Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 7. febrúar 2011

Vantar ýsukvóta.

Frá Norðurfirði.
Frá Norðurfirði.

Sjómenn við Steingrímsfjörð á Ströndum segjast ekki getað róið lengur vegna skorts á ýsukvóta og skora á sjávarútvegsráðherra að bæta við kvótann og liðka fyrir framsali þegar í stað.

Þeir benda á að mikil ýsugengd hafi verið í Húnaflóa undanfarin ár, nokkuð sem ekki þekktist á viðmiðunarárum kvótans. Þar af leiðandi sé ýsukvóti bátanna í engu samræmi við ýsugengd á fiskislóð þeirra.

Nú er svo komið að ekki er hægt að róa vegna skorts á ýsukvóta. Leiguverð á ýsukvóta hefur hækkað verulega og framboð á leigukvóta er lítið sem ekkert,segir í ályktuninni.

Fram kemur að við Steingrímsfjörð starfi ríflega 20 útgerðir, tvö fyrirtæki í vinnslu á bolfisk og fiskmarkaður. Þessi fyrirtæki séu grunnstoðir byggðarlagsins.
Þetta kemur fram á vef Fiskifrétta.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 4. febrúar 2011

Eignuðust barn í bæli á Ströndum.

Drangavík á Ströndum.
Drangavík á Ströndum.

Rannsókn á áður ókunnum skjölum um útileguhjúin Fjalla-Eyvind og Höllu hefur m.a. leitt í ljós að þau eignuðust barn í útilegubæli í Drangavíkurfjalli á Ströndum í mars árið 1763, skömmu áður en þau voru handtekin fyrir sauðaþjófnað og dæmd til ævilangrar refsivistar. Áður en til þess kom struku þau. Lík af ungbarninu fannst í bælinu eftir handtökuna, en barnið lifði aðeins í tvo daga.

Björk Ingimundardóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafninu, komst að þessu er hún fór að rýna í skjöl um yfirheyrslur yfir þeim hjúum, sem fram fóru í Árnesi í Trékyllisvík og á Hrófbergi við Steingrímsfjörð vorið 1763. Dómur var svo kveðinn upp í Broddanesi í Kollafirði 30. maí sama ár.

Björk segir í samtali við Morgunblaðið að til þessa hafi dvöl þeirra í Drangavíkurfjalli og líkfundur á barninu ekki verið alkunna. Það komi einnig ýmislegt fram í yfirheyrslunum sem staðfestir að þau hafi áður verið á Hveravöllum en þó ekki haft þar vetursetu. Nánar verður greint frá þessari rannsókn í grein sem Björk er að vinna fyrir tímarit Strandamannafélags Reykjavíkur, Strandapóstinn.
Þetta kemur fram á Morgunblaðsvefnum og einnig er umfjöllun um þetta í Morgunblaðinu í dag.
Nánar á netútgáfu Morgunblaðsins.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 4. febrúar 2011

Loks flogið á Gjögur.

Flugvél Ernis á Gjögurflugvelli.
Flugvél Ernis á Gjögurflugvelli.
Loks tókst að fljúga á Gjögur í dag en ekki hefur verið hægt að fljúga þangað fyrr í vikunni vegna veðurs,síðast var flogið þangað fimmtudaginn 27 janúar.

Þannig að nú kom viku póstur,vörur komu í Kaupfélagið og farþegar komu að sunnan.

Þannig nú ætti fólk að hafa nóg að lesa yfir komandi helgi.

Vegur var mokaður frá Gjögri og til Norðurfjarðar,ófært er til Djúpavíkur og suðurúr.

Sæmilegasta veður var í dag skýjað og hægur vindur.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 3. febrúar 2011

Alltaf ótíð.

Litla-Ávík.Ótíð er búin að vera og ekkert flug í viku.
Litla-Ávík.Ótíð er búin að vera og ekkert flug í viku.
Þessa viku er óhætt að segja með sanni að rysjótt veðurfar hafi verið og er,helst lítur út fyrir eftir veðurspám að slakki eitthvað í veðrinu á laugardag og verði sæmilegt fram yfir næstu helgi.

Ekkert hefur verið hægt að fljúga til Gjögurs þessa viku,en síðast var flogið þangað á fimmtudaginn 27 janúar og ekkert útlit fyrir að hægt verði að fljúga fyrr en á morgun í fyrsta lagi eða jafnvel ekki fyrr en á laugardag.

