Guðbjörg Lind Jónsdóttir vinnur við uppsetningu verka sinna.
Bollar yfir vaski,eitt verka Guðbjargar Lind Jónsdóttur.
Séð inn um dyr,eitt verka Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá.
Um síðastliðna Verslunarmannahelgi var sett upp sýning í Ólafsbragga á Ströndum, og var honum þá breytt tímabundið í kvennabragga í tilefni þess að 8 myndlistarkonur hreiðruðu um sig í matsalnum og íbúðinni kennd við Ófeig á neðri hæð braggans.
Sýningin er sjálfstætt framhald af samsýningu hópsins "Lýðveldið Ísland" sem haldin var í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ árið 2004, í gamla mötuneytinu, og tileinkuð var 60 ára afmæli íslenska lýðveldisins.
Sýningin í Ólafsbragga er hluti af þríþættu sýningarhaldi. Fyrsta sýningin í ár var haldin í vor í gamalli heyhlöðu við Mývatn og Reykjahlíðakirku og nefndist "Lýðveldið við vatnið". Þriðja og síðasta sýning þessa árs verður opnuð í september í Álafosskvosinni.
Myndlistarkonurnar sköpuðu verk sín út frá hugmyndum um íslenska lýðveldið í tengslum við menningarsögu og nátturulegt umhverfi sýningarstaðanna.
Opnunin gekk vonum framan og taldist mönnum til að um 250 manns hafi mætt á fyrsta sýningardegi þann 1. ágúst, en 50 á þeim seinni, 2.
ágúst. Kom það skemmtilega á óvart því haft var á orði að þar hefðu
komið fleiri sýningargestir en á margar opnanir í höfuðborginni.
Sýningaraðstaðan var með besta móti þó að þar hafi ekki verið hvítir veggir og rafmagnsljós til að lýsa upp verkin, en þokumóða og kertaljós gáfu sýningunni dulrænan blæ á þann hátt að seint verður leikið eftir.
Myndlistarkonurnar voru allar hæstánægðar yfir viðtökunum og mun þessi sýning lifa lengi í minningunni.