Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 2. október 2009

Yfirlit yfir veðrið í September 2009.

Frá Melarétt í september.
Frá Melarétt í september.
Veðrið í September 2009.

Yfirlit yfir veðrið frá Veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Norðlagar vindáttir voru fyrstu viku mánaðar,síðan suðlægar vindáttir frá 9 með hlýindum til 19,síðan fór að kólna og voru vindáttir að mestu vestlægar eða norðlægar.

Vestan útsynningur var 25 og 26.

Fjöll urðu alhvít í fyrsta sinn að morgni 25.Og jörð (láglendi) flekkótt í fyrsta sinn í haust og fyrsta snjódýpt mædist að morgni 26,þá1 cm.

Berjaspretta var sæmileg en ekkert á við það í fyrra,sem var sennilega sögulegt met í berjasprettu.

Uppskera úr matjurtagörðum(rófur-kartöflur) var svona sæmileg,enn frekar smáar kartöflur.

Fé kom vænt af fjalli og meðalþúngi dilka var góður ,en slátrun hófst um miðjan mánuð.

 

Yfirlit dagar vikur.

1-3:Norðan eða NA stinningsgola síðan gola,súld,eða smá skúrir,hiti 4 til 7 stig.

4:Suðaustan eða A kul eða gola,lítils háttar skúrir.hiti 6 til 10 stig.

5:Norðvestan kul,þurrt,hiti 5 til 9 stig.

6-8:Norðlægar vindáttir gola síðan kaldi,súld eða rigning,hiti 6 til 9 stig.

9-18:Suðvestan eða suðlægar vindáttir,stinningsgola eða kaldi,en allhvass um tíma dagana 12,14 og 15,rigning eða skúrir,þurrt dagana 12 og 13,hiti 5 til 17 stig.

19-20:Suðaustan eða breytilegar vindáttir með golu,rigning þann 20,hiti 3 til 11 stig.

21-22:Norðan eða NV kaldi,stinningskaldi,síðan S kul,rigning og súld,en slydduél þann 22,hiti 2 til 6 stig.

23-24:Suðlæg vindátt eða breytileg,gola eða stinningsgola,þurrt þ.23,en rigning og slydda um kvöldið þ.24,hiti 1 til 10 stig.

25-26:Suðvestan og V,stinningsgola en allhvass þ.26,slydda eða snjókoma,síðan él,hiti1 til 5 stig.

27-28:Suðlæg vindátt kul,þurrt í veðri,hiti frá -2,4 stig uppí +5 stig.

29:Suðvestan kaldi uppí allhvassan vind um tíma,þurrt,hiti 0 stigum til 8 stig.

30:Norðan kaldi í fyrstu síðan stinningsgola,smá él um morguninn,hiti 2 til 3 stig.

 

Úrkoman mældist:57,8 mm(í september 2008:122,2 mm).

Þurrir dagar voru 8.

Mestur hiti mældist þann 13 þá +17,0 stig.

Mest frost mældist þann 28 þá -2,4 stig.
Flekkótt jörð var í 2 daga.

Mesta snjódýpt mældist að morgni 26 þá 1 cm

Meðalhiti við jörð var +3,77 stig (í september 2008:+5,65 stig).

Sjóveður:Var allsæmilegt nema dagana 8,21,26 og 30.

Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 1. október 2009

Snjómokstur í Árneshrepp.

Frá snjómokstri inn með Reykjarfirði.
Frá snjómokstri inn með Reykjarfirði.
Það er búið að gefa út þá yfirlýsingu að það verði ekki neinn snjómokstur í Árneshrepp í vetur til að spara fyrir Ríkið. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fólk komist leiða sinna og geti fengið læknisþjónustu o.s.frv.
Svona er yfirskrift á síðu á Facebook sem er hópur fólks sem er með áskoranir á Vegagerðina að vera með snjómokstur í Árneshrepp í vetur.
En fram hefur komið hjá Vegagerðinni að snjómokstri verði hætt um næstu mánaðarmót þegar flutningabíll hættir áætlun norður,en þá er ætlast til að Árneshreppsbúar hafi bara flugsamgöngur á Gjögur.
Á Facebook er fjöldi manna og kvenna búin að blogga um snjómoksturinn,og eru núna í kvöld komnir um 472 meðlimir.
Myndin sem er þarna með er af vefsíðunni Litlihjalli.it.is af snjómokstri í Reykjarfirði.
Hér má sjá þetta á Facebook.Fólk verður að skrá sig inn á Facebook til að geta skoðað viðkomandi síðu og skráð sig.
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 1. október 2009