Í dag er Suðvestan stormur með éljum og hárenning (skafrenning) og miklum stormkviðum.

Svona fljótt á litið hafa kviður farið upp í  34 m/s á Gjögurflugvelli og í Litlu-Ávík uppí 32 m/s þótt jafnavindur sé ekki meiri enn 20 til 23 m/s.Frostið í dag hefur verið -1 til -3 stig.

Suðvestanáttin er alltaf slæm hér um slóðir,mjög kviðótt og vindur mjög misjafn.

Versta veðrið var í morgun og fram á hádegið aðeins hægari er nú um miðjan dag en á að hvessa aftur í kvöld.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 3. febrúar 2011

Nýjar fréttir af Fjalla-Eyvindi og Höllu.

Bærinn í Drangavík 18-04-2008.
Bærinn í Drangavík 18-04-2008.
Fyrir skömmu komu í leitirnar á Þjóðskjalasafni áður ókunn skjöl um veru Eyvindar og Höllu í Drangavíkurfjalli á Ströndum, barnsfæðingu þar og handtöku vorið 1763. Einnig réttarhöld yfir þeim í Árnesi í Trékyllisvík og á Hrófbergi við Steingrímsfjörð sama vor og dómur sem upp var kveðinn á Broddanesi í Kollafirði 30. maí sama ár. Kjartan Ólafsson, fyrrverandi alþingismaður og ritstjóri, heldur fyrirlestur um þessa merku uppgötvun undir titlinum Nýjar fréttir af Fjalla-Eyvindi á Ströndum. Fyrirlesturinn verður í Skelinni-Þjóðfræðistofu laugardaginn 5 febrúar kl 16:00,og heitt verður á könnunni og allir velkomnir.Frá þessu er sagt á Strandir.is
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 3. febrúar 2011

Námskeið um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi.

Guðrún frá Lundi.
Guðrún frá Lundi.

Námskeið í gegnum fjarfundabúnað frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Guðrún frá Lundi var 59 ára þegar hún gaf út sína fyrstu bók árið 1946, hún skrifaði síðan 27 bindi af skáldsögum, nærri 10.000 síður og þá síðustu þegar hún var 86 ára gömul. Hún var metsöluhöfundur í áratugi en ekki voru allir jafnhrifnir af vinsældunum og var hún nefnd drottning kerlingabókanna. Sjálf gerði Guðrún góðlátlegt grín að öllum látunum en hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði í einu blaðaviðtali, "Kerling eins og ég má ekki skrifa svona mikið".

Á námskeiðinu verður farið yfir ævi og störf Guðrúnar og þann heim sem verk hennar er sprottin upp úr. Rætt verður sérstaklega um Dalalíf sem kom út á árunum 1946-1951 en einnig um önnur verk s.s. Afdalabarn og Tengdadótturina.
Marín Guðrún Hrafnsdóttir, bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar hefur umsjón með námskeiðinu.
Nánar hér.

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 2. febrúar 2011

Viðvörun vegna vestan storms í kvöld og nótt.

Mjög dimmt verður í éljum og stormkviður.
Mjög dimmt verður í éljum og stormkviður.
Veðurstofa Íslands vill koma eftirfarandi viðvörun á framfæri:
Í kvöld er gert ráð fyrir vestan 18-23 m/s (stormi) með dimmum éljum við suðurströndina, en einnig brestur sama veður skyndilega á vestanlands um og eftir miðnætti og norðvestanlands þegar líður á nóttina eða undir morgun. Vindhraði í éljum gæti orðið 25-30 m/s og talsverðar líkur eru á að færð spillist sunnan- og vestanlands.
Á morgun dregur svo smám saman úr vindi og éljum.  
Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 2. febrúar 2011

Yfirlit yfir veðrið í Janúar 2011.

Ávíkuráin ruddi sig með jakahlaupi þann 22.janúar.
Ávíkuráin ruddi sig með jakahlaupi þann 22.janúar.
Veðrið í Janúar 2011.

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Mánuðurinn var með breytilegum vindáttum fyrstu tvo dagana,síðan var Norðan og Norðaustanáttir með frosti og ofankomu fram til 18,enn þann 19 gerði suðlægar vindáttir með hláku og miklum leysingum,og snjó tók hratt upp,fram til 30.Mánuðurinn endaði síðan með allhvassri austanátt með snjókomu og kólnandi veðri.

