aðeins nær landi frá því í gær og er nú um 14 sml frá landi.Hafístunga er svo um 21 sml frá Straumnesi.  Takið eftir að einnig vottar fyrir mögulegum stökum jökum út frá Barða. 

Sjófarendur eru beðnir um að fara að öllu með gát.
Þetta kemur fram á hafísvef Veðurstofu Íslands.

| föstudagurinn 15. janúar 2010

Það var stelpa!

Ingvar og Elísa með Kára (með hattinn) og Þóreyju. Með þeim á myndinni er Skúli Björn Ásgeirsson, verðandi stórbóndi.
Ingvar og Elísa með Kára (með hattinn) og Þóreyju. Með þeim á myndinni er Skúli Björn Ásgeirsson, verðandi stórbóndi.
Klukkan hálfeitt í dag kom ný Strandastelpa í heiminn, dóttir Ingvars Bjarnasonar og Elísu Valgeirsdóttur. Hún er hraust og tápmikil, 48 sentimetrar og 14 merkur.

Litla telpan er þriðja barn Elísu og Ingvars, fyrir eiga þau Þóreyju, 5 ára, og Kára sem er á níunda ári. Þau fluttu í Árneshrepp á síðasta ári, en Elísa er uppalin í Árnesi, dóttir Valgeirs Benediktssonar og Hrefnu Þorvaldsdóttur.

Nýi íbúinn okkar bætist í fríðan flokk stúlkna í Árneshreppi. Í skólanum eru þær Júlíana Lind Guðlaugsdóttir (12 ára) og Ásta Ingólfsdóttir (9 ára), Þórey byrjar í Finnbogastaðaskóla í haust, en næstar í aldri koma systurnar fjörugu í Bæ, Aníta (3 ára) og Magnea (bráðum 2 ára) og síðan Jóhanna Engilráð Hrafnsdóttir sem fæddist 20. maí á síðasta ári. Kári verður því enn um hríð að halda uppi merki stráka í Árneshreppi!

Litli-Hjalli óskar Ingvari og Elísu, Kára og Þóreyju, og öðrum ættingjum og vinum, hjartanlega til hamingju.
| fimmtudagurinn 14. janúar 2010

Elín Agla tekur við skólastjórn -- Mest íbúafjölgun á landinu í Árneshreppi!

Elín Agla og Jóhanna Engilráð, sem bráðum verður bara næstyngst í Árneshreppi.
Elín Agla og Jóhanna Engilráð, sem bráðum verður bara næstyngst í Árneshreppi.
1 af 3
Elín Agla Briem er nú tekin aftur við skólastjórn í Finnbogastaðaskóla af Elísu Valgeirsdóttur sem gegnt hefur starfinu með miklum sóma síðan í haust. Segja má að þær hafi hlutverkaskipti: Elín Agla snýr nú úr fæðingarorlofi, en Elísa er farin suður til Reykjavíkur til að fjölga mannkyninu. Allir í Árneshreppi bíða spenntir eftir fréttum af nýjum íbúa.

Jóhanna Engilráð, dóttir Elínar Öglu og Hrafns er nú að verða 8 mánaða, og hefur notið lífsins sem yngsti íbúinn. Hún mun með mikilli ánægju afsala sér titlinum og er orðið nokkuð langt síðan svo skammt var milli fæðinga hér í sveit. Miklar vangaveltur eru um hvort þriðja barn Elísu og Ingvars Bjarnasonar verður drengur  eða stúlka, enda heil 16 ár síðan piltur fæddist í Árneshreppi.

Elísa og Ingvar fluttu hingað norður í fyrra ásamt tveimur börnum sínum, Kára og Þóreyju, og er þessi góða fjölskylda sannkölluð vítamínsprauta fyrir samfélagið hér. Þau hafa, ásamt Jóhönnu Engilráð, séð til þess að íbúum í Árneshreppi fjölgar um meira en 10 prósent milli ára -- og er það mesta íbúafjölgun í nokkru sveitarfélagi á Íslandi, samkvæmt heimildum Litla-Hjalla.
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 14. janúar 2010

Hafís var í gær 17 sml út af Geirólfsgnúpi.

Gerfihnattamynd frá því í gærkvöldi.Mynd VÍ.
Gerfihnattamynd frá því í gærkvöldi.Mynd VÍ.

Á gervihnattamynd frá því í gærkvöldi (13. janúar) kl. 22:45 sést að gisinn ís er um 12 sml frá Hornbjargi og ístunga með þéttum ís er um 17 sml út frá Geirólfsgnúpi.  Ístungan sem teygir sig í átt að Straumnesi hefur fjarlægst og er nú 24 sml frá landi.

Austlæg átt verður í dag og á morgun, en á laugardag norðlæg átt.  Á sunnudag og fram á mánudag er búist við suðvestanátt, en eftir það er útlit fyrir að austlæg átt verði ríkjandi. 

Sjófarendur eru beðnir um að fara að öllu með gát. 
Þetta kemur fram á hafísvef Veðurstofu Íslands.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 14. janúar 2010

Kræklingaeldið gengur vel í Steingrímsfirði.

Haldór Logi og Victor Örn Victorsson.Mynd Óskar Torfason.
Haldór Logi og Victor Örn Victorsson.Mynd Óskar Torfason.
Kræklingaeldi í Steingrímsfirði hefur gengið vel segir á Strandir.ís,og menn eru vongóðir um þennan vaxtarsprota og nýsköpun í atvinnulífi á Ströndum. Í haust var unnið við grisjun á kræklingnum sem áhöfnin á Grímsey ST-2 á Drangsnesi setti út sumarið 2008. Hefur áseta kræklingsins verið mjög góð og útlit fyrir 30 til 40 tonna uppskeru að ári ef áframræktunin tekst eins og reiknað er með. Allnokkur vinna er við grisjunina, þar sem kræklingurinn er tekin af söfnurunum og fluttur í land og flokkaður þar eftir stærð og settur í sokka. Síðan er honum komið aftur fyrir á línum þar sem hann verður næsta árið. 
Þetta er eins og í búskapnum, lömbin fara á fjall á vorin og vonast menn eftir þeim aftur að hausti vænum og fallegum.

