Frækinn sigur Helga og frábær árangur heimamanna
Mótið í gömlu síldarverksmiðjunni heppnaðist frábærlega. Keppendur voru alls 53 og komu úr öllum áttum. Heimamenn áttu vaska sveit, og vann Björn Torfason á Melum tvöfaldan sigur, var efstur Strandamanna og stigalausra skákmanna. Ingólfur í Árnesi hreppti annað sætið í báðum flokkum.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir varð efst kvenna, en gaf verðlaunafé sitt, 15 þúsund krónur, í söfnun til uppbyggingar Finnbogastaða eftir brunann mikla. Aðrir sigurvegarar létu heldur ekki sitt eftir liggja.
Helgi Ólafsson fékk 100 þúsund krónur í verðlaun fyrir sigurinn og glæsilega skál úr rekaviði eftir Valgeir Benediktsson í Árnesi.
Á morgun, sunnudag, verður hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði, nýju kaffihúsi Árneshrepps sem opnaði á þjóðhátíðardaginn. Mótið hefst kl. 12 og er öllum opið.