Sveitarfélögum fækki úr 77 í 17.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ávarpar fjármálaráðstefnu sveitarfélaga á Hilton Nordica hóteli í morgun.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ávarpar fjármálaráðstefnu sveitarfélaga á Hilton Nordica hóteli í morgun.
Samhliða auknum verkefnum hljótum við að gera ríkari kröfu um það að öll sveitarfélög axli sína ábyrgð í uppbyggingu samfélagsins. Þetta á við bæði um velferðarþjónustuna og ekki síður um stuðning við atvinnulíf og menningu. Ekkert sveitarfélag má vera stikk frí í þessum efnum. Allra síst á þrengingartímum eins og þeim sem við nú upplifum. Það er ófært og í raun óliðandi að einstök sveitarfélög, jafnvel þau sem vel eru sett og nýta ekki tekjustofna sína til fulls bjóði ekki uppá fullar húsaleigubætur, félagslegt húsnæði eða sérstakar húsaleigubætur og  tryggi ekki lágmarks þjónustu við aldraða, fatlaða og þá sem standa höllum fæti á meðan önnur á sama svæði eiga i miklum erfiðleikum með að halda uppi lögboðnu þjónustustigi." sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í ræðu sinni á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, sem hófst á Hilton Nordica hóteli í morgun.

Jóhanna gerði nýlegt samkomulag Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að umræðuefni og kvað mikilvægt að sveitarstjórnarstigið yrði eflt m.a. með fækkun sveitarfélaga. „Við höfum í mörg ár, með mikilli fyrirhöfn, farið leið frjálsrar sameiningar og þótt hún hafi vissulega skilað miklum árangri í sameiningu er enn langt í land að mínu mati. Eins og bent hefur verið á er meira en helmingur allra sveitarfélaga á Íslandi með færri en eitt þúsund íbúa og það gengur ekki í mínum huga. Ég tel það raunsætt og raunar mjög mikilvægt vegna vaxandi hlutverks sveitarfélaganna og síaukinna verkefna að þeim fækki úr 77 í 17 á næstu árum."

Í lokaorðum sínum sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að allir geti tekið þátt í endurreisninni en mikilvægt væri að draga lærdóm af hruninu. „Við þurfum líka að draga lærdóma af þróun mála á húsnæðismarkaði undanfarin ár og misseri og gera það sem í okkar valdi stendur til að forða samfélagi okkar frá því að sama sagan endurtaki sig. Húsnæðisöryggi fólks á ekki að verða ofurselt duttlungum markaðarins. Séreignastefnan sem nánast eini valkostur fólks hefur að mínu viti runnið sitt skeið og nýtt húsnæðiskerfi, þar sem raunverulegt val getur staðið á milli búsetuforma hlýtur að taka við. Við þurfum að tryggja virkan leigumarkað, efla búseturéttarformið og setja bönd á markaðsöflin þegar kemur að húsnæði fólks."

Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á fjármálaráðstefnu 2009

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 1. október 2009

Tækifærin eru fjölmörg.

Halldór Halldórsson formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga flytur ræðu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga flytur ræðu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2009 á Hilton Nordica hóteli í morgun. Í lok setningarræðu sinnar brýndi formaðurinn sveitarstjórnarmenn til þess að þétta raðirnar á ráðstefnunni: "Verkefnin eru næg og við göngum til þeirra af vinnugleði og vissu um gagnsemi þeirra fyrir íbúa landsins. Það er full ástæða til þess að líta til sveitarfélaganna og árangurs þeirra við erfiðar aðstæður. Þau leita allra leiða til að finna nýjar leiðir í samstarfi við atvinnulífið. Tækifærin eru fjölmörg og aldrei hefur verið mikilvægara að nýta þau í þágu þjóðarinnar."
Ræðu Halldórs má sjá í heild hér
Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 30. september 2009

Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 21 til 28 september 2009.