Á Grímsey ST-2 eru bræðurnir Friðgeir og Halldór Höskuldssynir ásamt Halldóri Loga Friðgeirssyni.
Þetta kemur fram á www.strandir.is

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 13. janúar 2010

Gott verð fyrir grásleppuhrognin.

Frá hrognaverkun á Norðurfirði.
Frá hrognaverkun á Norðurfirði.
Útflutningsverðmæti grásleppuafurða - saltaðra hrogna og kavíars var hærra en nokkru sinni á sl. ári.  Þegar mánuður var eftir af árinu höfðu verðmætin aukist um 920 milljónir miðað við allt árið 2008, sem var einnig mjög gott ár.Fyrstu ellefu mánuðir síðasta árs skiluðu um 2,3 milljörðum í útflutningsverðmæti sem er 107% aukning miðað við sama tímabil 2008. 

Frakkar eru eins og fyrr lang stærstu kaupendur af grásleppukavíar, næstir þeim voru Þjóðverjar sem í mörg fyrri ár hafa haldið sig neðarlega á listanum.

Af söltuðum hrognum var mest flutt út til Þýskalands, Svíar komu þar skammt á eftir og Danir voru þriðju stærstu kaupendurnir.
Þetta kemur fram á vef Landssamands smábátaeiganda,en hann má sjá hér.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 12. janúar 2010

Ísinn næst landi 14 sjómílur NV af Straumnesi.

Mikil ferð er á ísnum.
Mikil ferð er á ísnum.

Ingibjörg Jónsdóttir hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sendi vefnum nýjustu myndina af hafísröndinni,en hún fylgist mjög vel með breytingu á ísnum oft á dag með Envisat ratsjámyndum.
Skv myndinni sem er síðan kl 12:00 á hádegi er ísinn næstur landi 14 sjómílur NV frá Straumnesi og 22 sjómílur NA af Hornbjargi.
Mikil ferð er á ísnum og eru sjófarendur beðnir að sigla með gát á þessum slóðum.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 12. janúar 2010

Árshátíð Átthagafélags Strandamanna.

Árshátíðin verður næstkomandi laugardag.
Árshátíðin verður næstkomandi laugardag.
1 af 2
Árshátíð Átthagafélags Strandamanna verður haldin í Gullhömrum, laugardaginn 16. janúar 2010.Húsið opnar kl. 19:00.

Borðhald hefst stundvíslega kl. 20:00.

M a t s e ð i l l

  • Skelfisksúpa með karrý og kókos
  • Sinnepsgljáður lambahryggvöðvi með sætum kartöflum, rjómasoðnum sveppum og rauðvínssósu
  • Heit eplakaka með karamellu- og beileyssósu
  • kaffi
 Veislustjóri: Karl E. Loftsson.

 

Til skemmtunar verður m.a.:

Danspar frá Spáni. María Carlos Fernandos og Carlos Fernandos

Systrasextettinn syngur nokkur lög

Leikþáttur

Ragnar Torfason stjórnar fjöldasöng.

Að borðhaldi loknu mun danshljómsveit Hauks Ingibergssonar, KLASSÍK leika gömlu og nýju danslögin.

Miðaverð kr. 7.800.

Miðasala verður í Gullhömrum fimmtudaginn 14. janúar frá kl. 17:00 - 19:00.

Hægt er að greiða félagsgjaldið, 1.200 kr. um leið og spara þannig seðilgjald.

Miðar verða seldir á dansleik eftir borðhald eða frá kl. 23:30 á 1.500 krónur.

Ath. að flest skemmtiatriðin eru heimatilbúin og miðaverðið það sama og í fyrra.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 12. janúar 2010

Fundur á Ísafirði um eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Frá fjórðungsþingi Fjórðungssambans Vestfirðinga í haust.Mynd Bæjarins besta.
Frá fjórðungsþingi Fjórðungssambans Vestfirðinga í haust.Mynd Bæjarins besta.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Samband íslenskra sveitarfélaga og Fjórðungssamband Vestfirðinga (FV) boða til sameiginlegs kynningarfundar á Ísafirði föstudaginn 15. janúar um nýjar leiðir til að efla sveitarstjórnarstigið.

Fundurinn er haldinn í kjölfar þess að nýlega undirrituðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga yfirlýsingu um að skipa samstarfsnefnd til að ræða og meta sameiningarkosti sveitarfélaga í hverjum landshluta. Nefndin skal kynna sér stöðu mála í einstökum landshlutum og viðhorf sveitarstjórnarmanna og almennings til sameiningar. Að því loknu skal hún leggja fram drög um sameiningarkosti í hverjum landshluta og verði þau lögð fyrir landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2010 til umræðu og álits. Að því loknu mun ráðherra leggja fyrir Alþingi áætlun um sameiningar sveitarfélaga til ársins 2014 sem byggist á umræðum og áliti landsþingsins.


Meira

Atburðir

« 2024 »
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Úr myndasafni

  • Húsið fellt 19-06-2008.
  • Norðurfjörður I -2002.
  • Ægir Thorarensen kemur á Agnesi Guðríði ÍS-800.
  • Þokuhattur á Reykjaneshyrnu,Mýrarhnjúkur fyrrir miðri mynd.Myndin tekin 14-08-2012.
  • Sperrur hífðar 29-10-08.
Vefumsjón