Ferðastiklur á RÚV
Meira
Tíundu tónleikar Malarinnar fara fram laugardagskvöldið 12. apríl. Þar kemur fram Hljómsveitin Eva sem hefur á undanförnum mánuðum getið sér gott orð fyrir skemmtilega tónlist, hnyttna texta og lifandi sviðsframkomu. Hljómsveitina skipa þær Sigríður Eir Zophoníasardóttir og Jóhanna Vala Höskuldsdóttir sem stofnuðu hljómsveitina þegar þær voru saman í leiklistarnámi við Listaháskóla Íslands og nefndu sveitina eftir kærustum sínum. Þær vöktu fljótlega talsverða athygli og hafa síðan sveitin var stofnuð komið víða fram við fádæma undirtektir.
Sveitarfélögin á Vestfjörðum ásamt samstarfsaðilum á landsvísu og ferðaþjónum á Vestfjörðum hafa ákveðið að sækja fram og eru að fara af stað í stórt þriggja ára markaðsátak. Verkefninu verður stýrt af Markaðsstofu Vestfjarða en þetta er stærsta markaðsverkefnið sem sveitarfélögin hafa farið í frá upphafi. Verkefninu er ætlað að vekja athygli á Vestfjörðum sem áfangastað ferðamanna og ýta undir þá jákvæðu ímynd sem Vestfirðir hafa nú þegar. Verkefnið snýst að töluverðu leyti um starfrænt ferðalag um Vestfirði sem verður samansett af áhugaverðu myndefni sem sýnir allt það sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða. Það eru mjög margir sem þurfa að koma að borðinu til þess að svona stórt og ítarlegt verkefni geti gengið upp, ber þar að nefna samstarfsaðila líkt og Icelandair, Flugfélag Íslands, Hertz, Símann, N1 og ferðaþjónar á Vestfjörðum.
Tólf ökumenn voru stöðvaðir í liðinni viku fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Sá sem hraðast ók var mældur á 120 km/klst., þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst. Eitt minniháttar umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu á Patreksfirði. Þar var ekið utan í bíl, ekki vitað um tjónvald. Skráningarnúmer voru tekin af fimm bifreiðum í vikunni, þar sem tryggingar voru ekki í gildi.
Allt frá því að ný raforkulög tóku gildi árið 2005, með aðskilnaði orkufyrirtækja í dreifiveitur og sölufyrirtæki, hefur dreifikostnaður raforku í dreifbýli hækkað langt umfram það sem þekkist í þéttbýli. Stjórnvöld hafa leitað leiða til að lækka raforkuverð í dreifbýli til jafns við það verð sem er hæst í þéttbýli. Veitt hefur verið sérstakri fjárveitingu til að jafna þennan kostnað, svokallað dreifbýlisframlag. Fyrir Alþingi liggur frumvarp sem gerir ráð fyrir að dreifbýlisframlagið hækki á næstu þremur árum þannig að dreifing raforku í dreifbýli verði til samræmis við dreifikostnað í þéttbýli. Þessu verður mætt með jöfnunargjaldi sem leggst á hverja kWst hjá almennum notendum sem nemur 10 aurum á kWst á ári á næstu þremur árum.
Á fjárlögum ársins 2014 er varið 544 m.kr til jöfnunar kostnaði við dreifingu raforku sem er aukning um 304 m.kr. frá árinu á undan.
Lögreglunni á Vestfjörðum hefur bæst liðsauki. En í dag lét ríkislögreglustjóraembættið lögreglunni á Vestfjörðum í té fíkniefnaleitarhund sem mun verða staðsettur á Ísafirði og þjónusta allt umdæmið. Hundurinn er af labradorkyni og ber nafnið Tindur. Hann hefur hlotið þjálfun hjá Steinari Gunnarssyni, yfirhundaþjálfara hjá ríkislögreglustjóraembættinu. Þórir Guðmundsson, lögreglumaður mun hafa hundinn í sinni umsjá og viðhalda þjálfun hans. Fíkniefnaleitarhundur hefur ekki verið á Vestfjörðum frá því í nóvember 2011. En þá skilaði embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum fíkniefnaleitarhundinum Dollar til ríkislögreglustjóraembættisins. Ástæðan var fjárskortur vegna niðurskurðarkrafna fjárveitingavaldsins. Nú sér embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum fram á bjartari tíma og óskaði því eftir því að fá aftur í þjónustu sína fíkniefnaleitarhund.
GamanYfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.
Mánuðurinn var mjög umhleypingasamur í heild. Fyrstu fjóra dagana voru norðaustanáttir með talsverðri snjókomu þann 2. Síðan voru suðlægar vindáttir í þrjá daga. En gekk í norðaustan og norðan 8.og 9.,með snjókomu. Frá tíunda til þrettánda voru mest suðlægar vindáttir,eftir það voru NA eða A- lægar vindáttir,en SV eða V þann 16. Þá gerði norðaustan með hvassviðri eða stormi nítjánda til tuttugusta og fyrsta og talsverðri snjókomu. Þann 24 voru komnar suðlægar vindáttir með hlýindum og talsverðri rigningu fram til 27. Síðustu daga mánaðar var hægviðri með hita yfir daginn en frosti á nóttinni og þurru og fallegu veðri.