Sex umferðaóhöpp í síðustu viku.Mynd Lögregluvefurinn.
Sex umferðaóhöpp í síðustu viku.Mynd Lögregluvefurinn.

Í s.l. viku voru þrír teknir fyrir of hraðan akstur í nágrenni við Ísafjörð og 6 umferðaróhöpp urðu í umdæminu. 

Miðvikudaginn 23  urðu tvö óhöpp.Minniháttar óhapp á Suðureyri og útafakstur á Rauðasandsvegi milli Patreksfjarðar og Rauðasands, þar var erlendur ferðamaður á ferð og missti vald á bílnum í lausamöl og bifreiðin hafnaði út fyrr veg, ekki slys á fólki, en talsverðar skemmdir á bifreiðinni. Föstudaginn 25 varð umferðaróhapp við gatnamótin þar sem ekið er upp á nýja veginn um Arnkötludal, þar missti ökumaður vald á bifreiðinni og hún hafnaði fyrir utan veg.  Ekki slys á fólki.Laugardaginn 26 var umferðaróhapp á Súgundarfjarðarvegi, þar hafnaði bíll út af vegi, ekki slys á fólki, tvö önnur óhöpp urðu þann sama dag, annað á Hnífsdalsvegi og hitt á Skutulsfjarðarbraut, þar höfnuðu sitt hvort ökutækið út fyrir veg.  þar voru akstursskilyrði ekki góð og eru það hugsanlega orsök óhappanna.  Lögreglan vill brýna fyrir ökumönnum að gæta varúðar nú sem endranær þar sem akstursskilyrði fara  mjög versnandi á þessum árstíma.

Þá er enn nokkuð um að ekið hafi verið á búfé í umdæminu og vill lögregla enn og aftur vara vegfarendur við að gæta varúðar, þar sem fjárrekstrar eru og fé að koma af fjalli.

Lögregla áminnti nokkra ökumenn vegna ljósabúnaðar í liðinni viku og vill lögregla ennfremur benda ökumönnum á ljósabúnað, hafa ljósabúnað í lagi.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 25. september 2009

Alhvít fjöll í morgun.

Alhvít fjöll í fyrsta sinn í haust.Fjallið Örkin 634 m að hæð í suður frá L-Á.
Alhvít fjöll í fyrsta sinn í haust.Fjallið Örkin 634 m að hæð í suður frá L-Á.
Það snjóaði talsvert í nótt,reyndar var komin bullandi slydda uppúr kl 22:00 í gærkvöld og síðan varð snjókoma fram á morgun.
Á veðurstöðinni í Litlu-Ávík var jörð (láglendi) flekkótt í fyrsta sinn í haust og fjöll alhvít í fyrsta sinn á þessu hausti.
Úrkoman varð mikil í nótt eða 21,2 mm hitin er lár og fór neðri 0,8 stig í nótt úr 6,0 stigum í gær.Klukkan 09:00 var hitinn komin í 2,4 stig.
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 24. september 2009

Davíð og Haraldur ritstjórar Morgunblaðsins.

Óskar Magnússon útgefandi MBLkynnir,nýja ritstjóra Morgunblaðssins þá Davíð og Harhald,og uppsögnum á starfsmönnum á starfsmannafundi á mbl í dag.Mynd Jón Pétur.mbl.is.
Óskar Magnússon útgefandi MBLkynnir,nýja ritstjóra Morgunblaðssins þá Davíð og Harhald,og uppsögnum á starfsmönnum á starfsmannafundi á mbl í dag.Mynd Jón Pétur.mbl.is.
Fréttir MBL.ÍS
Óskar Magnússon útgefandi Morgunblaðsins, tilkynnti á starfsmannafundi hjá Árvakri nú síðdegis að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri, og Haraldur Johannessen, ritstjóri Viðskiptablaðsins, hefðu verið ráðnir ritstjórar Morgunblaðsins.

