Hákarlahjallinn í Asparvík.
Hákarl fyrst verkaður í Asparvík á Ströndum norður, til manneldis.
Sagt var að gott þætti að ,,berjast” á Strandir norður ef menn höfðu brotið af sér gegn valdsstjórninni, t.d. gagnvart sauðaþjófnaði eða stuld á öðru, mat eða fatnaði.
Árið 1601 flúði ógæfumaður af slíkum völdum á Strandi norður. Hann átti að hafa deytt sauð fjölskyldu sinni til bjargar. Var veturinn þetta ár kallaður Lurkur.
Kjaftað var að maðurinn hafi flúið á Strandir norður til að komast undan valdsstjórninni. Þá var og greint frá að hann héldi til í Asparvík á Ströndum norður.
Fulltrúi valdsstjórnarinnar, þá búandi í Hrútafirði, innarlega í Strandasýsu, hafi farið við fjórða mann til Asparvíkur til að sækja sakborninginn og koma honum undir hendur valdsstjórnarinnar.
Fulltrúinn og hans menn voru allir haldnir skyrbjúg og yðrameini. Voru fulltrúinn og hans menn mjög illa þokkaðir af öllum í Strandasýslu vegna yfirgangs síns og dóma.
Tveimur árum áður, og árin þar á eftir, er þetta gerist, voru mikil harðindaár um land allt og fóru Strandamenn ekki varhluta af því frekar en aðrir. Ísa og snjóalög voru á og alger jarðbönn.
Bóndinn í Asparvík á Ströndum norður hafði farið út á ísinn með bát með vinnumanni sínum og veitt niður um ís. Fljótlega kom ,,ódráttur” á færið. Hann var snarlega aflífaður og honum síðan komið aftur niður um tilgerðu vökina.
Ekkert fiskmeti veiddist lengi vel. Aftur hljóp á færið ,,ódráttur” sínu stærri en sá er áður hafði á komið.
Líkaði bónda þetta illa og ákvað að fara í land með kvikindið, skera það í beitur og koma því fyrir í gröf í sjávarkambinum. Það var trú manna þá að ekki kæmi ,,ódráttur” á færið aftur ef það væri gert.
Lítið var til átu í þessum harðindum og eftir þrjá mánuði, ákvað bóndi að reyna að éta af ódrættinum sem hann haði grafið í fjöruborðið. Ekki var það með nokkru móti hægt, þannig að hann setti það upp í hjall hjá sér til þurrkunar, rétt eins og um fisk væri að ræða. Eftir mánaðar þurrkun prófaði bóndi aftur og allt fór á sömu leið, óætt. Beiturnar gleymdust í hjallinum og enginn reyndi að éta af ,,ódrættinum”
Á vormánuðum, kemur fulltrúi valdstjórnarinnar til Asparvíkur til að heimta sauðaþjóf sem spurnir höfðu farið af.
Auðvitað var sá hinn sami löngu flúinn norðar á Strandir.
Fulltrúinn og hans menn, voru eins og áður er sagt, allir með skyrbjúg og yðramein og illa þokkaðir. Þeir heimtuðu mat af bónda og sagðist bóndi eiga þvílíkt matarkynns að enginn færi soltinn frá hans húsum. Lét bóndi sækja beitu út í hjall til að færa fulltrúanum og hans mönnum, til að koma þeim endanlega fyrir. Átu þeir af og eftir nokkra daga vist í Asparvík urðu þeir alheilir. Skyrbjúgurinn og yðrakveisan hvarf algerlega. Eftir höfðinglegar móttökur hjá bónda í Asparvík á Ströndum norður treysti fulltrúinn sér ekki til að fara lengra norður og sneru þeir því til síns heima suður í Hrútafjörð.
Af bónda er það hins vegar að segja að hann sótti þegar til veiða og fékk fleiri ,,ódrætti” hákarl, sem hann gróf í fjörukambinn, og lét liggja í kös í þrjá mánuði og hengdi síðan upp til þurrkunar í 6 mánuði. Eftir það var hákarlinn étinn og þótti sérstaklega gott meðal m.a. til að leggja á sár sem illa gréru.
Asparvík á Ströndum norður er fyrsti staður á Íslandi þar sem hákarl er fyrst verkaður til manneldis.
Ferðamenn sem koma á Strandir norður ættu að heimsækja og skoða hákarahjallinn í Asparvík og geta upplifað þá sögu sem þar gerðist í verkun hákarls.
Sömuleiðis geta ferðamenn skoðað hákarlahjallin í Hamarsbæli á Selströnd.
Nú er búið að gera upp þessa hjalla bæði í Hamarsbæli og í Asparvík.
Sá sem hafði forystu um að láta gera upp þessa hákarlahjalla var Magnús Ólafs Hansson,og hefur hann sagt við fréttavef Litlahjalla að hann sé mjög stoltur af þeirri aðkomu og ekki síður eftir að hann hafði heyrt meðfylgjandi sögu.
Myndin hér með er frá Magnúsi Ólafs Hanssyni af hákarlahjallinum í Asparvík.
Jón G G.