Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 24. júní 2008

Vegaframkvæmdir í Árneshreppi.

Efni mokað á bíl.
Efni mokað á bíl.
1 af 2

Vegaframkvæmdir.

Undanfarna daga hefur Vegagerðin á Hólmavík verið með vegaframkvæmdir í Árneshreppi.

Um er að ræða upphækkun vegar frá Sætravík um Sætrakleif og í Ytri Naustvíkur.

Keyrt er grófu efni í vegin til hækkunar síðan verður keyrt fínna efni yfir.

Á þessum slóðum í vor var mikil aurbleyta sérstaklega í Ytri Naustvíkum,og oftast ófært fyrir fólsbíla.

Að sögn vegagerðarmanna stendur til að harpað verði efni í sumar,sem fer í ofaníburð hér í Árneshreppi.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 24. júní 2008

Rauði krossinn með fata og-flóamarkað.

Frá brunanum að Finnbogastöðum 16-06-2008.
Frá brunanum að Finnbogastöðum 16-06-2008.
Frétt af  www.strandir.is
Rauði krossinn verður með fata- og flóamarkað á Hamingjudögum til styrktar Guðmundi Þorsteinssyni á Finnbogastöðum, en bær hans og allt innbú brann á dögunum. Um leið er rétt að minnast þess að Félag Árneshreppssbúa hefur hrundið af stað söfnun Guðmundi til stuðnings og jafnframt opnað bloggsíðu um átakið. Reikningsnúmer söfnunarinnar er 1161-26-1050 og kennitala reikningsins er 451089-2509. Slóðin inn á síðuna um uppbyggingu á Finnbogastöðum er www.trekyllisvik.blog.is.  

Í fréttatilkynningu kemur fram að Rauði krossinn þarf á sjálfboðaliðum úr hópi Rauða kross fólks að halda sem hefur tíma aflögu á laugardeginum (frá 13:30-16:00) til að afgreiða í básnum á Hamingjudagahátíðinni. Áhugasamir geta haft samband við Gunnar Melsted í 451-3389 / 690-3904 eða í netfangið gmelsted@mi.is .Þetta kemur fram á www.strandir.is

| mánudagurinn 23. júní 2008

Glæsilegri hátíð lokið -- í bili

Paulus heiðursgestur, ásamt Peter von Staffeldt fylgdarmanni og skólastjóra í afskekktasta skóla Norðurlanda
Paulus heiðursgestur, ásamt Peter von Staffeldt fylgdarmanni og skólastjóra í afskekktasta skóla Norðurlanda
Henrik sigraði í Kaffi Norðurfirði

Skákhátíðinni í Árneshreppi lauk á sunnudaginn með hraðskákmóti í Kaffi Norðurfirði og stórkostlegum bryggjutónleikum hjá Gömlum Fóstbræðrum. Hátíðin heppnaðist einstaklega vel og var mikil ánægja meðal gesta og keppenda. Þegar hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn á næsta ári.

Stórmeistarinn Henrik Danielsen sigraði á hraðskákmótinu í Kaffi Norðurfirði, hlaut 5,5 vinninga í 6 skákum. Næstir kom alþjóðameistarinn Arnar Gunnarsson og Einar Valdimarsson. Keppendur voru alls 34, og létu heimamenn ekki sitt eftir liggja.

Í upphafi mótsins fengu staðarhaldarar í Kaffi Norðurfirði forláta skáksett að gjöf, svo nú geta gestir tekið skák hvenær sem þá lystir. Nokkrir keppendur árituðu kassann sem geymir taflmennina, svo nú má lesa þar nöfn Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, Halldórs Blöndal, Róberts Harðarsonar og Henriks Danielsen, að ógleymdum Paulusi Napatoq, hinum 16 ára gamla heiðursgesti hátíðarinnar frá Grænalandi.

Í mótslok var öllum boðið á tónleika Gamalla Fóstbræðra, sem komu gagngert á Strandir til að syngja á skákhátíðinni. Það var í senn hátíðleg og skemmtileg stund í sólinni í Norðurfirði þegar sjálf Fósturlandsins freyja ómaði milli fjallanna.
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 23. júní 2008

Gamlir Fóstbræður á Norðurfirði.