Þann 6 og 7 gerði Norðaustan og Norðan hvassviðri og eða storm með ofankomu og miklu frosti.

Annars var oft allhvasst eða hvassviðri í mánuðinum.

Oft varð röskun á flugi til Gjögurs vegna veðurs í mánuðinum.


Meira
Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 1. febrúar 2011

Arinbjörn er Strandamaður ársins 2010.

Arinbjörn byggði tvö smáhýsi í Norðurfirði til útleigu.
Arinbjörn byggði tvö smáhýsi í Norðurfirði til útleigu.
Allan janúarmánuð hafa Strandamenn keppst við að hugsa um það sem vel var gert í samfélaginu á síðasta ári í tengslum við kjör á Strandamanni ársins 2010. Nú liggur niðurstaðan í þeirri kosningu fyrir og stóð Arinbjörn Bernharðsson frá Norðurfirði uppi með heiðurinn og er réttnefndur Strandamaður ársins. Arinbjörn stóð fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í Árneshreppi á árinu 2010 og reisti í sumar tvö sumarhús í Norðurfirði á vegum fyrirtækisins Urðartinds ehf. 

Í umsögnum þeirra sem tilnefndu Arinbjörn sem Strandamann ársins kom skýrt fram að ferðaþjónustan í Norðurfirði hefur "slegið í gegn" og Arinbjörn hyggur á frekari uppbyggingu. Þá hefur hann unnið að atvinnuuppbyggingu við útgerð á Drangsnesi. Arinbjörn er í umsögnum sagður "efnilegasti ferðaþjónustubóndi ársins", "snillingur" sem "sýnir í verki hvar hjarta hans slær" og hefur "fjárfest manna mest á Ströndum". Hann er sagður "flottur karl" og "feikna öflugur trésmiður" sem "vandar vel til verka" og hefur "lagt mikið á sig til að auka ferðamannastraum á Strandir".
Nánar á www.strandir.is

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 1. febrúar 2011

Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 24. til 31. jan. 2011.

Nokkur umferðaróhöpp urðu í liðinni viku oftast vegna akstursskilyrða.
Nokkur umferðaróhöpp urðu í liðinni viku oftast vegna akstursskilyrða.

Nokkur umferðaróhöpp urðu í liðinni viku í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Akstursskilyrði voru misjöfn og breyttust á mjög skömmum tíma, lúmsk hálka myndaðist og víða var snjór á vegum.

Þriðjudaginn  25. jan.,hafnaði bifreið á kyrrstæðri bifreið á Sindragötu á Ísafirði, talsvert tjón á ökutækjum. Ökumaður fór á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar. Föstudaginn 28. jan. ,urðu fjögur óhöpp. Bifreið hafnaði út af veginum í Mikladal, milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Farþegi í þeim bíl fór á heilsugæslustöðina á Patreksfirði til skoðunar, um minni háttar meiðsl var að ræða. Bifreiðin óökuhæf og flutt af vettvangi með krana. Þá varð bílvelta á Djúpvegi við Reykjanes, þar slapp ökumaður án  meiðsla, en bifreiðin óökuhæf, flutt af vettvangi með krana. Þá varð óhapp á Þumlungsgötu við gamla hraðfrystihúsið á Ísafirði, þar hafnaði jeppi á ljósastaur og utan í kyrrstæðri bifreið, talsvert tjón á ökutækjum og ekki slys á fólki. Fjórða óhappið þennan dag varð síðan þegar bifreið hafnaði á umferðarmerki við gatnamót Mjósunds og Pollgötu.  Minni háttar skemmdir að ræða þar. laugardaginn 29. jan., varð árekstur á Ásgeirsgötu á Ísafiðri, þar lentu tvær bifreiðar saman, ekki um miklar skemmdir að ræða í því óhapp. Í öllum þessu óhöppum má rekja ástæður óhappanna til akstursskilyrða. 


Meira

Atburðir

« 2025 »
« Júlí »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Úr myndasafni

  • Lítill ísjaki ca 4 til 5 km NNA af Reykjaneshyrnu.17-01-2010.
  • Ólafur Thorarensen og Njáll Gunnarsson.
  • Borgarísjaki með tvo tinda er NNV við Reykjaneshyrnu ca 18 KM frá landi.26-08-2018.
  • Ís í Ávíkinni og sést til hafs.
Vefumsjón