Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 8. desember 2010

Nánar um hafískönnunina í gær.

Radsjármynd með upplýsingum um ískönnunarflug LHG í gær.
Radsjármynd með upplýsingum um ískönnunarflug LHG í gær.
Ingibjörg Jónsdóttir hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur nú merkt inn á radsjármynd stöðuna eftir ískönnunarflugið í gær,en hún var með í flugi Landhelgisgæslunnar.

Kortið á að skýra sig nokkuð sjálft,mikið var um nýmyndun á ís sem merkt er með bláum stjörnum.

Einnig eru borgarísjakarnir merktir inn og hæð þeirra,þá er miðað við hæð yfir sjávarmáli.

Ekkert bendir til þess að ísinn sé  kominn austur fyrir 21°V.

Það má segja að þetta sé samanburður á upplýsingum frá LHG og radsjármynd á sama tíma.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 7. desember 2010

Hafís 21,7 sml norður af Horni.

Stórir borgarísjakar sáust í ískönnunarfluginu.Mynd áhöfn TF-GNA.
Stórir borgarísjakar sáust í ískönnunarfluginu.Mynd áhöfn TF-GNA.
1 af 2
Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNA fór í dag í gæslu- og hafíseftirlit fyrir Vestfirði. Kom þyrlan að ísrönd sem liggur milli Íslands og Grænlands til austurs. Kemur ísröndin næst landi um 21,7 sjómílu norður af Horni, 25,3 sjómílur frá Straumnesi og 43,6 sjómílur frá Barða, þar er hafísinn orðinn samfrosinn og með stórum íshellum sem getað verið hættulegar skipum.

Þar sem ísinn er næst landi, eða 21,7 sml norður af Horni er ísinn nokkuð gisinn og virðist þar hafa átt sér stað talsverð nýmyndun á ís. Fyrir utan Straumnes var ísinn þéttur en þegar komið var að hafís sem staðsettur er 43,6 sml frá Barða var ísbreiðan samfrosinn með stórum íshellum. Sáust þar fimm stórir borgarísjakar sem voru frá 30 metrum og upp í 110 metra á hæð (turn Hallgrímskirkju er 74,5 m) . Ekki er talin stafa mikil hætta af sjálfum borgarísjökunum þar sem þeir sjást vel á ratsjá og voru vel innan við ísröndina. Voru þeir þó nokkuð sprungnir og ekki er talið ólíklegt að brotni úr þeim, gæti þá stafað af þeim hætta.Myndirnar sem fylgja hér með eru teknar af áhöfn TF-GNA.
Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 7. desember 2010

Aðventuhátíð Kórs Átthagafélagsins.

Kór Átthagafélags Strandamanna.
Kór Átthagafélags Strandamanna.
Aðventuhátíð Kórs Átthagafélags Strandamanna verður haldin sunnudaginn 12. desember kl. 16:30 í Bústaðakirkju. Stjórnandi kórsins er Krisztina Szklenár og einsöngvari á tónleikunum er Einar Clausen og píanóleikari Hafdís Pálsdóttir. Barnakórinn syngur undir stjórn Jensínu Waage og Elín Elísabet Jóhannsdóttir flytur hugvekju.
Glæsilegt kaffihlaðborð og mikil jólastemming. Miðaverð er 2.200 kr. fyrir fullorðna og frítt er fyrir börn hátíðargesta 14 ára og yngri. Kórinn vonast til að sjá sem flesta á hátíðinni.
Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 7. desember 2010

Almenningur getur spáð í veðrið.

Séð til Norðurfjarðar og Drangajökull í baksýn.
Séð til Norðurfjarðar og Drangajökull í baksýn.
Í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofu Íslands hefur verið hannaður leikur þar sem almenningi gefst kostur á að spá veðrinu tvo daga fram í tímann. Reglurnar eru einfaldar. Þátttakendur skrá sig til leiks og byrja að spá á mánudegi. Spáð er hvernig veðrið verður kl. 12 á hádegi á miðvikudegi og senda þarf spána inn fyrir kl. 18 á mánudaginn. Á þriðjudegi er spáð fyrir fimmtudegi o.s.frv. Ekki er spáð á laugardegi og sunnudegi þar sem ekki er ætlast til að þátttakendur sitji vaktina eins og veðurfræðingar Veðurstofunnar. Spárnar eru svo bornar saman við veðurathuganir. Síðdegis á miðvikudag eru birtar fyrstu niðurstöður og á sunnudegi eru úrslit leiksins ljós.Spáð er fyrir sex staði,tvo staði á dag,og er Reykjvík alltaf annar staðurinn en hinir staðirnir eru:Stykkishólmur,Bolungarvík,Akureyri Eigilsstaðir og Kirkjubæjarklaustur.
Nánar  á vef Veðurstofu Íslands.
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 6. desember 2010

Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 29. nóv til 6. des. 2010.