Súngið á bryggjunni.
Súngið á bryggjunni.
1 af 2
Í gær eftir hraðskákmótið hjá Hróknum inn á Kaffi Norðurfirði voru gamlir Fóstbræður mættir á staðin og súngu nokkur lög á bryggjunni á Norðurfirði undir stjórn Jónasar Ingimundarsonar.Í þessu frábæra veðri sem var í gær.
Fjöldi fólks var á svæðinu.
| laugardagurinn 21. júní 2008

Frækinn sigur Helga og frábær árangur heimamanna

Halldór Blöndal tefldi á Pálsmótinu. Hér ræðir hann málin við Jón Guðbjörn. Milli þeirra er Guðmundur í Ávík að hugsa næsta leik.
Halldór Blöndal tefldi á Pálsmótinu. Hér ræðir hann málin við Jón Guðbjörn. Milli þeirra er Guðmundur í Ávík að hugsa næsta leik.
Helgi Ólafsson stórmeistari vann frækinn sigur á Minningarmóti Páls Gunnarssonar í Djúpavík, sem lauk síðdegis á laugardag. Helgi fékk 8 vinninga í 9 skákum og var í forystu allan tímann. Næstur varð Björn Þorfinnsson, forseti Skáksambands Íslands, með 7 vinninga.

Mótið í gömlu síldarverksmiðjunni heppnaðist frábærlega. Keppendur voru alls 53 og komu úr öllum áttum. Heimamenn áttu vaska sveit, og vann Björn Torfason á Melum tvöfaldan sigur, var efstur Strandamanna og stigalausra skákmanna. Ingólfur í Árnesi hreppti annað sætið í báðum flokkum.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir varð efst kvenna, en gaf verðlaunafé sitt, 15 þúsund krónur, í söfnun til uppbyggingar Finnbogastaða eftir brunann mikla. Aðrir sigurvegarar létu heldur ekki sitt eftir liggja.

Helgi Ólafsson fékk 100 þúsund krónur í verðlaun fyrir sigurinn og glæsilega skál úr rekaviði eftir Valgeir Benediktsson í Árnesi.

 

Á morgun, sunnudag, verður hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði, nýju kaffihúsi Árneshrepps sem opnaði á þjóðhátíðardaginn. Mótið hefst kl. 12 og er öllum opið.

| föstudagurinn 20. júní 2008

Hraðskák og söngur í Kaffi Norðurfirði

Páll Gunnarsson
Páll Gunnarsson

Gamlir Fóstbræður munu taka lagið í Kaffi Norðurfirði á sunnudaginn klukkan 14, og slá þannig botninn í Skákhátíð Árneshrepps. Kórinn er, einsog nafnið gefur til kynna, skipaður gömlum kempum úr Fóstbræðrum, og verður á ferð um Strandir um helgina.

Hraðskákmótið í Kaffi Norðurfirði hefst klukkan 12 á sunnudaginn og er öllum opið.

En fyrst á dagskránni er Minningarmót Páls Gunnarssonar í Djúpavík, sem hefst klukkan 20 í kvöld. Fyrstu gestirnir komu í gær og er búið að breyta gömlu mjölgeymslunni í síldarverksmiðjunni í glæsilegan skáksal.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 19. júní 2008

Hreinsað til og síðan uppbygging að Finnbogastöðum.

Undirbúningur undir að fella húsið.
Undirbúningur undir að fella húsið.
1 af 8

Í kvöld voru veggir feldir niður af brunarústunum að Finnbogastöðum,var það hinn vandvirki gröfumaður frá Kolbeinsá Hannes Hilmarsson sem kom með beltagröfu norður til Guðmundar Þorsteinssonar og felldi inn veggi hússins af mikilli nákvæmni,því steyptir veggir voru uppistandandi og,fyrst var járn og þak fellt inn í grunnin og síðan gaflar og veggir feldir síðan var grafin mikil og djúp hola og öllu mokað í hana og möl og mold síðan jöfnuð yfir.

Nú er skrítið að sjá ekkert íbúðarhús að Finnbogastöðum.

Enn uppbygging hefst aftur í sumar með nýtt íbúðarhús hjá Guðmundi Þorsteinssyni,hann gefst ekkert upp þótt á móti hafi blásið.

Það má koma fram að nýrri bloggsíðu hefur verið komið á fót sem er hér á vefnum undir tenglar-Áfram Finnbogastaðir.Sem Hrafn Jökulsson stjórnar og skrifar um væntanlegu uppbyggingu að Finnbogastöðum og söfnunina.Minnt er á reikningsnúmerið sem er.1161-26-001050-ke:451089-2509.

