Nytjar á sel til matar á Íslandi fyrr og nú.
Fimmtudaginn 27. janúar n.k. verður haldinn opinn fræðslufundur á vegum félagsins Matur-saga-menning. Fundurinn er sá þriðji í röð fræðslufunda á vegum félagsins þennan vetur og fjalla þeir allir um nytjar á villtum dýrum úr íslenskri náttúru, bæði fyrr og nú.
Að þessu sinni verður fjallað um hvernig íslendingar nytjuðu seli til matar, en við Ísland kæpa tvær tegundir sela, landselur og útselur, auk þess sem hánorrænu tegundirnar vöðuselur, kampselur, blöðruselur og hringanóri hafa hér viðkomu í mismiklum mæli.
Pétur Guðmundsson frá Ófeigsfirði, formaður samtaka selabænda og Guðmundur Ragnarsson veitingamaður munu flytja erindi um á hvern hátt íslendingar nýttu seli til matar og hvernig hægt er að nýta selaafurðir á nýstárlegan hátt. Pétur er þekktur fyrir kunnáttu sína á hlunnindanytjum og Guðmundur Ragnarsson er matreiðslumeistari og fyrrverandi landsliðskokkur og býr yfir sérfræðiþekkingu á nýtingu íslenskra villtra dýra úr náttúru Íslands.
Fundurinn verður haldinn í sal ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121 RVK, 4. hæð, kl. 20 til 22. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Þetta má sjá á vefnum matarsetur.is