Tveir voru teknir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku.
Tveir voru teknir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku.

Í vikunni voru tveir ökumenn stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu,annar við Hólmavík og hinn í Ísafjarðarbæ.Umferð var að öðru leiti með rólegra móti og akstursskilyrði mjög misjöfn, víða hálka.Lögregla hvetur ökumenn til að fara varlega og bendir á að birtutími er mjög stuttur þessa dagana.

Fimmtudaginn 2. des.var tilkynnt til lögreglu um óhapp á þjóðvegi nr. 60 í Arnarfirði, þar hafði ökutæki lent á grjóti sem fallið hafði á veginn.Bifreiðin var óökufær og þurfti að fjarlægja hana af vettvangi með krana.Ekki slys á fólki.Sama dag var tilkynnt um bifreið utanvegna á Steingrímsfjarðarheiði,einhverjar skemmdir á ökutæki.

Föstudaginn 3. des og laugardaginn 4. des urðu tvö minniháttar óhöpp tilkynnt til lögreglu, annað á Ísafirði og hitt á Patreksfirði.Laugardaginn 4. des var tilkynnt um óhapp á Djúpvegi, þar hafnaði bifreið út fyrir veg og valt, ekki slys á fólki og eitthvert tjón á ökutæki og sunnudaginn 5. des var tilkynnt um minniháttar óhapp á Ísafirði,lítið tjón á ökutækjum.

Miðvikudaginn 1.des var tilkynnt til lögreglu að skemmdarverk hefðu verið unnin á gönguskíðasvæðinu á Ísafirði,þar hefði verið ekið á jeppabifreiðum eftir þar til gerðum stígum sem búið er að gera fyrir gönguskíðafólk og var einn jeppi þar fastur, þurfti öflugt tæki til að ná honum upp.


Meira
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 6. desember 2010

Auglýst hefur verið eftir félagsmálastjóra á Ströndum og Reykhólahreppi.

Frá Norðurfirði.
Frá Norðurfirði.

Sveitarfélögin   Árneshreppur,  Kaldrananeshreppur,  Strandabyggð og  Reykhólahreppur auglýsa nýtt og spennandi starf sameiginlegs félagsmálastjóra laust til umsóknar. Sveitarfélögin  bjóða upp á heillandi mannlíf, einstaka náttúrufegurð og fjölbreytt starfsumhverfi. Um er að ræða 70% starf með möguleikum á viðbótarverkefnum hjá sveitarfélögunum. 

Helsta starfssvið félagsmálastjóra:
Almenn fagleg félagsleg ráðgjöf

Yfirumsjón með málefnum fatlaðra

Móttaka og úrvinnsla á umsóknum um fjárhagsaðstoð

Mannaforráð og skipulag félagslegrar heimaþjónustu

Forvarnir, fræðsla og samskipti við íbúa í sveitarfélögunum

Önnur málefni félagsþjónustu sem upp koma á svæðinu

 Hæfniskröfur:

Félagsráðgjöf, þroskaþjálfun eða sambærileg menntun sem nýtist í starfi

Reynsla og framhaldsmenntun í stjórnun æskileg

Reynsla af starfi við félagsþjónustu, málefni fatlaðra eða sambærilegum störfum mikilvæg

Hæfni í mannlegum samskiptum, forystu- og skipulagshæfileikar

Frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð

Góð tölvukunnátta

Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti

Leitað er eftir einstaklingi sem hefur áræðni og dug til að vera leiðandi í uppbyggingu og þróun á félagsþjónustu á svæðinu. Félagsmálastjóri vinnur náið með nýrri sameiginlegri velferðarnefnd sveitarfélaganna fjögurra. Starfið krefst ferðalaga um svæðið og þarf félagsmálastjóri að hafa bílpróf og bíl til umráða.Staðsetning meginsstarfsstöðvar félagsþjónustunnar verður ákveðin í samráði við nýjan félagsmálastjóra.
Umsóknum ásamt ferilskrá skal skilað til skrifstofu  Strandabyggðar Hafnarbraut 19 510 Hólmavík og í síma 4513510 eða á netfangið holmavík@holmavík.is
Umsóknarfrestur rennur út sunnudaginn 12 desember næstkomandi.


Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 6. desember 2010

Vestfirðingur ársins valinn.