Hér með er smá myndasyrpa af niðurrifinu sem Jón G.G.tók í kvöld.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 19. júní 2008

Skákveisla í Djúpavík.

Frá Djúpavík.Mynd af vef Hótel Djúpavík.
Frá Djúpavík.Mynd af vef Hótel Djúpavík.
1 af 2
Minningarmót Páls Gunnarsson í Djúpavík hefst á morgun, föstudaginn 20. júní, klukkan 20. Von er á fjölda skákmeistara sem munu etja kappi við vaska sveit heimamanna. Stigahæstir eru stórmeistararnir Helgi Ólafsson og Henrik Danielsen.

Sex alþjóðlegir meistarar mæta til leiks, þrír danskir og þrír íslenskir, þau Arnar Gunnarsson, Jón Viktor Gunnarsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem og FIDE-meistarinn Björn Þorfinnsson, forseti Skáksambands Íslands.

Af harðsnúnum áhugamönnum má nefna feðgana Halldór og Pétur Blöndal. Halldór var um árabil besti skákmaður Alþingis og er afar sókndjarfur. Hann tók þátt í fyrsta skákmótinu í sögu Grænlands, sem Hrókurinn efndi til árið 2003. Þar var Páll Gunnarsson einnig meðal keppenda.

Áhugaskákmenn í öllum styrkleikaflokkum hafa boðað komu sína til Djúpavíkur, ekki síst vinir og félagar Páls heitins úr Hróknum. Páll, sem ættaður var úr Steingrímsfirði, var einn af stofnendum Hróksins og sá sem flestar skákir tefldi fyrir félagið á Íslandsmóti skákfélaga.

Skákmótið fer fram í síldarverksmiðjunni í Djúpavík og hafa heimamenn unnið hörðum höndum að því að breyta gamalli mjölgeymslu í glæsilegan skáksal.

Heimamenn, og þeir sem eru á ferð um Árneshrepp, eru hvattir til að koma og tefla eða fylgjast með. Allir eru velkomnir
Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 18. júní 2008

Kaffi Norðurfjörður opnað.

Edda Gulli Oddný oddviti og Eva.
Edda Gulli Oddný oddviti og Eva.
1 af 3

Nýtt kaffihús var opnað formlega á Norðurfirði í gær kl 18:00 sem hefur fengið nafnið Kaffi Norðurfjörður.

Edda Hafsteinsdóttir er með kaffihúsið í rekstrarleigu og rekur kaffihúsið af sveitarfélaginu Árneshreppi.Vínveitingaleyfi er fengið fyrir staðin.

Í gömlu verbúðinni sem var gjörbreytt í vetur,er fyrir utan hina nýju kaffistofu er útibú Sparisjóðs Strandamanna,aðstaða fyrir lækni í einu herbergi og útleiga á tveim herbergjum fyrir sjómenn eða aðra.

Frábært útsýni er úr kaffihúsinu til sjávar yfir höfnina og út á fjörðin.

Búast má við mikilli traffik í sumar af ferðafólki sem fer norður á Hornstrandir með Sædísinni bát Reimars Vilmundarsonar en fjöldi fólks hefur pantað í ferðir hans.

Upplagt er fyrir fólk að koma við og slappa af og fá sér veitingar á Kaffi Norðurfirði meðan beðið er eftir Sædísinni og þegar komið er til baka af Hornströndum.

Fjöldi gesta auk heimamanna voru við opnunina.

 

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 16. júní 2008

Tilkynning frá Félagi Árneshreppsbúa.

Frá Finnbogastöðum í dag.
Frá Finnbogastöðum í dag.

Vegna stórbrunans á Finnbogastöðum.

Þar sem ljóst er að Guðmundur Þorsteinsson hefur misst hús sitt og innbú í brunananum hefur félagið opnað styrktarreikning til handa Guðmundi.

Reikningsnúmerið er:
1161-26-001050 ke:451089-2509,við Sparisjóð Strandamanna.

Er það bón mín og beiðni að allir,sem aflögu eru færir um stórt eða smátt leggi þessu lið og  bregðist við hið fyrsta.

Með fyrirfram þakklæti.

Kristmundur Kristmundsson formaður félags Árneshreppsbúa.

Atburðir

« 2025 »
« Júlí »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Úr myndasafni

  • Jakar útaf Litlu-Ávík togari á leið vestur.
  • Húsið fellt 19-06-2008.
  • Saumaklúbbur á Krossnesi 05-01-2007.
  • Flugstöðin Gjögurflugvelli.
Vefumsjón