Einnig kom fram hjá Óskari, að 30 starfsmönnum fyrirtækisins hefði verið sagt upp í dag.  Að auki renni nokkrir tímabundnir ráðningarsamningar út fljótlega og verði þeir ekki endurnýjaðir. Samtals fækki því um tæplega 40 starfsmenn hjá Árvakri. Þessi fækkun nær til allra deilda blaðsins en flestir hverfa af ritstjórninni eða 19 af 104 sem þar hafa starfað að undanförnu.  Margir þeirra, sem sagt var upp í dag, voru starfsmenn sem höfðu margra áratuga starfsaldur.

Gert er ráð fyrir að þeir Davíð og Haraldur mæti til starfa á morgun. Óskar sagði að eigendur blaðsins hefðu átt þann kost að reyna að halda sjó og þrauka á meðan ástandið í þjóðfélaginu sé eins og það er. Ómögulegt væri að segja hvernig það hefði tekist en ákvörðun um tvo ritstjóra fæli í sér aðra aðferðafræði. Þess verði nú freistað að fá byr í seglin og sigla gegnum brimgarðinn. Í þeirri siglingu væru þeir Davíð og Haraldur afar hæfir, hvor á sinn hátt. 

Óskar sagði, að menn vissu vel að fjölmiðlar Árvakurs nytu óskoraðs trausts þjóðarinnar og því trausti ætluðu þeir ekki að bregðast. „Við munum áfram flytja óhlutdrægar, heiðarlegar og sanngjarnar fréttir af öllu sem máli skiptir, eigendum Árvakurs jafnt sem öðrum. Í þeim efnum mun ekkert breytast," sagði Óskar. Hann sagði á fundinum að  ekki væri gert ráð fyrir breytingum á fréttastjórn Morgunblaðsins.

Fram kom hjá Óskari, að þeim aðgerðum, sem nú hafi verið gripið til, sé ætlað að koma rekstri Árvakurs í jafnvægi en erfiðleikar hefðu verið í rekstri félagsins undanfarin ár. Framundan væri umtalsverð barátta þar sem Árvakur muni hvergi gefa eftir. Á næstunni verði meðal annars gerð sú breyting að sunnudagsblaði Morgunblaðsins verði dreift á laugardagsmorgni með laugardagsblaðinu.

Óskar sagði að sunnudagsblaðið verði áfram sjálfstætt og efnismikið blað með ferskum og fjölbreyttum efnistökum. Þá hefði einnig verið greint frá samstarfi við Skjá 1 um fréttaútsendingar en með því fengist betri nýting á því efni sem unnið er á ritstjórninni án þess að stofnað sé til aukins kostnaðar.

www.mbl.is

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 22. september 2009

Hvers virði er ferðaþjónustan? Málþing SGS og Matvís.

Málþingið hefst á Hótel Ísafirði á fimmtudaginn.
Málþingið hefst á Hótel Ísafirði á fimmtudaginn.
Starfsgreinasamband Íslands og Matvís, Matvæla og veitingafélag Íslands halda opið málþing á Hótel Ísafirði 24. september 2009 um framtíðarsýn í ferðaþjónustu. Málþingið, sem er haldið í samvinnu við Ferðamálsamtök Vestfjarða og Markaðsstofu Vestfjarða mun leitast við að svara spurningum um það hvers virði ferðaþjónustan er í atvinnusköpun á Íslandi og hvað þurfi til að fjölga störfum í greininni og gera þau verðmeiri. Frummælendur koma úr röðum atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, launþegahreyfingarinnar og stjórnsýslunnar auk þess sem iðnaðarráðherra mun fytja ávarp. Eftir hverja framsögu ! verða fyrirspurnir og stuttar umræður. Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður VerkVest stjórnar málþinginu.
Málþingið gæti orðið mikilvægt innlegg í þá umræðu sem hefur orðið um stöðu ferðaþjónustunnar í þeim efnahagsþrengingum sem herja á landann. Þá ætti einnig að vera lag hjá vestfirskum ferðaþjónum að taka virkan þátt í umræðum á málþinginu með það að leiðarljósi að efla uppbyggingu ferðaþjónustunnar í heimabyggð.