Vestfirðingur ársins árið 2009 var Önfirski kórstjórinn Halldór Gunnar Pálsson.Mynd bb.is.
Vestfirðingur ársins árið 2009 var Önfirski kórstjórinn Halldór Gunnar Pálsson.Mynd bb.is.
Bæjarins besta.
Bæjarins besta og bb.is efna til kosningar á Vestfirðingi ársins í samvinnu við Gullauga á Ísafirði og Skýrr hf. í Reykjavík líkt og gert hefur verið undanfarin níu ár. Til að koma tilnefningum á framfæri þarf að smella á auglýsingaborða á fréttasíðu Bæjarins besta og fylla út sérstakt form sem þar er á undirsíðu. Lesendur bb.is eru hvattir til að taka þátt í valinu og tilnefna þann Vestfirðing sem þeir telja að verðskuldi þessa nafnbót og eru þeir beðnir um að vanda valið þar sem öndvegis fólki hefur hlotnast þessi heiður í gegnum árin. Sá sem útnefninguna hlýtur fær henni til staðfestingar veglegan farandgrip frá Gullauga. Hægt er að skila inn tilnefningum til 31. desember. Tilkynnt verður um úrslitin á bb.is og í vikublaðinu Bæjarins besta fljótlega eftir áramótin.
Nánar hér á BB.ÍS.

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 5. desember 2010

Ísinn á svipuðu róli.

Ísmynd tekin í dag Kl:11:54.Ísinn 26 sml. N af Kögri.Mynd JHÍ.
Ísmynd tekin í dag Kl:11:54.Ísinn 26 sml. N af Kögri.Mynd JHÍ.
1 af 2
Samkvæmt upplýsingum frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands af radsjármyndum þar sem búið er að setja inn ísjaðarinn,frá því á föstudagskvöld og nú í dag um hádegi virðis hafísinn á svipuðu róli úti fyrir Vestfjörðum.

Eða nánar samkvæmt mynd á föstudagskvöld tekin kl:22:58 og þá var ísinn næst landi um 22 sjómílur Norður af Kögri.

Og nú í dag um hádegi sést af radsjármynd sem tekin var kl:11:54 að hafísinn er næst landi um 26 sjómílur N af Kögri,en sú mynd sýnir aðeins austari hluta svæðisins.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 3. desember 2010

Ísinn 21 sjómílu NNV af Kögri.

MODIS ljósmynd.JHÍ.
MODIS ljósmynd.JHÍ.
1 af 2

Samkvæmt ísmynd og hitamynd frá því klukkan 14:17 í dag frá Jarðvísindastofnun Háskólans þar sem búið er að setja inn hafísjaðarinn  er rúm 21 sjómíla í afar gisinn hafís NNV af Kögri en rúmar 30 sjómílur í þéttari hafís N af Kögri.
Í gær var um 28 sjómílur í ísinn frá Kögri.
Hér fylgja með Modis ísmynd og hitamynd frá Jarðvísindastonun HÍ.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 3. desember 2010

Froststilla um helgina.

Myndin tekin 1 des.Finnbogastaðafjall og Árnesfjall,sólin að setjast og baðar skýin sólarljósi.
Myndin tekin 1 des.Finnbogastaðafjall og Árnesfjall,sólin að setjast og baðar skýin sólarljósi.
Samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands er spáin góð fyrir Vestfjarðakjálkann þótt gæti kastað einu og einu éli.Annars er veðurspáin hér fyrir Strandir og Norðurland vestra:Hægviðri og bjart veður.Vestan 3-10 á morgun,skýjað með köflum og stöku él á annesjum.Frost 2 til12 stig,kaldast í innsveitum.Minkandi frost á morgun.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á sunnudag og mánudag:
Norðlæg átt, 3-10 m/s, hvassast austast. Skýjað með köflum og dálítil él norðaustanlands, en yfirleitt bjart syðra. Hiti 0 til 5 stig á annesjum V-lands, en annars 0 til 12 stiga frost, kaldast inn til landsins.
Á þriðjudag:
Norðanátt með éljum eða snjókomu, en þurrt að mestu S og V-lands. Frost 0 til 10 stig.
Á miðvikudag:
Hæglætisveður og víða léttskýjað og kalt, en skýjað og frostlaust við V-ströndina.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðvestanátt með vætu og hlýnandi veðri.
Lesendur munið eftir veðurpá sem hér til vinstri á vefnum.

Atburðir

« 2024 »
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Úr myndasafni

  • Hafís á Norðurfirði og Norðurfjarðabæjirnir sjást.
  • Bara moldarhaugur þar sem húsið var.19-06-2008.
  • Þá fer fyrsta hollið á stað,báturinn Agnes togar viðinn út.
Vefumsjón