Vikan hjá lögreglunni á Vestfjörðum 3. til 10. mars 2014.
Fyrri part þriðjudagsins 4. mars sl. voru unnar skemmdir á vélarhlíf og þaki grárrar Toyotu Corolla bifreiðar sem stóð á bifreiðastæði við Menntaskólann á Ísafirði. Einhver er talinn hafa gert sér að leik að stíga eða leggjast á vélarhlíf og þak bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að dældir og rispur hlutust af. Atvikið er talið hafa átt sér stað fyrri part þriðjudagsins 4. mars sl. Ekið mun hafa verið utan í mannlausa bifreið sem stóð á bifreiðastæði við Fjarðarstræti 4-6 á Ísafirði í vikunni. Bifreiðin, sem ekið var á, er rauð Nissan Almera. Áreksturinn er talinn hafa átt sér stað 4. eða 5. mars sl. Lögreglan hvetur þá sem einhverja vitneskju hafa um þessi tvö tilvik að gera viðvart í síma 450 3730. Eigendur bera tjónið sem af þessu háttarlagi hlaust, nema sá sem þeim olli gefi sig fram eða mál upplýsist. Kl.12:22 þann 6. mars barst lögreglu og Neyðarlínu aðstoðarbeiðni vegna ökumanns vélsleða við Þorskafjarðarheiði. Lögregla frá Hólmavík, björgunarsveitin Mannbjörg í Reykhólasveit, sjúkraflutningamenn frá Búðardal og þyrla LHG tóku m.a. þátt í björgun ökumanns vélsleðans, sem mun hafa fótbrotnað. Talið er að maðurinn hafi fallið af vélsleðanum við akstur við rætur Þorskafjarðarheiðar. Hann var fluttur með þyrlu LHG til Reykjavíkur þar sem hann gekkst undir aðgerð.
Meira