Skráning á málþingið fer fram á skrifstofu VerkVest í síma 4565190 eða finnbogi@verkvest.is.


Dagskrá málþingsins verður þannig:

Staður: Hótel Ísafjörður, fimmtudaginn 24.09.09


Meira
Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 22. september 2009

Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 14 til 21 september 2009.

Sá sem hraðast ók var tekin á 123 km hraða.
Sá sem hraðast ók var tekin á 123 km hraða.

Í s.l. viku voru fimm stöðvaðir fyrir hraðakstur í nágrenni við  Ísafjörð og sá sem hraðast ók, var mældur á 123 km/klst þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst.

7 tilkynningar bárust lögreglu í vikunni um að ekið hafi verið á búfé í umdæminu og vill lögregla enn og aftur brýna fyrir ökumönnum að gæta varúðar á þjóðvegunum þar sem nú er smalatími og fé að koma af fjalli.

Föstudaginn 18 barst tilkynning til lögreglu um að vegfarandi sem leið hafi átt um Kjálkafjörð, hafi skotið á hóp af álftum, sem þar var á flugi.  Málið er í rannsókn lögreglu.

Miðvikudaginn 16 varð mjög alvarlegt vinnuslys í Kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal.  Þar var unnið við uppsetningu á búnaði og einn af þeim sem var að vinna við verkið hrapaði rúma 4 metra niður á steingólf og hlaut við það alvarlega höfuðáverka.  Var hinn slasaði fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann gekk undir aðgerð.

Þá vill lögregla benda foreldrum og forráðamönnum barna og unglinga á notkun endurskynsmerkja og viðeigandi öryggisbúnaðar á reiðhjólum þegar þau eru notuð.  Lögregla heldur uppi eftirliti í nágreni við leikskóla og grunnskóla umdæmisins.

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 19. september 2009

Réttað var í Kjósarrétt í dag.

 Lambhrútur kom í réttina í Kjós í gær sem er með fjögur horn,eða fjórhyrndur.
Lambhrútur kom í réttina í Kjós í gær sem er með fjögur horn,eða fjórhyrndur.
1 af 3
Leitað var í dag annað og þriðja leitarsvæði samkvæmt fjallskilaseðli Árneshrepps.

Annað leitarsvæði er leitað þannig:

Leitin hófst við Naustvíkurgil og  Búrfell. Leitað var svæðið  milli þessara staða fram að Reykjafjarðartagli og til sjávar í Reykjarfirði og síðan til Kjósarréttar og réttað þar.

Sama dag er þriðja leitarsvæði leitað og er leitað þannig:Leitin hófst við Búrfell,og leitað er fjalllendið frá Búrfelli og út Kjósarfoldir,með Háafelli og til sjávar að Kleifará.Féð er síðan rekið í Kjósarrétt.

 

Áður var búið að smala eyðijarðirnar syðst í hreppnum.

Á fimmtudag var smalað frá Spena það eru hreppsmörk Kaldaðarneshrepps og Árneshrepps,og til Veiðileysu og rekið í rétt þar.

Tekið var frá þar og öllum lömbum keyrt heim á tún bænda sem áttu fé þar.

Á föstudaginn var smalað frá Veiðileysu og kringum Kamb og með sjónum til Djúpavíkur og fé rekið í Kjós og réttað

í Kjósarrétt.

Þar var dregið og lömb sett á vagna og kerrur og keyrð heim,enn ær skyldar eftir nema sem fer í slátrun.

Það má segja að föstudagurinn sé eins mikill dagur í Kjósarrétt eins og sjálfur skylduleitardagurinn í dag,jafnvel fleira fé og eins mikið af fólki.

Smala og leitarmenn fengu að mestu sæmilegt veður en suðvestan kaldi með skúrum á fimmtudag,og aðeins skúravottur í gær en í dag léttskýjað og kul.

Atburðir

« 2026 »
« Janúar »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Úr myndasafni

  • Drangavík 18-04-2008.
  • Skip á Norðurfirði.
  • Hótel Djúpavík-16-08-2006.
  • Frá Gjögri sést til Grænhóls-Víganes og Kjörvogs.
Vefumsjón